Samtök atvinnulífsins samþykktu verkbann á starfsfólk í Eflingu með yfirgnæfandi meirihluta. 88% atkvæða skiluðu sér og 95% þeirra studdu verkbann, 3% voru á móti og 2% skiluðu auðu. Að óbreyttu hefst verkbannið á hádegi á fimmtudaginn í næstu viku.
Rök SA fyrir þessari aðgerð er að þetta einskonar neyðarviðbragð gegn verkföllum Eflingar. Nú eru um 650 manns í verkfalli en SA svarar því með því að senda 21 þúsund manns heim.
Atkvæði í Samtökum atvinnulífsins skiptast ójafnt milli fyrirtækja. Stór fyrirtæki með marga starfsmenn hafa miklu meira atkvæðamagn en lítil fyrirtæki með fáa starfsmenn. Þetta sést í stjórnarkjöri, en það eru fyrst og fremst fulltrúar stórfyrirtækja sem sitja þar. Stjórnin samþykkti verkbannsboðunina, svo það var alla tíð ljóst að hún yrði samþykkt. En þessi afgerandi meirihluti sýnir að Samtök atvinnulífsins standa þétt saman á bak við þessar ráðagerðir, að reka um 21 þúsund starfsmenn heim og um óákveðinn tíma.
Efling hefur boðað til mótmælagöngu og -fundar á morgun í Iðnó kl. 12. Á eftir fundi verður efnt til mótmælagöngu.
„Þetta verða friðsamleg mótmæli þar sem við komum með skilti, hrópum slagorð og flytjum ræður til að til að mótmæla verkbanni Samtaka Atvinnulífsins og senda skilaboð til ráðastéttar Íslands um kröfur okkar,“ stendur í tilkynningu frá Eflingu.