„Það var náttúrulega augljóst í fyrra, þegar öllu var aflétt þarna í lok febrúar, þá fengum við þessa gríðarlegu útbreiðslu. Jafnvel þó að almennt séð væru líkur á alvarlegum afleiðingum af Covid minni þá, bæði út af bólusetningum og svo voru komin svona vægari afbrigði af veirunni, þá nægði það til þess að það voru margir sem veiktust alvarlega, sérstaklega eldra fólk.“
Þetta sagði Þórólfur Guðnason, fyrrverandi sóttvarnarlæknir, í viðtali við Rauða borðið á Samstöðinni á mánudag. Haukur Már Helgason birtir útdrátt úr viðtalinu á vef sínum. Þórólfur hélt áfram um stöðina í fyrra og sagði:
„Fjöldinn var bara svo rosalega mikill. Og þetta var það sem ég benti á, til dæmis í þessum frægu minnisblöðum sem ég sendi þarna, tvö minnisblöð í febrúar. Þá voru menn farnir að tala um að aflétta öllu og ég var með þrjár sviðsmyndir fyrir stjórnvöld. Sagði bara: ef þið herðið, þá eru líkur á að við getum haldið þessu aðeins meira í skefjum, ef við erum með óbreytt, þá verður þetta aðeins skárra. Ef við sleppum þessu lausu, þá er mjög líklegt að við fáum mikla útbreiðslu og einhverjar alvarlegar afleiðingar. Og mér sýnist það hafa gerst.“
Í lok viðtalsins bar Þórólfur sjálfur upp spurning, fyrir sjálfan sig. „Þetta er líka umræða sem snertir bara gamla fólkið, sko. Eigum við eitthvað að vera að púkka upp á þetta gamla fólk? Fólk sem er svona veikt og heilabilað og komið inn á stofnanir og við förum að heimsækja á sunnudögum og eitthvað svona. Er þetta einhvers virði? Eða bara aðra sem eru með alvarlega sjúkdóma, eigum við að leggja í mikinn kostnað við að framlengja líf fólks um eitt, tvö ár? Eða eitthvað? Skilurðu hvað ég á við? Þetta er mjög erfið umræða.“
– Ætlarðu að svara þessari spurningu? spurði Gunnar Smári.
„Nei.“
– Þetta eru rosa stórar spurningar.
„Þetta eru alveg ofboðslega stórar spurningar. Og þetta eru spurningar sem menn vilja ekki taka, vegna þess að þetta er svo tilfinningalega erfitt.“
Hér má sjá og heyra viðtalið við Þórólf: