Beitt ofbeldi þegar hún fór í meðgöngurof á Landspítalanum: „Ég var sprautuð, öskrandi NEI“

„Ég skil samt enn ekki hvers vegna þeim var svona mikið í mun að fá mig til að gangast undir þessa aðgerð. Mögulega gæti hér skipt máli að annað okkar er ekki hvítt og íslenskt, mögulega ekki. Mögulega eru fordómarnir gegn fátækum einstæðum mæðrum og drusluskömmun hér yfirsterkari en rasisminn, en kannski bara hvort tveggja.“

Þetta segir kona í nafnlausri frásögn sem birtist innan Facebook-hópsins Rétturinn til að lifa. Markmið hópsins er að greina frá sögum af mannréttindabrotum í íslenska heilbrigðiskerfinu. Fyrrnefnd kona lýsir því hvernig hún var nánast þvinguð í meðgöngurof á Landspítalanum, þrátt fyrir að vera mjög tvístígandi, ólétt af eineggja tvíburum og komin lengra en 12 vikur á leið. 

Hér fyrir neðan má lesa frásögn konunnar í heild sinni.

Fyrir um 15-16 árum varð ég ólétt þrátt fyrir getnaðarvarnir. Hvorugt okkar var í góðum aðstæðum til að eignast fleiri börn (áttum bæði börn fyrir) og ég bókaði því tíma til þess að kanna möguleika á meðgöngurofi. Fyrsta skref var að fara í sónarskoðun, en þar kom tvennt í ljós. Annars vegar að ég var gengin aðeins lengra en ég hélt, og í öðru lagi að ég gekk með tvíeggja tvíbura. Ég varð að sjálfsögðu mjög slegin við þessar fréttir og varð mjög tvístígandi varðandi hvort ég vildi fara í meðgöngurofið eða ekki.

Ég var boðuð í viðtal við einhverja konu sem mig minnir að hafi verið læknir niðri á Landspítala. Hún var mjög ýtin á að ég gengist undir aðgerðina og ég man ég hitti hana oftar en einu sinni og hún sagði alltaf við mig: „Þú tekur bara þessa ákvörðun sjálf og lítur aldrei til baka.“ Hún þreyttist ekki á því að segja mér hvað þetta væri mun betri ákvörðun fyrir mig, en bætti svo gjarnan við að ég réði þessu svo sem sjálf, með frekar “disapproving” tóni.

Þar sem ég var gengin lengra en 12 vikur þurfti hún að sækja um undanþágu fyrir mig til að gangast undir aðgerðina, þar sem meðgöngurof eftir 12 vikur krafðist slíks leyfis, líklega frá landlækni. Ég óskaði þess allan tímann að því yrði synjað, en svo varð ekki. Mér fannst allir þarna vera að ýta mér út í að ljúka þessu bara af og jafna mig svo. Ég hafði engan þarna sem stóð með mér eða reyndi eitthvað að fiska eftir hvað ég raunverulega vildi eða hvernig hægt væri að aðstoða mig með aðra ákvörðun.

Þegar kom svo að aðgerðardeginum þá brotnaði ég alveg niður, sem er óvenjulegt fyrir mig þar sem ég græt almennt ekki (þarf virkilega mikið til að græta mig). Ég grét á meðan ég beið. Kvenlæknirinn sem ég hafði hitt áður kom aftur og sagði mér að harka bara af mér. Mig rámar í að einhver félagsráðgjafi hafi komið en hún hafði lítið að segja, enda gat ég lítið talað fyrir ekka og hún fór. Mér voru gefin kæruleysislyfin og ég hélt áfram að gráta stjórnlaust. Að lokum var mér rúllað inn á skurðstofu og ég var enn grátandi. Læknirinn var pirraður og sagði mér að slaka á. Hann ætlaði að sprauta mig með svæfingarlyfinu en ég hélt um handlegginn og grét. Hann kallaði eftir liðsauka og mér var haldið niðri á meðan ég var sprautuð, öskrandi NEI. Svo datt ég út.

Eftirköstin voru hræðileg. Mér blæddi endalaust og var kvalin af verkjum. Enn mældist mikið magn af meðgönguhormónum í líkamanum viku eftir aðgerðina og mér var tjáð að ég þyrfti mögulega að fara í útskröpun. Læknirinn sem hafði framkvæmt aðgerðina var kallaður til og hann var jafn kaldranalegur og þegar hann hafði með valdi svæft mig nokkrum dögum áður. Hann hreytti út úr sér (orðrétt tilvitnun): „Þetta var náttúrulega svo stórt að það var erfitt að ná þessu út“. Enginn hafði varað mig við þessum eftirköstum, né varað mig við mögulegum afleiðingum af að fara svona seint í þessa aðgerð. Allir sögðu bara að þetta yrði „ekkert mál“ en ég var lengi að jafna mig.

Ég var alveg ein eftir aðgerðina. Ég fékk engan stuðning og enga eftirfylgni. Ekkert. Ég datt út úr náminu mínu og lenti í miklum vanskilum sem ég er enn að glíma við. Ég fékk engin vottorð, enda ekki með heimilislækni eða neinn að leita til.

Öllum þessum árum síðar hef ég ekki enn sagt neinum almennilega frá þessu og get ekki enn komið fram undir nafni þar sem ég hef ekki rætt þetta við börnin mín. Kannski einn daginn, ég veit það ekki.

Í dag er ég auðvitað búin að sætta mig nokkurn veginn við þessa ákvörðun, enda þekki ég ekki lífið án hennar, en ofbeldið sem ég varð fyrir á Landsspítalanum situr enn í mér. Ég sé stundum eftir að hafa ekki sent inn einhverskonar kvörtun um þá meðferð sem ég fékk og hugsa til þess með hryllingi að fleiri konur hafi lent í þessu fólki. Þarna á svo sannarlega við að ofbeldi þrífst í skömminni sem sveipar meðgöngurof. Við erum ekki mikið að tala um slíkar aðgerðir, enda kemst starfsfólkið greinilega upp með ýmislegt.

Ég skil samt enn ekki hvers vegna þeim var svona mikið í mun að fá mig til að gangast undir þessa aðgerð. Mögulega gæti hér skipt máli að annað okkar er ekki hvítt og íslenskt, mögulega ekki. Mögulega eru fordómarnir gegn fátækum einstæðum mæðrum og drusluskömmun hér yfirsterkari en rasisminn, en kannski bara hvort tveggja. Mögulega fæ ég aldrei svör við þessu.

Þetta er því miður ekki eina slæma upplifunin úr heilbrigðiskerfinu sem ég by yfir, en sú eina sem ég treysti mér ekki til að setja fram undir nafni. Það er virkilega erfið ákvörðun að pósta þessu hér, sérstaklega þar sem ég hef að mestu lokað þessum kafla í lífinu. Er samt búin að vera með ofangreinda frásögn uppskrifaða lengi og hugleitt margoft að pósta henni á ýmsum vettvangi, en aldrei látið verða af því. Ég trúi hinsvegar að hún eigi heima hér.

Það er mín veika von að hún hjálpi einhverjum þótt hún sé seint á ferðinni (um 15-16 árum of seint). 

Hér má finna fyrrnefndan hóp, Rétturinn til að lifa, og lesa fleiri sögur af hrörnandi heilbrigðiskerfi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí