Halldór Benjamín mætti tómhentur í karphúsið

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, lýsti því yfir áður en hann mætti til fundar við Ástráð Haraldsson, nýjan sáttasemjara, og samninganefnd Eflingar að Samtök atvinnulífsins hefðu ekkert að bjóða í viðræðunum, myndu ekki haggast frá fyrri afstöðu um að koma ekkert til móts við kröfur Eflingar. SA stefnir því á langt verkfall. Samtökin vonast til að Efling gefist upp á endanum og fallist á allar kröfur SA.

Sem fyrr sagðist Halldór Benjamín bundinn trúnaði við það launafólk sem SA hefði samið við og gaf því til kynna að í þeim samningum hafi verið samið um að enginn fengi neinar launahækkanir umfram það sem samið var við Starfsgreinasambandið. Formenn þeirra félaga sem samið var við hafa ekki staðfest þetta samkomulag. En heldur ekki andmælt þessum fullyrðingum Halldórs Benjamíns.

Eins og Samstöðin benti á í gær má ætla að það kosti fyrirtækin í landinu aðeins um 6 milljarða króna að ganga að öllum kröfum Eflingar. Það er um 0,5% af EBITDA hagnaði fyrirtækjanna í fyrra, það er hagnaði fyrir afskriftir, skatta, fjármagnskostnað og arð. Tap fyrirtækja á verkföllunum verður umtalsvert, telja má að þessir 6 milljarðar króna verði þegar tapaðir um eða eftir næstu helgi.

Það eru því ekki efnahagslegar ástæður að baki afstöðu Halldórs Benjamíns og Samtaka atvinnulífsins heldur pólitískar. Samtökin vilja að fyrirtækin í landinu taki á sig mikið tap til að sýna og sanna að öll verkalýðsfélög í landinu verði að beygja sig undir þá samnnga sem SA tókst að gera í byrjun desember við Starfsgreinasambandið.

Þar sem SA ætlar ekki að koma neitt til móts við kröfur Eflingar virðist áætlun samtakanna nú vera sú að fá ríkisstórnina til að setja lög á verkfallið. Fyrst var planið að fá sáttasemjara til að stöðva verkfallið með miðlunartillögu. Þegar Efling neitaði að afhenda félagaskrá var planið að dómstólar myndu neyða félagið til þess. Þegar það brást er fátt eftir nema lagasetning á kjarabaráttu láglaunafólksins í Eflingu.

Það verður hins vegar að teljast ólíklegt að ríkisstjórnin setji lög á verkfall Eflingar í bráð. Áður en til þess getur komið munu fyrirtækin í landinu hafa tapað tugum milljarða. Það er fórn sem Samtök atvinnulífsins telur þess virði að leggja á fyrirtækin.

Svo virðist sem SA sé staðföst í þeirri afstöðu að berja verði niður verkfalls- og samningarétt Eflingarfólks, að fyrirtækjaeigendur eigi ekki að þurfa að semja við félag þess. Og að ríkisvaldið eigi að styðja fyrirtækjaeigendur í þessari stefnu sinni, að hafna lýðræðislegum rétti láglaunafólks til að semja um kjör sín og þrýsta á um kröfur sínar.

Hlýða má viðtal Ríkisútvarpsins við Halldór Benjamín hér: Segir ekki koma til greina að ganga að kröfum Eflingar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí