Svo virðist sem þeir sem héldu að landsmenn væru lausir undan COVID plágunni hafi skjátlast hrapalega. Landspítalinn greinir nú frá því í tilkynningu að COVID hafi skotið upp kollinum á átta deildum spítalans og breiðst hratt út á nokkrum þeirra. Bæði sjúklingar og starfsfólk hefur smitast undanfarna daga.
„Nú að morgni 16. júlí eru 32 sjúklingar í einangrun vegna COVID á Landspítala í þremur húsum (Landakot, Hringbraut og Fossvogur) og er þetta þriðja sumarið sem bylgja COVID sýkinga herjar á landsmenn,“ segir í tilkynningu á vef Landspítalans.
Enn fremur segir að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða og taka þær gildi á morgun. Þær eru eftirfarandi:
- Grímuskylda í öllum sjúklingasamskiptum. Þá gildir að starfsfólk ber grímu í samskiptum við inniliggjandi sjúklinga. Þeir sem koma á göngudeildir skulu bera grímu og einnig er öllum heimsóknargestum og öðrum utanaðkomandi aðilum skylt að bera grímu. Starfsfólk þarf ekki að bera grímu í starfsmannarýmum nema það sé með einkenni sem gætu bent til öndunarfærasýkingar.
- Handhreinsun: Öllum er skylt að hreinsa hendur enda er það einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að rjúfa smitleiðir.
- Heimsóknatakmarkanir: Heimsóknartími verður styttur og verður nú frá 17-19 virka daga og frá 15-18 um helgar. Mælst er til að börn undir 12 ára aldri komi ekki í heimsókn og að ekki komi fleiri en tveir í einu til hvers sjúklings. Eins og áður er alltaf tekið tillit til aðstæðna og undanþágur gefnar (vaktstjóri á deild) en þetta er meginlínan.
Auk þessa verður lokað alveg fyrir heimsóknir á sumar deildir ef þar gengur faraldur.