Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður segir í pistli sem hann birtir á Facebook að honum gruni að ákvörðun Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra að skipa Karl Gauta Hjaltason sem lögreglustjóra í Vestmannaeyjum megi lesa sem ákveðin skilaboð til Miðflokksmanna. Illugi segir að Jón hafi nokkuð augljóslega gengið fram hjá hæfum umsækjendum um starfið.
Líkt og frægt er orðið þá var Karli Gauti vikið úr Flokki fólksins eftir uppákomuna á Klaustri. „Hún getur grenjað um þetta en getur ekki stjórnað,“ sagði Karl Gauti meðal annars um Ingu Sæland á upptökunni afdrafaríku. Hann gekk þá í Miðflokkinn, var oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir síðustu Alþingiskosningar, en komst ekki á þing.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Illuga í heild sinni.
Ég hef verið að skoða svolítið á netinu þá fjóra umsækjendur um starf lögreglustjóra í Vestmanneyjum sem sátu eftir með sárt ennið þegar Jón Gunnarsson skipaði Klausturkappann Karl Gauta í embættið í dag. Þau virðast öll hafa til að bera mjög viðamikla reynslu af löggæslu-, lögmanns- og stjórnunarstörfum, mismikla auðvitað. Tveir af þessum umsækjendum hafa þegar verið lögreglustjórar í Eyjum í afleysingum nokkurn tíma. Einn umsækjandi skreytti sig merki Sjálfstæðisflokksins á Facebook um tíma svo ekki vantaði nú góðan Sjálfstæðismann!
— En sem sé, Jón Gunnarsson getur með engu móti haldið því fram að hann hafi skort brúklega umsækjendur og þess vegna hlotið að skipa Klausturkappann. Hann hafði sem sagt ágæta kosti um að velja en kaus að skipa Karl Gauta.
— Ástæðurnar geta aðeins verið tvær. Jón Gunnarsson gerir þetta að skipan Bjarna Benediktssonar af því Bjarni vill halda leið opinni til Miðflokksins ef Sjálfstæðisflokkinn vantar nýja hækju í ríkisstjórn. Eða að Jóni Gunnarssyni finnst einfaldlega að Klaustarkappar séu réttu mennirnir til að stýra lögreglunni.
Ég veit ekki hvor skýringin er ömurlegri.
