Markmiðið að tæma verkfallssjóð Eflingar

Taktík stjórnar Samtaka atvinnulífsins með boðuðu verkbanni virðist vera að tæma verkfallssjóði Eflingar svo félagið geti ekki boðað til verkfalla mörg næstu ár. Efling gæti haldið úti boðuðum verkföllum fram í miðjan maí. En ef félagið vill greiða félagsmönnum bætur vegna verkbanns SA myndi vinnudeilusjóðurinn tæmast á sex dögum.

Í viðtali við Vísi sagði Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA: „Mynstur sem er að teiknast upp á íslenskum vinnumarkaði er þetta, Efling hefur undir núverandi forystu gert fimm stóra kjarasamninga og alltaf farið í verkfall. Það er tími til þess að brjóta það upp.“

Það er því augljóst hvert markmiðið er, að brjóta niður baráttugetu Eflingar. SA er með þessu orðið að pólitískum baráttusamtökum. Það er öllum ljóst að verkbannið mun kosta fyrirtækin gríðarlega fjármuni, líklega meira á einum degi en það kostar þau á ári að verða við kröfum Eflingar. Stjórn SA vill því verja tugum milljarða af fé fyrirtækjanna í baráttu sinni gegn þeirri forystu sem láglaunafólkið valdi sér í Eflingu.

Í Vinnudeilusjóði Eflingar voru rúmir 3 miljarðar króna í árslok 2021. 15% félagsgjalda renna í sjóðinn og ætla má að um 140 m.kr. hafi bæst við sjóðinn og síðan hafi hann ávaxtast um 100 m.kr. eða svo, sé í dag nálægt 3,2 til 3,3 milljörðum króna.

Þegar verkföll 297 félaga Eflingar hjá Íslandshótelum hófst samþykkti samninganefndin að greiða út 23 þús. kr. í verkfallsstyrk á dag. Ein vika af því verkfalli kostaði því um 34 m.kr.

Með verkföllum bílstjóra hjá Olíudreifingu, Skeljungi og Samskipum og hótelþernum á Berjaya hótelkeðjunni bættust 561 við í verkfallið. Þá var líka samþykkt að hækka verkfallsstyrkinn í 25 þús. kr. á dag. Verkfall þessa hóps til viðbótar við Íslandshótel kostar vinnudeilusjóð Eflingar um 107 m.kr. á viku.

Í kvöld líkur kosningu um 1650 félaga um verkföll hjá öllum hótelum og gistihúsum, hjá ræstingar- og öryggisfyrirtækjum. Ef verkföll verða samþykkt munu um 2500 manns verða komin í verkfall frá og með hádegi 28. febrúar, hálfum sólarhring áður en boðað verkbann Samtaka atvinnulífsins á að byrja.

Verkfall þessa hóps mun kosta vinnudeilusjóðinn um 313 m.kr. á viku. Miðað við stöðu sjóðsins dugar hann til svona verkfalls í meira en tíu vikur.

Ef af verkbanni verður, sem yrði fysta víðtæka verkbann sögunnar, myndi það hins vegar kosta Eflingu um 525 m.kr. á dag, ef félagið kýs að borga verkfallsbætur til félaga sem sendir verða heim. Sjóðurinn myndi tæmast á sex dögum.

Vinnudeilusjóður Samtaka atvinnulífsins var rúmir 4 milljarðar króna í árslok 2020. Áætla má að hann sé um 4,5 milljarðar króna í dag. Samtökin lýstu því yfir að þau myndu greiða Íslandshótelum allan þann skaða sem fyrirtækið yrði fyrir vegna verkfalls Eflingar. Erfitt er að meta skaða fyrirtækjanna af verkbanni, en það er gríðarlegt því samfélagið myndi nánast lamast. Icelandair hefur sagt að tap sitt af lokun Reykjanesbrautar í einn dag hafi verið milljarður. Þótt fyrirtækin spari launaútgjöld til Eflingar þurfa þau að borga öll önnur laun og allan kostnað á sama tíma og tekjurnar hverfa.

Það er því langt í frá að SA geti bætt fyrirtækjunum tap þeirra af verkbanninu, jafnvel þótt það þyki skynsamlegt að tæma hann fyrr verkbann í einn dag. En fyrirtækin eiga miklar eignir og verkbannið verður fyrst og. síðast fjármagnað með því.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafnaði því í samtali við mbl.is að vinnudeilusjóður félagsins yrði notaður til að bæta Eflingarfólki töpuð laun í verkbanni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí