Efling frestar þriðju verkfallahrynu

Efling hefur ákveðið að fresta verkföllum sem áttu að hefjast hjá ræstingarfólki, öryggisgæslu og starfsfólki á hótelum þann 28. febrúar og samþykkt voru með miklum meirihluta atkvæð.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir þau bíða niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu SA um víðtækt verkbann áður en verkfallið verði staðfest.

Framkvæmdastjóri SA Halldór Benjamín Þorbergsson hefur haldið því fram að verkfallið væri ólöglegt þar sem Efling hafi ekki staðið rétt að verkfallsboðun og samtökunum hafi ekki borist tilkynning um það.

SA sendi fjölmiðlum og félagsmönnum sínum tilkynningu um þetta í dag en þar er vísað til sextándu greinar laga um stéttarfélög og vinnudeilur og segir„Ákvörðun um vinnustöðvun, sem hefja á í þeim tilgangi að knýja fram breytingu eða ákvörðun um kaup og kjör, ber að tilkynna sáttasemjara og þeim, sem hún beinist aðallega gegn, 7 sólarhringum áður en tilætlunin er að hún hefjist.“

Efling tilkynnti vissulega um niðurstöðu atkvæðagreiðslu og um verkfallsboðunina á heimasíðu sinni og í fjölmiðlum þann 20. febrúar.

Vísir ræddi við Elísabetu S. Ólafsdóttir aðstoðarríkissáttasemjari sem staðfesti að verkfallsboðun hafi ekki borist skrifstofu ríkissáttasemjara formlega.

Hugsanlega má túlka málið sem hártoganir og lagaflækjur en engu að síður hefur Efling ákveðið að fresta vinnustöðvun þó á öðrum forsendum sé.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí