„Þetta eru spurningar mínar til hæstv. ráðherra og ég ætla að biðja hann um að segja okkur hvernig stendur á því að frítekjumark lífeyristekna, sem er 25.000 kr., hefur ekki haggast meðan ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur haldið um stjórnartaumana á Íslandi.“
Þetta sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi fyrr í dag í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Í ræðu sinni ræddi Jóhann Páll um lífeyrirsgreiðslur almannatrygginga en hann benti á að fyrir suma þá er ávinningurinn af því að greiða í lífeyrissjóð nær enginn. Í ræðunni tók hann dæmi um konu sem hefði tekist að safna sér lífeyrisréttindum upp á 150 þúsund á mánuði:
„Herra forseti. Við skulum tala hér áfram um almannatryggingar. Tölum aðeins um það hvernig ellilífeyriskerfið okkar virkar. Tökum sem dæmi eldri konu sem hefur alið börn, rekið heimili og unnið slítandi störf á lágum launum. Segjum að konan hafi engu að síður náð að safna sér lífeyrisréttindum upp á 150.000 kr. á mánuði og nú fer hún á eftirlaun. Hvað stendur þá eftir af þessum 150.000 kr.? Hver er ávinningurinn af því að hafa greitt í lífeyrissjóð? Ávinningurinn, herra forseti, er 50.000 kr. Ríkið tekur restina í formi skatta og skerðinga. Aðeins þriðjungur situr eftir sem auknar ráðstöfunartekjur í hverjum mánuði miðað við það sem konan hefði annars fengið. Við erum að tala um 67% jaðarskatt. Finnst hæstv. ráðherra þetta sanngjarnt? Finnst hæstv. ráðherra þetta réttlátt og finnst hæstv. ráðherra þetta eðlileg meðhöndlun á lífeyrissparnaði fólksins í landinu?“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, svaraði Jóhanni og sagðist sammála að þetta væri ósanngjarnt. „Það er auðvitað eitt af því sem við erum að reyna að vinna að núna með endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu,“ sagði Guðmundur Ingi. Líkt og Samstöðin greindi frá á dögunum þá á enginn öryrki sæti í stýrihóp sem á að endurskoða örorkulífeyriskerfið. Þess í stað eru eintómir flokksgæðingar í stýrihópnum. Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG og þingmaður um áratugaskeið, leiðir stýrihópinn og með honum eru Óli Björn Kárason Sjálfstæðismaður og Eygló Harðardóttir Framsóknarkona.