Gylfi segir hugmyndir Ásmundar skaðræði: „Stórslys ef Kvennaskólinn yrði lagður niður“

Gylfi Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi ráðherra, varar við hugmyndum Ásmunds Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, um uppstokkun á íslenska framhaldsskólakerfinu. Gylfi fer yfir þetta í grein sem hann birtir í Vísbendingu, vikuriti um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun. Þessi uppstokkun felst meðal annars í því að efla starfsnám á kostnað bóknáms. Þessu uppstokkun er byggð á spá um fjölgun í starfsnámi og fækkun í bóknámi. Gylfi segir þessa spá byggða á engu öðru en markmiði stjórnvalda.

Hér fyrir neðan má lesa grein Gylfa í heild sinni.

Á dögunum voru kynntar ansi róttækar hugmyndir Mennta- og barnamálaráðuneytisins um uppstokkun á íslenska framhaldsskólakerfinu. Í þeim á m.a. að felast töluverður niðurskurður á aðstöðu til bóknáms og sameining framhaldsskóla sem einkum sinna því. Samhliða því á að byggja upp aðstöðu fyrir ýmiss konar starfsnám. Þetta er rökstutt á ýmsan hátt en sérstaklega vísað til fækkunar nema í bóknámi, sem sögð er fyrirsjáanleg. Þannig er í greinargerð sem tekin hefur verið saman um húsnæðisþörf í framhaldsskólum 2023-2033 byggt á spá um að nemendum í bóknámi á framhaldsskólastigi fækki um 2.802 á tímabilinu 2021 til 2033 en í starfsnámi fjölgi þeim um 795.

Það er satt best að segja ansi djörf forsenda, því það er lítið ef nokkuð sem bendir til þess að hún sé rétt. Raunar virðast vera meiri líkur á því að nemendum í hefðbundnu bóknámi muni halda áfram að fjölga næstu ár. E.t.v. er réttara að túlka spá um fjölgun í starfsnámi og fækkun í bóknámi sem markmið stjórnvalda. Til þess að spáin gangi eftir þurfa markmiðin að nást og það verða að teljast litlar líkur á því, miðað við þróun fortíðarinnar nema róttæk breyting verði á vali ungs fólks við innritun í framhaldsskóla.

Það kann hins vegar vel að vera rétt að það stefni í fjölgun í starfsnámi og að það þurfi að bæta aðstöðu vegna þess sem oft er tiltölulega sérhæfð og dýr. Skilin á milli bóknáms og starfsnáms eru raunar ekkert óskaplega skýr því að stór hluti alls starfsnáms er bóklegur. Margir nemenda í starfsnámi útskrifast líka með stúdentspróf.

Svo er auðvitað umdeilanlegt hvort það er æskilegt að fleiri eða færri fari annars vegar í bóknám og hins vegar starfsnám. Það er ákvörðun sem ungt fólk tekur og almennt þarf enga sérstaka opinbera stýringu á því. Íslendingar hafa frjálst val um hvaða menntun og störf þeir stefna á, þótt stundum rætist draumarnir ekki. Tekjumöguleikar í einstökum starfsgreinum ráða miklu um valið. Sé mikil eftirspurn en lítið framboð af fólki með tiltekna menntun er ekki við öðru að búast en að tekjur í greininni hækki sem laði fleiri að, annað hvort í gegnum íslenska menntakerfið eða með streymi fólks til landsins.

Hvað segja tölurnar?

Skoðum betur tölur um þróun framhaldsskóla og lýðfræði. Í fyrrnefndri greinargerð eru m.a. birtar upplýsingar um hlutfall nemenda í starfsnámi í framhaldsskólum 2011-2021 og spá til ársins 2033. Þetta er síðan sett í samhengi við mannfjöldaspá Hagstofunnar og fullyrt að í ljósi hvoru tveggja muni nemendum í bóknámi fækka. Sérstaklega er vísað til þess að hlutfall starfsnema hafi farið hækkandi frá 2017. Það kann að vera rétt en er einungis hálf sagan. Í greinargerðinni má nefnilega líka sjá að hlutfallið fór lækkandi fyrir 2017 og var nokkurn veginn það sama 2021 og 2011. Það er því engin augljós langtímaleitni frá bóknámi og yfir í starfsnám.

Í ljósi þess er erfitt að sjá hvers vegna spáð er að næsta áratug muni verða stórsókn nemenda í starfsnám frekar en bóknám. Raunar eru engin sérstök rök færð fyrir því önnur en að benda á að hlutfall þeirra sem velja starfsnám sé lægra hér en í nágrannalöndunum og að þetta sé markmið stjórnvalda. Það er kunnara en frá þurfi að segja að markmið í menntamálum nást ekkert endilega. Má nefna markmið um að fjölga körlum í ýmsum greinum þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Þar hefur ekkert gengið.

Bóknám á framhaldsskólastigi miðar í flestum tilfellum að stúdentsprófi. Því er gagnlegt að skoða tölur um fjölda sem lýkur slíku prófi til að átta sig á sögulegri leitni og líklegri framtíðarþróun. Hagstofan birtir ýmiss konar talnaefni um þetta sem í grundvallaratriðum sýnir einfaldlega að hlutfall úr hverjum árgangi sem lýkur stúdentsprófi hefur farið sífellt hækkandi alveg síðan á 19. öld. Það á jafnt við um pilta og stúlkur, þótt hlutfall stúlkna sem lýkur stúdentsprófi hafi sigið fram úr hlutfalli pilta miðjan áttunda áratuginn og sé nú talsvert hærra en piltanna. Hlutfallið er reiknað miðað við fjölda tvítugra hverju sinni.

Undanfarin ár hefur sífellt hærra hlutfall þeirra sem ljúka stúdentsprófi verið í starfsnámi en jafnvel þótt einungis sé horft til þeirra sem eru í hefðbundnu bóknámi þá hefur hlutfallið farið hækkandi. Hlutfall þeirra sem luku almennu stúdentspróf, þ.e. ekki í starfsnámi, var 50,6% skólaárið 1995-1996 en komið upp í 67,0% skólaárið 2020-2021. Sjá einnig mynd 1. Það hækkaði sem sé að jafnaði um 0,67 prósentustig á ári. Það liggur í hlutarins eðli að þetta hlutfall getur ekki farið hækkandi að eilífu á þessum hraða enda verður það þá á endanum orðið hærra en 100%. Það virðist þó vera óhætt að gera ráð fyrir að hlutfallið muni fara enn hækkandi eitthvað inn í framtíðina. Með þeim sem luku stúdentsprófi í starfsnámi var hlutfallið úr hverjum árgangi sem varð stúdent 79,3% skólaárið 2020-2021.

Breytt áhersla

Áherslur stúdentanna í námi sínu hafa þó breyst mikið. Þótt stúdentum hafi fjölgað um 75% á þessum aldarfjórðungi fækkaði um meira en 70% í máladeildum. Sú breyting hefur furðulítið verið rædd. Fjölgunin í bóknámi varð mest á almennum brautum án sérhæfingar.

Sú lykilforsenda að það fækki í bóknámi virðist því vera byggð á mjög ótraustum grunni. Auðvitað er ekki óhugsandi að hún reynist rétt, framtíðin verður að skera úr um það, en það virðist vera miklu líklegra að hún sé röng. Þar með er auðvitað óráðlegt að draga verulegu úr framboði á bóknámi, nema ætlunin sé beinlínis að þvinga ungt fólk til að hætta við að fara í bóknám með því að mæta ekki eftirspurninni með framboði á námsmöguleikum.

Skoðum þá spár Hagstofunnar um fjölda á framhaldsskólaaldri. Ef við tökum t.d. hóp þeirra sem eru 16-18 ára, þá voru í honum 13.656 einstaklingar í fyrra. Hagstofan spáir því að hópurinn muni stækka í 15.361 árið 2027 eða um 12,5%, sbr. mynd 2. Það er veruleg aukning og jafnvel þótt hlutfall þeirra sem fara í bóknám haldist óbreytt (þ.e. hætti að hækka) þá mun það leiða til fjölgunar í bóknámi sem er umtalsvert meiri en núverandi skólahúsnæði ræður við með góðu móti.

M.ö.o. ef það eiga ekki að verða biðraðir við bóknámsskólanna eftir örfá ár þá þarf að fara að ráðast í uppbyggingu sem fyrst. Það sama á án efa við um skóla fyrir starfsnám, raunar er ekki ólíklegt að hlutfallslega meiri þörf verði fyrir uppbyggingu þeim megin. Það verður raunar líka nóg að gera á háskólastiginu í lok áratugarins en skoðum það ekki frekar hér.

Röng áhersla

Eftir 2027 er svo spáð fækkun í þessum aldurshópi en þó ekki meiri en svo að 2033 verði hann 2,1% minni en 2022. Jafnvel þótt hlutfall þeirra sem ljúka stúdentsprófi af hefðbundinni bóknámsbraut hækki mun hægar næsta áratug en það hefur gert undanfarna áratugi verður þó að teljast nánast óhjákvæmilegt að fleiri verði í bóknámi á framhaldsskólastigi 2033 en nú, þvert ofan í þá spá sem ætlunin virðist að byggja á við ákvarðanir um fjárfestingar í framhaldsskólum. Eftir 2033 spáir Hagstofan svo enn fjölgun í þessum aldurshópi og fram á miðja öldina en það er líklega óþarfi að fara að reisa skólahúsnæði vegna þess núna.

Hagstofan hefur raunar undanfarin ár almennt spáð minni fólksfjölgun en raunin hefur orðið. Sem dæmi má nefna að árið 2012 spáði hún að það yrðu 13.223 á framhaldsskólaaldri (16-18 ára) árið 2022 en þeir urðu 13.656 eða 3,2% fleiri. Skýringin er fyrst og fremst að fólksflutningur til landsins hefur orðið meiri en gert var ráð fyrir. Sé sambærileg skekkja í spám nú þá verður engin fækkun á nemendum á framhaldsskólaaldri næstu áratugi. Það er þó auðvitað ekki hægt að slá því föstu fyrir fram enda afar erfitt að sjá fyrir fólksflutninga til og frá landinu.

Eins og sjá má á ofangreindu virðist varhugavert að ætla að rjúka til nú og gera ráðstafanir til að mæta mikilli fækkun nemenda í bóknámi á framhaldsskólastigi. Líkurnar á því að hún raungerist virðast litlar. Hugmyndir um sameiningu og flutning rótgróinna skóla þarf að skoða í þessu samhengi.

Raunar ætti þá líka að líta til þess að skólar eru stofnanir með sögu og menningu og sterk tengsl út í samfélagið. Það er ekki sjálfgefið að rífa þá upp með rótum eða jafnvel leggja niður til að mæta spám um skammtímasveiflur í aðsókn.

Kvennaskólinn er líklega hér besta dæmið þótt þetta eigi líka við um hina skólana sem rætt hefur verið um að sameina. Raunar væri það menningarsögulegt stórslys ef Kvennaskólinn yrði lagður niður til að búa til nýjan framhaldsskóla á öðrum stað í bænum. Það væri a.m.k. skrýtin leið til að fagna 150 ára afmæli þeirrar stofnunar sem mestu skipti í menntun íslenskra kvenna í heila öld. Rótgrónu framhaldsskólarnir tveir sem hafa verið hlið við hlið í miðbænum síðan á 19. öld, Kvennaskólinn og MR, eru ekki bara sögulega merkar stofnanir heldur einnig stór hluti ímyndar og mannlífs miðbæjarins. Auðvitað þarf að taka tillit til slíkra þátta þegar hugað er að breytingum á menntakerfinu

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí