Grotnandi heilbrigðiskerfi: „Ég var með óráði, í uppnámi, hrædd, slösuð og ég fæ ekki hjálp“

„Ég hringdi á heilsugæsluna mína til að fá tíma hjá heimilislækninum mínum. Hún sagði mér að það væri ekkert laust, ég ætti að reyna aftur í júní. Það eina sem ég get gert er að vera bjartsýn, harka þetta af mér og reyna að hlægja að þessu. Ég reyni það alltaf. En þetta hræðir mig samt. Hvað ef ég fæ alvarlegri höfuðhögg næst en ekkert skoðað og slasast þá varanlega? Eða fæ ég sýkingar í skurði sem hefðu átt að vera saumaðir?“

Þetta skrifar Sunna Kristinsdóttir innan hópsins Rétturinn til að lifa. Markmið hópsins er að greina frá sögum af mannréttindabrotum í íslenska heilbrigðiskerfinu. Samstöðin hefur greint frá fjölda frásagna sem þar hafa birst undanfarnar vikur.

Sunna er flogaveik og hún lýsir því hvernig heilbrigðiskerfið hefur algjörlega brugðist henni í færslu innan hópsins. Hún segist hafa fengið flogakast í vikunni og svo farið upp á bráðamóttöku. Sunna skrifar:

„Ég er flogaveik. Taugalæknirinn minn var búinn að vara mig við að það væri orðið alvarlegt hversu mörg flog ég væri enn að fá þrátt fyrir hækkun á lyfjum og skömmtum. Ég var ekki búin að fá flog í hálft ár sem hefur ekki gerst í nokkur ár. Ég var svo stolt og hamingjusöm út af því. Ég var svo bjartsýn… Ég fæ síðan kast núna í vikunni og fer upp á bráðamóttöku þar sem ég finn að ég hef slasað mig en ég er of ringluð og í uppnámi til að meta það sjálf og ég bý ein.“

Móttakan sem hún fékk sýnir vel hvernig heilbrigðiskerfið á Íslandi er að grotna niður. „Ég fer þangað og mér er sagt að setjast bara og bíða. Ég fann blóðbragðið í munninum því ég hafði bitið í tunguna á mér og ég var ekki viss hvort ég hefði pissað á mig. Ég var líklega með heilahristing, ég hafði dottið á eitthvað. Mér var óglatt og ég var hölt, ég hef kannski misstigið mig. Mig rámar í það þegar það kom kona og athugaði hvort ég væri með hita og mældi blóðþrýstinginn. En ekkert annað. Ekkert. Síðan látin sitja frammi grátandi, í meira en klukkutíma,“ segir Sunna.

Henni var svo sagt að það væri ekkert hægt að gera fyrir hana. „Allir fóru inn á undan mér og ég sat enn ein grátandi og spurði hvort ég ætti bara að fara heim? „Já, það er kannski best“. Þær sögðu mér að það væri ekkert sem þær gætu gert fyrir mig sem læknirinn minn gæti ekki bara gert sjálfur. Hvernig er þetta bara í lagi? Ég var með óráði, í uppnámi, hrædd, slösuð og fæ ég ekki hjálp eða almenna skoðun einu sinni? ,“ spyr Sunna.

„Ég fór bara heim. Ég er núna í vikunni búin að hringja í Landspítalann en ég fæ ekki tíma hjá taugalækninum. Hún sagðist ætla að koma skilaboðum til hans. Ég hringdi á heilsugæsluna mína til að fá tíma hjá heimilislækninum mínum. Hún sagði mér að það væri ekkert laust, ég ætti að reyna aftur í júní. Það eina sem ég get gert er að vera bjartsýn, harka þetta af mér og reyna að hlægja að þessu. Ég reyni það alltaf. En þetta hræðir mig samt. Hvað ef ég fæ alvarlegri höfuðhögg næst en ekkert skoðað og slasast þá varanlega? Eða ég fæ sýkingar í skurði sem hefðu átt að vera saumaðir? Eða bara að þessi hrikalega vanlíðan sem ég finn í öllum líkamanum í nokkra tíma eftir svona flog verði bara gjörsamlega óbærileg. Á ég rétt til að lifa? ,“ spyr Sunna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí