Efling krefst þess að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari víki sem sáttasemjari í deilu félagsins við Samtök atvinnulífsins og tilgreinir átta ástæður fyrir þessari kröfu. Félagið heldur því meðal annars fram að Aðalsteinn hafi samið miðlunartillöguna í samráði við forsvarsmenn Samtaka atvinnuvinnulífsins.
Daníel Isebarn Ágústdson lögmaður Eflingar sendi kröfu félagsins til ríkissáttasemjar og segir í erindi sínu að meðferð ríkissáttasemjara á máli hans fyrir héraðsdómi og efni þeirrar miðlunartillögu sem embættið lagði fram veiti skýrt tilefni til að draga í óhlutdrægni skipaðs ríkissáttasemjara í efa.
Og svo telur hann upp átta ástæður:
Í fyrsta lagi bárust Eflingu stéttarfélagi engar upplýsingar um málið fyrr en með frásögn utanaðkomandi aðila síðdegis 25. Janúar 2023 þar sem fram kom að skipaður ríkissáttasemjari hefði látið þau orð falla á kaffistofu embættisins í Borgartúni 21 að hann ásamt Samtökum atvinnulífsins væru langt komin með að semja miðlunartillögu í vinnudeilu samtakanna við Eflingu stéttarfélag sem kynnt yrði fljótlega. Þegar formaður samninganefndar Eflingar stéttarfélags hafði samband við skipaðan ríkissáttasemjara í beinu framhaldi færðist hann undan því að svara spurningum afdráttarlaust og boðaði þess í stað til fundar morguninn eftir án þess að upplýsa nánar um fundarefnið.
Í öðru lagi kynnti skipaður ríkissáttasemjari Eflingu stéttarfélagi fullbúna, frágengna og undirritaða miðlunartillögu ásamt ákvörðun um fyrirkomulag kosningar um hana strax í upphafi fundarins að morgni 26. Janúar 2023 án þess að hafa á því tímamarki haft nokkuð samráð við félagið. Þvert á móti hafði skipaður ríkissáttasemjari svo seint sem síðdegis daginn áður neitað að svara spurningum formanns samninganefndar Eflingar um málið og þannig gagngert haldið leyndum upplýsingum um fyrirhugaða miðlunartillögu sem ljóst er að undirbúningur við var þá langt kominn. Þetta var í
brýnni andstöðu við lögskipaða samráðsskyldu embættisins og áratugalanga stjórnsýsluframkvæmd.
Í þriðja lagi tók skipaður ríkissáttasemjari bæði með forsendum og efni miðlunartillögunnar eindregna afstöðu með Samtökum atvinnulífsins, gagnaðila Eflingar stéttarfélags, en tillagan var bæði sama efnis og tilboð samtakanna og studd sömu rökum. Til að undirstrika hlutdrægni tillögunnar má benda á að ein
meginforsenda hennar var sú hótun Samtaka atvinnulífsins að ekki yrði samið um afturvirkar launahækkanir kæmi til verkfalls. Virðist tillagan einkum hafa haft það markmið að koma í veg fyrir verkfall og þar með að þessi hótun kæmi ekki til
framkvæmda. Ekki virðist hafa hvarflað að skipuðum ríkissáttasemjara að unnt væri með miðlunartillögu að víkja frá samningsafstöðu annars deiluaðilans, t.d. með því að
kveða á um afturvirkni í tillögu sem lögð yrði fram eftir að verkfall væri skollið á.
Í fjórða lagi, og tengt síðastereindu atriði, tímasetti skipaður ríkissáttasemjari framlagningu miðlunartillögunnar og kosninga um hana þannig að tillagan var kynnt meðan kosningar um verkfallsboðun hjá Eflingu stéttarfélagi voru yfirstandandi og
kosningar ákveðnar þannig að niðurstaða þeirra lægi fyrir áður en verkfallið, ef það yrði samþykkt, hæfist. Allt var þetta gert með fordæmalausum flýti og án nokkurs samráðs við Eflingu stéttarfélag.
Í fimmta lagi veitti skipaður ríkissáttasemjari Eflingu stéttarfélagi vægast sagt misvísandi fyrirrmæli/tilmæli um afhendingu kjörskrár í tengslum við fyrirhugaða kosningu um miðlunartillöguna. Þannig fyrirskipaði ríkissáttasemjari afhendingu kjörskrárinnar í tvígang hinn 26. janúar 2023 án þess að geta þess að í þeim fyrirskipunum hefðu einungis falist óbindandi tilmæli um afhendingu gagna til eigin vinnsluaðila Eflingar stéttarfélags. Samhliða þeirri skýringu, sem barst næsta dag, höfðaði skipaður ríkissáttasemjari síðan dómsmál gegn Eflingu stéttarfélagi þar sem hann bar félagið þungum sökum um lögbrot og krafðist afhendingar á gögnum sem
hann að eigin sögn hafði þá aldrei gert kröfu um að fá afhent. Málshöfðun ríkissáttasemjara er eftir því sem næst verður komist fordæmalaus með öllu.
Í sjötta lagi hefur skipaður ríkissáttasemjari haft frumkvæði að því, án nokkurs samráðs við Eflingu stéttarfélag, að kynna efni miðlunartillögu sinnar opinberlega. Við framsetningu þessarar kynningar hefur, líkt og við á um efni miðlunartillögunnar, ekkert tillit verið tekið til þess sem félagsmenn Eflingar stéttarfélags færi á mis við með samþykki tillögunnar ef miðað væri við samningsmarkmið félagsins. Þvert á móti hefur kynningin miðast alfarið við samningsmarkmið Samtaka atvinnulífsins og raunar erfitt að sjá nokkurn mun á kynningu skipaðs ríkissáttasemjara og áróðri
Samtaka atvinnulífsins.
Í sjöunda lagi hefur skipaður ríkissáttasemjari sjálfur haft frumkvæði að fjölmiðlaumfjöllun um málið. Meðal annars sent fjölmiðlum tilkynningu um blaðamannafund sem hefjast myndi kl. 11, fimmtudaginn 26. Janúar 2023, áður en fundur með Eflingu hófst kl. 9:30 um miðlunartillögu sem hann átti þá eftir að kynna fyrir aðilum, í það minnsta fyrir Eflingu stéttarfélagi. Þrátt fyrir þetta verður ekki séð að skipaður ríkissáttasemjari hafi haft frumkvæði að því að kynna almenningi framanraktar staðreyndir málsins. Þvert á móti hefur skipaður ríkissáttasemjari tekið eindregna afstöðu gegn Eflingu stéttarfélagi í fjölmiðlum og ítrekað lýst því yfir að framganga félagsins sé ólögmæt.
Í áttunda lagi lýsti skipaður ríkissáttasemjari því yfir í gær, eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms, að hann ætli sér ekki að bíða eftir endanlegum dómi um meintan rétt sinn til gagna. Þess í stað krefst skipaður ríkissáttasemjari afhendingar viðkvæmra persónuupplýsinga um rúmlega tuttugu þúsund félagsmenn Eflingar á grundvelli úrskurðar undirréttar þrátt fyrir að málið sé í kæruferli. Slík harkaleg framganga skipaðs ríkissáttasemjara lýsir ásetningi til þess að koma í veg fyrir réttláta málsmeðferð Eflingar.
Í lokin skrifar Daníel að fleiri atriði mætti nefna varðandi stjórnsýslu og framgöngu skipaðs ríkissáttasemjara sem veitt getur Eflingu stéttarfélag tilefni til að efast um óhlutdrægni hans í málinu, s.s. þá staðreynd að ríkissáttasemjari hefur neitað að verða við ítrekuðum beiðnum félagsins um afhendingu gagna málsins og ekki upplýst félagið um nöfn þeirra sjálfstætt starfandi sérfræðinga sem að sögn embættisins hafa veitt því ráðgjöf vegna málsins.