Sjúkratryggingar opnuðu tilboð í 700 liðaskiptaaðgerðir í morgun. Lægsta tilboðið var frá Cosan, sem er í eigu Fidel Helga Sanchez læknis, og hljóðaði upp á 1.069.999 kr. hver aðgerð eða tæplega 749 m.kr. alls. Næst lægsta tilboðið var frá sænskri læknastofu í Bromma við Stokkhólm. Verðið þar var 30 þús. kr. hærra.
Þetta útboð er með stærri einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Hingað til hafa mjaðma- og hnjáskipti verið gerð á Landspítalanum og á sjúkrahúsunum á Akureyri og Akranesi. Þessi sjúkahúsum önnuðu hins vegar ekki þörfinni. Þau sem áttu efni á því gátu keypt aðgerð hjá Klínikinni í Ármúla. Og ef fólk hafði beðið von úr viti var það sent til Svíþjóðar í aðgerð á vegum Sjúkratrygginga.
Í febrúar buðu Sjúkratryggingar hins vegar út 700 liðaskiptaaðgerðir. Tilboðsfrestur var stuttur og í morgun voru tilboð frá fjórum aðilum opnuð. Þrjú tilboðin voru þau undir kostnaðarmati Sjúkratrygginga. Cosan og sænska læknastofan Ledplastikcentrum settu sama verð á mjaðma- og hnjáskipti. Og Klínkin líka en fyrirtækið Stoðkerfi hafði ólíkt verð á aðgerðunum.
Hvorki Landspítalinn né sjúkrahúsin á Akureyri eða Akranesi gátu tekið þátt í þessu útboði og notað greiðslur frá Sjúkratryggingum til að efla þá starfsemi sem fyrir er.
Ef við skiptum aðgerðum til helminga á milli mjaðma og hnjáa eru tilboðin svona:
Fyrirtæki | Hné | Mjöðm | 700 aðgerðir |
---|---|---|---|
Mat Sjúkratrygginga | 1.141.148 kr. | 1.362.349 kr. | 876,2 m.kr. |
Cosan slf. | 1.069.999 kr. | 1.069.999 kr. | 749,0 m.kr. |
Ledplastikcentrum | 1.100.000 kr. | 1.100.000 kr. | 770,0 m.kr. |
Klínikin hf. | 1.215.000 kr. | 1.215.000 kr. | 850,5 m.kr. |
Stoðkerfi ehf. | 1.338.577 kr. | 1.294.456 kr. | 921,6 m.kr. |
Eins og áður sagði er Fidel Helgi Sanchez eigandi Cosan. Stoðkerfi eru í eigu margra lækna og á enginn yfir 10% hlut. Klínikin er í eigu lækna og fjárfesta. Þar er meðal eiganda félagi sem Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrum bæjarstjóri í Garðabæ, og Guðbjörg M Matthíasdóttir útgerðarkona úr Eyjum eru meirihlutaeigendur að.