„Margir kveðja þennan heim enn á biðlistunum“

Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, segir að vegna skorts á hjúkrunarheimilum þá séu fjölmargir aldraðir á sífelldum hrakhólum. Þetta segir hún í pistli sem birtist í Félagstíðindum félagsins. Ingibjörg segir að svokallaður útskriftarvandi hrjái heilbrigðiskerfið. Ingibjörg lýsir vandanum svo:

„Útskriftarvandinn felst í því að ýmsir, sérstaklega hinir öldruðu sem hafa fengið þá lækningu sem unnt er að veita á sjúkrahúsinu, en þurfa áframhaldandi aðstoð heima hjá sér eða á hjúkrunarheimilum fá ekki þessa þjónustu. Þetta fólk geta heiðarleg sjúkrahús auðvitað ekki útskrifað.Afleiðingin er að sjúkrarúm sem nýst gætu fyrir aðra sjúklinga teppast á spítölunum og hinir öldruðu sem í þeim liggja og aðstandendur þeirra búa við sífellda óvissu og ótta um hvað við taki.“

Ingibjörg segir þetta ástand einfaldlega til skammar. „Þetta er auðvitað ástand sem ekkert samfélag með sjálfsvirðingu getur liðið til lengdar. Samt hefur það viðgengist hér árum saman og fer fremur vaxandi en hitt. Ábyrgðin er auðvitað valdhafanna, þeirra sem eru svo duglegir við að rífa af fólki skattana. Þeir hafa ákveðið að verja þessu fé skattgreiðenda í eitthvað allt annað en að sinna nauðsynlegum þörfum aldraðra og fjölskyldna þeirra. Þeir hafa m.a. látið undir höfuð leggjast að byggja nægilegan fjölda hjúkrunarheimila og annað sérhæft húsnæði til að mæta mismunandi þörfum aldraðra,“ segir hún.

Ingibjörg segir að margir eldri borgarar í dag kveðji þennan heim á biðlista. „Og þegar húsnæðið er fyrir hendi berst reksturinn iðulega í bökkum og er jafnvel af vanefnum því hið opinbera þrjóskast við að greiða sannanlegan rekstrarkostnað. Afleiðingin er að fjölmargir aldraðir eru á sífelldum hrakhólum, búa við endalausa biðlista eftir flestri þjónustu sem þeir þurfa á að halda og margir kveðja þennan heim enn á biðlistunum. Tæplega þarf að lýsa þeirri skerðingu á lífsgæðum sem ekki aðeins aldraðir heldur og fjölskyldur þeirra verða fyrir af þessum sökum.“

Að lokum kallar hún eftir því aldraðir og aðstandendur þeirra þrýsti á stjórnvöld til að koma þessum málum í lag. „Þetta verður að breytast. Aldraðir og fjölskyldur þeirra þurfa að taka höndum saman um að knýja stjórnvöld til að breyta háttum sínum á þessu sviði. Gera þarf stórátak til að koma þessum málum í lag.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí