Puff! Hvert fór verðbólgan?

Neysluvísitalan hækkaði aðeins um 0,39% frá apríl til maí samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Þetta er aðeins 4,8% verðbólguhraði á ársgrunni. Og ef við tökum húsnæðisliðinn burt hækkaði vísitalan aðeins um 0,14%, sem jafngildir verðbólguhraða upp á 1,7%. Sem er vel innan verðbólgumarkmiða. Hvert fór verðbólgan? Og hvers vegna má hana enn helst finna á húsnæðismarkaði, sem ætla mætti að taumlausar vaxtahækkanir Seðlabankans næðu að kæla?

Þetta veit enginn, enda verðbólgan skrítin skepna sem fer eftir hegðun og hugmyndum fjölmargra. Auk þess er varasamt að draga of miklar ályktanir af mælingu milli tveggja mánaða. Það má vel vera að verðbólgan mæti aftur í næsta mánuði í mælingum Hagstofunnar, grimmari en nokkru sinni fyrr.

Samt er það svo að mæling milli mánaða getur haft mikil áhrif á þau sem ættu að halda haus. Það á til dæmis við um Seðlabankann. Sem brást við 16,9% verðbólguhraða í apríl með því að hækka vexti meira en nokkru sinni. En á meðan yfirmenn bankans voru að munda vopn sín og brýna, þá var starfsfólk Hagstofu að mæla verðbólgu sem var aðeins brot af því sem áður var.

Og allt tal Ásgeirs Jónssonar Seðlabankastjóra í kringum vaxtaákvörðunina verða skyndilega hjákátleg. Hvers vegna var hann að brýna raust sína gagnvart verkalýðshreyfingunni, ef það er nánast engin verðbólga í landinu? Nema sú sem vellur á húsnæðismarkaði, sem orðin er til vegna viðvarandi skorti á íbúðum. Sem Seðlabankinn hefur magnað upp með aðgerðum sínum.

Mánaðarhækkun vísitölunnar án húsnæðis hefur ekki mælst minni síðan í júní/júlí 2021, stuttu eftir að Seðlabankinn byrjaði hækkun stýrivaxta, hófstillt í upphafi. Þá hafði bankinn hækkað vextina um 0,25 prósentur í maí og hann hækkaði þá aftur um 0,25 prósentur í ágúst, fyrst og síðast vegna hækkunar á eignaverði. Í vikunni hækkaði hann vextina um 1,25 prósentur og boðaði enn meiri hækkun í ágúst.

Auðvitað getur vel verið að verðbólgan taki kipp aftur í næsta mánuði. Það má vera að fyrirtækjaeigendur hækki verð á vörum og þjónustu til að mæta auknum fjármagnskostnaði vegna vaxtahækkana Seðlabankans. En það má líka vera að fyrir utan hækkanir af þeim forsendum sé lítið afl eftir í verðbólgunni, að áhrifin vegna vöruskorts vegna cóvid og orkukreppu vegna stríðsins í Úkraínu séu að fjara út hér eins og víða erlendis.

Það hafa margir bent á að sú verðbólga sem reis upp í fyrra sé ekki þeirrar tegundar að stýrivaxtahækkanir bíti á henni. Þess vegna hafa aðrir seðlabankar hækkað sína vexti minna, ákveðið að bíða af sér kúfinn á meðan hann fer hjá. Það hefur virkað víðast, verðbólga er á niðurleið þrátt fyrir að vextir hafi verið hækkaðir miklu minna en hér.

Annað sem hefur keyrt áfram verðbólguna er það sem kallað er græðgisverðbólga, það að fyrirtækjaeigendur nýti sér slakt verðskyn á tímum verðbólgu til að hækka verð til að auka arð sinn, langt umfram tilefni vegna hækkunar launa eða aðfanga. Hækkun stýrivaxta magnar upp slíka verðbólgu ef eitthvað er, fyrirtækjaeigendur vilja hafa borð fyrir báru til að mæta auknum fjármagnskostnaði.

Það mun koma í ljós á næstu mánuðum hvert verðbólgan er að fara. Kannski er hún jafnvel að fara. Það væri eftir hagfræðingunum, sem nú hafa flestir spáð því að hún muni vera með okkur lengi. Það er nefnilega nánast lögmál um spár hagfræðinga ganga ekki eftir. Og líklega hafa engir hagfræðingar reynst vitlausari í spám sínum en þeir í Seðlabankanum. Það er líklega þess vegna sem þeir eru svona ábúðafullir á fundum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí