Um fjórðungur einstæðra mæðra segja að fjárskortur hafi komið í veg fyrir að þær gátu gefið afmælis- og/eða jólagjafir. Svo gott sem sama hlutfall einstæðra mæðra höfðu ekki efni á því að fá nauðsynlegan fatnað fyrir börn sín. Álíka margar höfðu ekki efni á því að gefa barni eins næringarríkan mat og þær töldu það þurfa.
Þetta kemur fram í skýrslu Varða, rannsóknastofnun vinnumarkaðsins, um stöðu launafólks á Íslandi. Hér fyrir neðan má sjá töflu sem sýnir hlutfall launafólks sem sagði að fjárskortur síðastliðna 12 mánuði hefði komið í veg fyrir að það gæti meðal annars greitt fyrir leikskólagjöld, frístund, skólamáltíðir, skipulagðar tómstundir, nauðsynlegan fatnað fyrir börnin sín og fleira.
Í skýrslunni segir: „Algengast er að foreldrar hafi ekki getað greitt fyrir nauðsynlegan fatnað (15,1%) og afmælis- og/eða jólagjafir (15,1%), næst kostnað vegna félagslífs (14,9%), eins næringarríkan mat eins og foreldrið telur barnið þurfa (12,9%), kostnað vegna skipulagðra tómstunda (12,6%) en lægra hlutfall foreldra gat ekki greitt fyrir aðra þætti eins og kostnað vegna skólaferðalags eða annarra viðburða tengdum skóla (6,1%), mat í skóla (5,9%), leikskólagjöld (4,3%), gjöld fyrir frístund (4,1%), skólabækur eða annan námskostnað (3,7%) og skólagjöld í framhaldsskóla (2,4%).“
Líkt og fyrr segir þá er hlutfallið talsvert hærra meðal einstæðra mæðra. Í skýrslunni segir: „Hlutfallið hæst meðal einstæðra mæðra þegar kemur að því að greiða fyrir leikskólagjöld (7,6%), skólagjöld í framhaldsskóla (4,6%), skólabækur eða annan námskostnað (6,8%), mat í skóla (14,3%), kostnað vegna skipulagðra 28 tómstunda (23,2%), kostnað vegna skólaferðalags eða skipulagðra viðburða í skóla (12,9%), kostnað vegna félagslífs (27,1%), afmælis- og/eða jólagjafir (25,3%), nauðsynlegan fatnað (25,8%) og eins næringarríkan mat og foreldrið telur barnið þurfa (25,1%).“
Hér má lesa skýrslu Varða um stöðu launafólks á Íslandi.

