„Við ætlum að vera ráðandi afl í næstu ríkisstjórn,“ sagði Kristrún Frostadóttir á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. „Og það er ekki vegna þess að við séum í vinsældakeppni eða vegna þess að okkur langi svo að sitja í ráðherrastólum — og nei, það er ekki vegna þess að við séum svo miklar keppnismanneskjur, eins og forsætisráðherra orðaði það núna á dögunum.“
Á sama fundi var kynnt nýtt merki Samfylkingarinnar. Í stað rauða punktsins sem hefur verið merki flokksins í ýmsum útfærslum er komin krata-rósin, sem er helsta merki sósíaldemókrata í heiminum ásamt hnefanum.

Alþýðuflokkurinn, sem er enn til og hefur Guðmund Árna Stefánsson, varaformann Samfylkingarinnar, sem formann, notaði rósina sem merki en hafði hnefann með, eins og sjá má á þessu 100 ára afmælismerki:

Fundur Samfylkingarinnar í dag er haldinn meðan flokkurinn er í miklu uppstreymi. Yfirskrift hans er Mætum til leiks. Kristrún segir það ákall til fólks, að það komi og taki þátt í undirbúningi flokksins til að taka við völdum.
„Því Samfylkingin er lögð af stað í leiðangur,“ sagði Kristrún, „við erum byrjuð að undirbúa okkur; undirbúa okkur fyrir verkefnin; undirbúa okkur til að taka við stjórn landsmálanna og leiða breytingar í íslensku samfélagi — fyrir fólkið sem hér býr, hinn almenna launamann, ósköp venjulega Íslendinga sem vita að við erum sterkari saman — að samkenndin og samhjálpin trompar einstaklingshyggjuna, og verður að taka við sem höfuðgildi ríkisstjórnar landsins.“