Ákveðið var á fundi borgarstjórnar í dag að leggja niður Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Tillögu flokka minnihlutans um að fresta málinu var á sama tíma felld. Rökin með niðurlagningu skjalasafnsins voru að í því fælist gífurleg „hagræðing.“
Rétt í þessu var samþykkt af flokkum meirihlutans í borgarstjórn að leggja niður Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Leitað verði til Þjóðskjalasafnsins vegna framtíðarhögunar skjala sem voru fyrir í faðmi Reykjavíkur.
Verkefni sem snúi að menningarmiðlun eiga að færast til Borgarsögusafns og/eða annarra menningarstofnana á menningar- og íþróttasviði skv. nánari útfærslu.
Miklar umræður sköpuðust vegna málsins á fundi borgarstjórnar. Fulltrúar minnihlutaflokkanna töluðu um óvönduð vinnubrögð sem væru unnin í alltof miklum flýti. Flokkar meirihlutans vildu meina að tillagan væri þörf til þess að hagræða í rekstri borgarinnar og að nútímavæða.
Mikil ósátt hefur ríkt með undirbúning málsins. Héraðsskjalaverðir um allt land hafa sent frá sér ályktanir þar sem áformunum er harðlega mótmælt. Auk þess hefur borgarskjalavörður alls ekki verið sátt með vinnu málsins og mótmælir áformunum.