Segir úrsögn Eflingar engan dauðadóm yfir SGS – nema síður sé

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir það að sjálfsögðu áfall þegar fækkar í hópi félaga innan SGS en brotthvarf Eflingar yrði enginn dauðadómur yfir sambandinu, nema síður sé.

Þetta sagði Vilhjálmur í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í morgun, aðspurður um félagsfund Eflingar þar sem aðild að Starfsgreinasambandinu verður rædd.

Í Samtali á sunnudegi um verkalýðsbaráttu fyrir þremur vikum sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar að verið væri að skoða kosti þess fyrir félagið að vera innan eða utan Starfsgreinasambandsins. Kostirnir væru listaðir upp á minnisblaði og þeir yrði ræddir á félagsfundi. Það væri síðan félagsfólks að taka ákvörðun. Það er um þetta sem fréttir Ríkisútvarpsins snúast nú.

Kostirnir eru fyrst og fremst tveir. Að Efling sé áfram innan Starfsgreinasambandsins og í gegnum það aðili að Alþýðusambandinu. Eða að Efling fari úr Starfsgreinasambandinu en sæki um beina aðild að ASÍ. Þriðji kosturinn sem verður skoðaður er að Efling standi utan ASÍ, en það mátti heyra á Sólveigu Önnu að ólíklegt sé að sá kostur verðið skoðaður af fullri alvöru, alla vega ekki strax.

Það var augljóst af samtalinu að Sólveig Anna telur Eflingu eiga litla samleið með Starfsgreinasambandinu. Sólveig Anna náði ekki kjöri í framkvæmdastjórn sambandsins fyrir tæpu ári, og er það í fyrsta sinn sem formaður Eflingar eða forvera þess, Dagsbrúnar, á ekki sæti í stjórn Starfsgreinasambandsins eða forvera þess, Verkamannasambandsins. Þetta er undarleg staða þar sem félagar í Eflingu eru rétt tæpur helmingur félaga innan Starfsgreinasambandsins. Í framkvæmdastjórn SGS sitja níu manns og aðeins einn frá Eflingu, Ragnar Ólason. Hann er einn fulltrúi 45% félagsmanna innan SGS á meðan aðrir stjórnarmenn eru að meðaltali hver fulltrúi 7% félagsmanna.

Sólveig Anna er heldur ekki í fimmtán manna miðstjórn ASÍ. Sem er líka sögulega sérstakt. Áður en Sólveig Anna var kjörinn formaður Eflingar hafði Efling tvo fulltrúa í miðstjórn, en hún gaf annað sætið eftir fyrir misskilda sáttafýsn, eins og Sólveig Anna orðaði það í samtalinu. Nú er Efling með einn fulltrúa í miðstjórn, sem fer með 7% atkvæða þar, þótt félagar í Eflingu séu um og yfir 18% af félagsfólki ASÍ. Nú er Agnieszka Ewa Ziólkowska, fráfarandi varaformaður eini fulltrúi Eflingar í miðstjórn, yfirlýstur andstæðingur núverandi forystu félagsins.

Efling hefur því lítil áhrif í þessum heildarsamtökum. Þrátt fyrir að leggja um 40 m.kr. á ári til Starfsgreinasambandsins og 90 m.kr. árlega til ASÍ. Sólveig Anna sagðist viss um að miðað við reynslu félagsfólks Eflingar af því hvernig SGS og ASÍ hafa í raun beitt sér gegn Eflingu, þá vilji félagsfólkið eitthvað annað við þessa peninga sína. Sólveig Anna nefndi að hægt væri að styrkja félagsfólk, kaupa fleiri sumarhús eða hvað sem er, sem myndi reynast félagsfólki betur en að fjármagna virka andstöðu við félagið.

Sólveig Anna ræddi ítarlega stefnu Eflingar og baráttuaðferðir í samtalinu, líka hvernig verkföll vetrarins og stéttabarátta hefði virkjað fleiri félaga og byggt upp baráttuanda. Hún ræddi líka stöðuna á verkalýðshreyfingunni frammi fyrir næstu kjarasamningum og sagði að mestur árangur næðist ef hreyfingin mætti sameinuð. En hún þyrfti þá að sameinast um róttækar kröfur sem gögnuðust til að bæta kjör og líf verkafólksins svo um munaði.

Það má sjá og heyra samtalið í spilarnum hér að neðan:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí