Magnús M. Norðdahl lögfræðingur Alþýðusambandsins segir það misskilning hjá ráðherrum að úrskurður Landsréttar sýni að breyta þurfi vinnulöggjöfinni. Úrskurður Landsréttar hafi ekki verið um vinnulöggjöfina heldur aðfararlög. Ef það er galli í lögum þá er sá galli í aðfararlögum en ekki vinnulöggjöfinni.
Magnús kom að Rauða borðinu í gær og ræddi lögfræðina í kjaradeilum, einkum kjaradeilu Eflingar og SA. Hann sagðist telja að verkbann Samtaka atvinnulífsins væri líklega sett fram til að skapa krísu, til að ýta undir kröfur fyrirtækjaeigenda um að aukið vald ríkissáttasemjara og veikingu verkalýðshreyfingarinnar. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði lagt fram frumvarp þess efni.
Magnús sagði íslenska vinnumarkaðsmótelið og vinnulöggjöfin hafi reynst vel. Það sæist bæði í samanburði við aðrar þjóðir, hvort Íslendingum hafi tekist að byggja upp kaupmátt og einkum lægstu laun. Og líka hvernig vinnumarkaðsmótelið reyndist í Hruninu. Þar tókst Íslendingum að vinna sig fljótt upp úr vandanum og endurvinna kaupmáttinn.
Magnús sagðist ekki hafa neina trú á að ríkisstjórninni setti lög á verkföll Eflingar enda væru ekki til þess nægar forsendur. Stjórnvöld geta gripið inn í kjaradeilur ef almannahag er ógnað. Það dugar ekki ef fjárhagslegum hagsmunum einstakra fyrirtækja sé ógnað. Fyrir þessu liggja margir úrskurðir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar þar sem íslensk stjórnvöld hafa meðal annars verið snupruð fyrir að grípa inn í vinnudeilu með lögum þegar til þess var ekkert tilefni.
Magnús lýsti upphafi þeirrar umgjörðar sem byggst hefur upp utan um kjaradeilur í okkar heimshluta. Upphafið má rekja til endaloka fyrri heimsstyrjaldar þegar gerð var sátt í mörgum ríkjum um að kjarabarátta þyrfi að eiga sér stað, að hún væri eðlileg átök innan ríkja sem ekki mætti þrýsta niður eða bæla. Ef það væri gert væri hættan sú að launafólkið myndi rísa upp og bylta stjórnvöldum. Umgjörð kjaradeilna snýst því um að gefa hinum nafnlausa fjölda færi á að sækja á með sínar kröfur, meðal annars með verkföllum. Þetta er friðsamt stríð þar sem þvingunaraðgerðum er beitt og þar sem fjármunir tapast. En þar sem enginn meiðist og þjóðskipulagið riðlast ekki.
Heimildir stjórnvalda til að grípa inn í þessi átök eru takmörkuð. Það er ekki nóg að fyrirtækin skaðist og missi viðskipti. Það þarf að vera einhver almannavá. Engu slíku er til að dreifa vegna verkfalla Eflingar. Stjórnvöld hafa því ekki forsendur til að setja lög á þau.
Þessi hugmynd, að stjórnvöld eigi að setja lög á verkföllin, er eins og kanína sem hleypur um að allir elta. Og missa sjónar á verkefninu, sem er að semja um kaup og kjör.
Magnús vildi ekki spá fyrir um lagasetningu á verkbann Samtaka atvinnulífsins. Ekki heldur hvort félagsdómur myndi dæma verkbannið löglegt, en Efling mun líklega skjóta því til félagsdóms. Það er hefðin, að láta félagsdóm úrskurða um aðgerðir sem ekki hefur áður reynt á fyrir dóminum.
Farið var yfir víðari völl í viðtalinu, sem sjá má og heyra í spilarnum hér að ofan.