Bankarnir þrýsta á að Seðlabankinn hækki stýrivexti

Hagdeildir bankanna stíga nú fram hver af annarri og ýta undir hækkun stýrivaxta Seðlabankans í næstu viku. Forstöðumenn hagdeildanna hafa í raun tekið yfir meginstraums-fjölmiðlana, sem láta sem þeir séu óháðir álitsgjafar. Staðreyndin er hins vegar að þetta er starfsfólk banka sem hafa gríðarlegan hag af vaxtahækkunum.

Una Jónsdóttir forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans sagði við Ríkisútvarpið í morgun reikna með 50 til 100 punkta hækkun, það er að stýrivexirnir færu í 7,0% til 7,5%. Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka spáði 75 punkta hækkun í gær, að stýrivextir færu í 7,25%.

Þetta er boðskapurinn sem byggir upp umræðuna innan meginstraumsmiðlanna í aðdraganda stýrivaxtahækkunar. Fjölmiðlarnir hafa útvistað greiningu á ástandinu til viðskiptabankanna, sem eru þeir aðilar sem mestan hag hafa á hækkun vaxta. Og eru líka aðilar sem almenningur ber ekkert traust til, að fenginni reynslu. Almenningur ber minna traust til bankanna en Alþingis, sem 3/4 almennings ber ekki traust til.

Fall bandarísku bankanna SVB og Signature um helgina og vandræði Credit Suisse í þessari viku draga fram afleiðingar af vaxtahækkunum seðlabanka á undanförnum misserum. Þær magna upp vandræði þeirra sem eru í vandræðum fyrir. Verðbólga virðist hafa náð toppi bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. Þetta tvennt, að verðbólgan sé farin að gefa eftir og vaxandi hætta sé á skjálftar á fjármálamörkuðum magnist, hefur dregið úr líkum á að seðlabankar Bandaríkjanna og Evrópu hækki vexti í næstu viku.

Eins og fram kom í viðtali við Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðing í fjármálum, við Rauða borðið standa seðlabankar nú frammi fyrir miklu vanda. Annars vegar er verðbólga sem kallar á vaxtahækkun. Hins vegar eru augljósir brestir í fjármálakerfinu sem geta leitt samdrátt yfir hagkerfið, sem kalla í raun á vaxtalækkun, í það minnsta óbreytta vexti. Það verður því spennandi að sjá hvað þessir seðlabankar gera í næstu viku, hvort vextir munu hækka eins og gert var ráð fyrir fyrir nokkrum vikum eða hvort skjálftarnir sem ríða yfir fjármálamarkaðina muni leiða til þess að vöxtum verði haldið óbreyttum. Þótt markmið Seðlabanka sé að draga úr verðbólgu vilja þeir ekki keyra hagkerfið niður í langvarandi samdrátt og kreppu.

Þótt ekki sé enn komið fram hvernig verri fjármögnunarstaða fyrirtækja og heimila munu koma fram hér á landi er ljóst að þeir skjálftar sem skekja erlenda markaði munu ná hingað. Hærri vextir afhjúpa veikleika þeirra sem hafa teygt sig of langt, hætt of miklu í von um að græða enn meira. Og slík fyrirbrigði eru sannanlega til hér. Og þótt engin sakni þeirri þegar þau hrynja, þá er hætt við að hrun þeirra skaði fjölda annarra.

Sjá má og heyra greiningu Ásgeirs Brynjars á ástandinu í spilarnum hér að neðan:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí