Verðbólga át skattalagfæringu ríkisstjórnarinnar

Í janúar jókst ráðstöfunarfé fólks sem fær borgað samkvæmt 6. launaflokki Starfsgreinasambandsins um rétt rúmar fimm þúsund krónur vegna hækkunar persónuafsláttar þrátt fyrir verðbólgu. Samkvæmt hækkun neysluvísitölu í febrúar er þessi ávinningur farinn að mestu, aðeins 420 kr. eftir. Þær munu fjúka í verðbólgu marsmánaðar.

Verðbólgan er miklu meiri en reiknað var með við gerð fjárlaga. Þær áætlanir voru lagðar til grundvallar kjarasamninga Starfsgreinasambandsins, iðnaðar- og verslunarmanna. Þarna var gert ráð fyrir 5,6% verðbólgu á þessu ári en fyrstu tvo mánuði ársins hefur verðbólgan verið nánast tvöfalt meiri.

Þetta raskar forsendum kjarasamninga og þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin lagði til þeirra. Ef við miðum við 6. launaflokk Starfsgreinasambandsins þá hækkaði ráðstöfunarfé fólks á þeim taxta í nóvember um 25.592 kr. á núvirði vegna launahækkana, eftir að verðbólgan hafði nartað í þær. Verðbólgan kroppaði síðan 2.182 kr. af þessari hækkun í desember en með skattabreytingum um áramótin hækkaði ráðstöfunarféð um 5.016 kr. í janúar þrátt fyrir aukna verðbólgu. Í febrúar kom hins vegar engin hækkun á móti verðbólgunni og ráðstöfunarféð lækkaði um 4.596 kr.

Þá sat eftir 23.829 kr. hækkun vegna launahækkana og lagfæringa á skattkerfinu. Ef verðbólgan bítur þetta jafnt ákaft og í febrúar mun þessi ávinningur verða horfinn í júlí. Þá verða sex mánuðir eftir af samningstímanum og fáar varnir gegn verðbólgunni.

Þetta er skárra ef við tökum húsnæðisbætur með, en þær hækkuðu líka um áramótin. Sá sem fær slíkar bætur og er á 6. launaflokki SGS á eftir um 27.607 kr. af kjarabótum samninga og aðgerða, en þær munu étast jafn hratt og hjá öðrum, verða horfnar um mitt sumar ef verðbólgan dregst ekki snöggt saman. Sem enginn reiknar með að gerist.

Ef samningarnir fyrir jól eiga ekki að falla saman verða stjórnvöld að lækka skatta á lægstu laun og hækka húsnæðis-, barna- og vaxtabætur. Að öðrum kosti mun launafólk standa verr í haust en það hefur gert árum saman.

Ef við miðum við síðustu hækkanir launataxta fyrir samningana fyrir jólin, það er í janúar 2021 og 2022 og í apríl 2022 þegar hagvaxtarauki datt inn þá er ráðstöfunarfé fólksins á 6. taxta SGS nú aðeins 7-11 þús. kr. hærra en var á þessum tímamótum. Ef verðbólgan fær að geisa óáreitt þá mun það gerast fljótt að ráðstöfunarfé, og þar með auðvitað kaupmáttur, verkafólks fer undir það sem hann var 2021 og 2022.

Forsendur undir þessum samningum og tilheyrandi aðgerðum ríkisstjórnarinnar eru því brostnar. Samningarnir munu ekki tryggja kaupmátt, nema verðbólgan gefi skyndilega og mikið eftir.

Þetta sjá allir. Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, sagði í útvarpinu í hádeginu að stjórnvöld yrðu að koma með aðgerðir til að verja hin tekjulægstu fyrir verðbólgunni. Hann sagði ólíklegt að verðbólgan færi undir 6-7% í árslok, sem merkir að hún mun verða um 8,5% að meðaltali á árinu, næstum 3% hærri en reiknað var með við gerð kjarasamninga.

Það vantar því 3% launahækkun upp á samningana, miðað við það sem fólk taldi sig vera að semja um. Það eru 12.500 kr. fyrir þann sem fær borgað samkvæmt 6. taxta SGS, sem er nærri framfærsluuppbótinni sem Efling fór fram á.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí