Hvað var Landsréttur að dæma um?

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs hefur kallað eftir gagngerri endurskoðun á vinnulöggjöfinni í kjölfar úrskurðar Landsréttar í dómi um réttmæti aðfarargerðar Ríkissaksóknara til að afla félagatals Eflingar með valdi, þar sem hún telur að „löggjöfin sé ónýt“. Samtök atvinnulífsins hafa einnig lýst yfir ósætti með dóminn og tekið í sama streng. Embætti Ríkissáttasemjari og Efling gerðu samkomulag um að áfrýja ekki niðurstöðu dómsins. 

Í kjölfar dómsúrskurðar 13. febrúar var Aðalsteinn Leifsson viðmælandi í fréttatíma RÚV. Þar lét hann hafa eftir sér: „Landsdómur segir hátt og skýrt að miðlunartillagan var löglega fram sett“. Dómsmálið fjallaði hinsvegar með engum hætti um lögmæti miðlunartillögu Aðalsteins. Ríkissáttasemjari hefur í framhaldi sagt sig frá deilunni. 

Hinsvegar kemur fram í dómi Landsréttar í yfirferð á eðli laganna sem eru til grundvallar dómsins, að miðlunartillögur almennt séu vissulega eitt af verkfærum Ríkissáttasemjara. 

Hvað er það þá sem Landsdómur hefur sagt „hátt og skýrt“, ef ekki um réttmæti miðlunartillögunnar? Dómurinn snérist um það hvort Eflingu beri skylda til að veita Ríkissáttasemjara aðgang að kjörskrá félagsins. 

Förum aftur í tímann þegar lögin eru sett 1978. Þorvaldur Garðar Kristjánsson (XD) er framsögumaður á frumvarpi laganna. Landsréttur vitnar til þess að við setningu laganna komu andmæli frá ASÍ við aukinni heimild til að sækja félagatöl með valdi og sú heimild felld úr frumvarpinu. 

Í dómnum segir um þessa atburðarrás: „Í frumvarpi sem varð að lögum nr. 33/1978 um sáttastörf í vinnudeilum, sem voru tekin upp í III. kafla laga nr. 80/1938 við setningu laga nr. 75/1996, var lagt til í 5. mgr. 9. gr. frumvarpsins  að varnaraðila yrði fengin heimild til að fá afhenta kjörskrá áður en atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu hæfist. Sagði þar orðrétt: „Áður en atkvæðagreiðsla hefst skal afhenda sáttasemjara kjörskrá.“  Fyrir liggur að þessi tillaga var felld út úr frumvarpinu áður en það var samþykkt sem lög nr. 33/1978. Var tillagan felld úr frumvarpinu samkvæmt tillögu félagsmálanefndar sem hafði fengið frumvarpið til umsagnar eftir fyrstu um ræðu. Var breytingin á frumvarpinu gerð að fengnum umsögnum frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.“

Hér er verið að falla frá valdaukningu Ríkissáttasemjara og tryggja jafnfræði milli aðila vinnumarkaðarins. Gísli Tryggvasonar lögmaður bendir á að þegar umdeild ákvæði hafa farið í þennan feril í gegnum meðferð Alþingis, farið inn og svo aftur út úr frumvarpi, þá sé það skólabókardæmi um að löggjafinn hafi tekið skýra afstöðu til tiltekinna atriða sem dómstólar beri að taka tillit til. Slíkt taki af vafa um tilgang og afstöðu löggjafans sem hjálpi dómstólum að komast að óumdeildum niðurstöðum. 

Aðspurður hvort skortur á heimild til að sækja kjörskrá með valdi hafi verið fellt úr frumvarpinu til að tryggja fulla sátt um miðlunartillögur – einskonar flétta milli laga til að koma í veg fyrir ákveðna atburðarrás eða til að tryggja hóf – telur Gísli svo ekki endilega vera. Oft komi það ekki fram fyrr en miklu seinna hver kross-áhrif laga eru þegar á þau reynir, en að sjónarmiðið hafi hinsvegar verið skýrt og á það fallist í meðferð Þingsins að koma í veg fyrir aukningu valdheimilda Ríkissáttasemjara með þessum hætti. Þegar stéttarfélag með mikinn slagkraft eins og Efling sé tilbúið til að rekja mál fyrir dómstólum þá geti það haft þær afleiðingar að skýra línur í vinnudeilum þó langur tími líði milli setningu laga og dómsúrskurðar.

Í ummælum Samtaka atvinnulífsins og aðila sem standa þeim nærri hefur mátt ráða að miðlunartillaga sé þrautavaraleið ríkisins til að koma í veg fyrir verkföll eða hana megi nota til að binda enda á deilur sem þóknast ekki öðrum aðilanum að taka þátt í. Af dómi Landsréttar, og lögunum sjálfum, má hinsvegar ráða að það er ekki tilgangur miðlunartillaga. 

Efling hefur kært lögmæti miðlunartillögunnar til Héraðsdóms þar sem að, skv. Eflingu, ein af lagalegum undanförum miðlunartillaga af þessum toga sé samráð allra deiluaðila sem hafi ekki átt sér stað í þessu tilviki. Hvort málið verði áfram rekið nú þegar Ástráður Haraldsson hefur tekið við sem ríkissáttasemjari í deilunni gæti ráðist af því hvort hann haldi miðlunartillögunni til streitu. 

Enn er óráðið hvort að Ríkissáttasemjari geti knúið fram atkvæðagreiðslu með öðrum leiðum en með því að hafa sjálfur undir höndum félagatal og þar með lista yfir kjörgengna einstaklinga. Velta má því upp hvort Aðalsteinn hafi fellt sjálfan sig með því að ætla sínu eigin embætti framkvæmd á kosningunni, þar sem hann fór í kjölfarið fram á afhendingu kjörskrá gegn vilja Eflingar. Ennfremur má velta því upp hvort framkvæmd kosninga um miðlunartillögu sé yfir höfuð möguleg án samstarfsvilja stéttarfélagsins. 

Sjá má og heyra viðtalið við Gísla Tryggvason í spilarnum hér að ofan.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí