Búist við 0,5 punkta hækkun stýrivaxta eftir viku

Eftir að ljóst varð að verðbólgan er ekki að gefa eftir þrátt fyrir hófstillta kjarasamninga Starfsgreinasambandsins og verslunar- og iðnaðarmanna eru hagdeildir banka og virkir aðilar á skuldabréfamarkaði farnir að reikna með enn einni stýrivaxtahækkuninni frá Seðlabankanum á miðvikudaginn í næstu viku. Flest reikna með 0,5 punkta hækkun, að stýrivextirnir fari í 6,5%.

Kostnaður almennings af stýrivaxtahækkunum er mikill. Og bætist þá ofan á kjaraskerðinguna vegna verðbólgunnar, sem er réttlæting hækkunarinnar. Mest er áfallið fyrir þau sem eru með húsnæðislán á breytilegum vöxtum. Þau sem eru með jafnar afborganir af 40 m.kr. láni munu þurfa að borga rúmlega 15 þús. kr. meira ef Seðlabankinn hækkar vexti um 0,5%.

Og þau sem velta á undan sér 2 m.kr. á yfirdrætti þurfa að borga bankanum um 650 kr. meira á mánuði. Og bílalán og önnur lán hækka líka. Og hlutur fjármagnskostnaðar í öllum vörum og allri þjónustu sem fólk kaupir. Fjármálakerfið er víða með krumlur sínar, hefur frá Hruni sogað til sín í hreinan hagnað um tvær krónur af hverjum hundrað sem ferðast um hagkerfið.

Og það er ekki af miklu að taka hjá launafólki. Ef við reiknum með 6. launaflokki Starfsgreinasambandsins fékk fólk á þeim taxta 42.490 kr. launahækkun 1. nóvember. Rúmar 9 þús. kr. af því fóru í hærri skatta og gjöld svo eftir standa um 33.500 kr. Miðað við hækkun neysluvísitölu í janúar át verðbólgan 2.815 kr. af verðgildi ráðstöfunarteknanna ofan á rúmlega 3 þús. kr. skerðingu mánuðina tvo á undan. 5.900 kr. af 33.500 kr. er þegar horfin og enn tólf mánuðir eftir af samningnum.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí