Fasteignafélögin skulda of mikið og sigla inn í taprekstur

Mikill viðsnúningur var á rekstri fasteignafélagana þriggja í kauphöllinni á síðasta ári. Hækkun vaxta á miklar skuldir keyrði hefðbundinn rekstur niður í tap. Í fyrra bættu matsbreytingar þetta upp svo bókfærður hagnaður var hjá félögunum. En fasteignir munu ekki hækka á þessu ári og vextirnir eru enn að skrúfast upp. Það er því ekki bjart fram undan hjá Eik. Regin og Reitum.

Stærsti einkafjárfestirinn í þessum félögum öllum er Brimgarðar, sem er eignarhaldsfélag systkinanna í Mata, Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra. Þau systkini eiga líka Ölmu leigufélag. Frá því um vorið í fyrra hefur markaðsvirði hlutar Brimgarðs í félögunum þremur lækkað um rúma 5,7 milljarða króna.

Bókfærður hagnaður þessara félaga hefur undanfarið árið verið að stóru leyti vegna matsbreytinga, bókfært virði eignanna hækkar í bókunum eftir því sem fasteignaverð skrúfast upp. Þetta er hins vegar aðeins hagnaður í bókunum, til að innleysa hann þurfa félögin að selja eignirnar.

Ef við berum saman árin 2021 og 2022 sést vel hvaða áhrif aukinn fjármagnskostnaður hefur á svona félög. Ef við sleppum matsbreytingum þá var hagnaður eftir fjármagnskostnað í Reitum rétt tæplega milljarðar króna árið 2021 en tap upp á rúman 1,5 milljarð króna 2022. Hjá Reginn var hagnaður eftir fjármagnskostnað, en án matsbreytinga, rúmlega 600 m.kr. árið 2021 en tap upp á rúmlega 2,6 milljarða króna 2022. Og hjá Eik var hagnaðurinn samkvæmt þessum forsendum milljarður króna 2021 en árið 2022 var tap rúmlega 650 m.kr.

Það var ekki tap á þessum fyrirtækjum árið 2022 vegna þess að matsbreytingar eigna hífðu upp bókfærða stöðu. Á því ári hækkuðu fasteignir mikið. En þær eru hættar að hækka. En ekki vextirnir og fjármagnskostnaður. Það má því búast við að uppgjör félagana á árinu 2023 verði mun svartari.

Tap fyrir matsbreytingar merkir ójafnvægi á rekstur félaganna. Reksturinn skilar ekki nægum tekjum til að standa undir rekstrar- og fjármagnskostnaði. Þau þurfa þá að ganga á sjóði sína, hækka leiguna eða selja eignir til að mæta hækkun fjármagnskostnaðar.

Staða fasteignafélaga var eitt af því marga sem kom við sögu í samtali Þórarins Stefánssonar, sem þekkir til tæknigeirans í Silcon Valley, og Ásgeirs Brynjars Torfasonar, sem þekkir til efnahagsreikninga banka, við Rauða borðinu þar sem þeir spáðu í stöðuna eftir fall SVB-bankans.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí