Í umræðum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hefur borið á því að samtök atvinnurekenda ásamt þingmönnum Sjálfstæðisflokksins vilja veikja vinnumarkaðinn með því að leggja til breytingar á lögum um skyldur og réttindi opinberra starfsmanna og þannig gera vinnumarkaðinn undirgefinn atvinnurekendum. Þá hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins með fulltingi samtaka atvinnurekenda lagt fram frumvarp um félagafrelsi á vinnumarkaði sem verkalýðsfélög og heildarsamtök þeirra hafa gagnrýnt harðlega því slíkt myndi veikja alla verkalýðshreyfinguna og réttindi launafólks. Það nýjasta í þessu, sem nú er í tísku, er aðför að réttindum vinnandi fólks með yfirskriftinni „Er ekki bara best að vinna hjá ríkinu?“ og er áróður Félags atvinnurekenda með fulltingi kjörins fulltrúa á Alþingi gegn opinberu starfsfólki.
Erna Guðmundsdóttir, lögfræðingur og sérfræðingur í vinnurétti, varar við því í grein á vef Sameykis að réttindi og skyldur opinberra starfsmanna á vinnumarkaði verði breytt. Hún segir að í lögum sé kveðið á um að opinberir starfsmenn er skylt að þeir sinni störfum sínum af alúð og samviskusemi, gæti kurteisi, lipurðar og réttsýni í störfum sínum og gæti þagnarskyldu. Einnig hvílir á þeim sérstök leiðbeiningarskylda sem ekki á við á almennum vinnumarkaði sem varða vinnuskyldu og brot í starfi eða utan þess.
„Í sérlögum er kveðið á um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna en samið hefur verið um sambærileg ákvæði í kjarasamningum fyrir starfsfólk sveitarfélaga (með opinberum starfsmönnum hér er átt við ríkisstarfsmenn og starfsfólk sveitarfélaga en starfsmenn einstaka sjálfseignarstofnana geta flokkast undir það að vera opinberir starfsmenn). Þau sem undir þetta regluverk heyra er skylt að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi, gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu, vera stundvís og gæta þagnarskyldu. Sérstök leiðbeiningaskylda hvílir á þeim ásamt skyldu til að hlýða löglegum fyrirmælum yfirmanna. Þá er opinberu starfsfólki skylt að vinna yfirvinnu sem forstöðumaður telur nauðsynlega upp að ákveðnu marki.“
Erna segir að opinberum starfsmönnum sé almennt skylt að hlýta breytingum á störfum og verksviði sem geta tekið breytingum með lögum, líkt og þegar heimsfaraldurinn skall á þjóðinni. Þá var lögum um almannavarnir breytt og kveðið var á um að borgaraleg skylda opinberra starfsmanna væri að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu svo hægt væri að halda úti nauðsynlegri grunnþjónustu. Þá segir hún um verkföll á opinberum vinnumarkaði að ákveðnir hópar opinberra starfsmanna fái aldrei að fara í verkfall. Þeir starfsmenn verða öllum stundum að tryggja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og öryggisgæslu.
Slík ákvæði í lögum á opinberum vinnumarkaði endurspegli vel þær ríku og íþyngjandi skyldur sem á opinberum starfsmönnum hvíla og kröfur sem gerðar eru til þeirra.
Enn fremur segir Erna að skyldur opinberra starfsmanna séu nátengdar hagsmunum ríkis og sveitarfélaga. Í gildi eru reglur sem ætlað er að tryggja starfsfólk ákveðna réttarvernd svo það geti sinnt starfsskyldum sínum án þess að þurfa að óttast valdhafa sem séu andsnúnir þeim.
„Þannig sé betur tryggt að starfsemi hins opinbera stuðli að réttaröryggi og stjórnfestu í starfsemi sinni. Þá hefur verið talið mikilvægt að opinber starfsmaður njóta sérstakrar verndar í starfi svo hann geti sinnt starfsskyldum sínum án þess að þurfa að óttast að þeir sem eru kosnir valdhafar á hverjum tíma beiti hann þrýstingi, eða reyni að losa sig við hann til að koma sínu stuðningsfólki að, telji þeir hann andsnúinn sér.“
Frétt af vef Sameykis. Lesa má grein Ernu Guðmundsdóttur hér: Eiga opinberir starfsmenn að njóta ríkari réttarverndar í starfi?