Verktakar með sáralítið eigið fé krefjast lækkunar vaxta

Runólfur Ágústsson, verkaefnastjóri Þorpsins, mælti í Kastljósi gærkvöldsins gegn vaxtahækkunum Seðlabankans og taldi þær vera verðbólguhvetjandi og leiða til falls í framboði á nýju húsnæði. Þorpið var stofnað árið 2018 með sáralitlu hlutafjárframlagi, aðeins 1,5 m.kr., en hefur síðan vaxið hratt. Þorpið keypti byggingarétt í Ártúnholti fyrir 7 milljarða króna fyrir einu og hálfu ári og ári fyrr brunarústirnar við Bræðraborgarstíg 1. Fyrsta verkefni félagsins var bygging blokka við Gufunesveg og nú er ráðgert að fyrirtækið sjái um uppbyggingu íbúða við kvikmyndaver Reykjavík Studios.

Þetta er magnaður vöxtur á skömmum tíma, ekki síst í ljósi þess hversu lítið fé eigendurnir lögðu til þess í upphafi, fyrir fimm árum. Eigendur eru tvö félög sem eiga jafnan hlut, félag í eigu Áslaugar Guðrúnardóttur eiginkonu Runólfs og annað félag í eigu Sigurðar Smára Gylfasonar viðskiptafélaga Runólfs.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2021 var hvorki mikill rekstur né eignir inn í Þorpinu vistfélagi. Það á hins vegar hlut í mörgum félögum, sem heita Þorpið 1, Þorpið 2, Þorpið 3 o.s.frv. sem eru rekstrarfélög utan um byggingarframkvæmdir.

Þorpið vistfélag á 30% hlut í Þorpinu 1, sem heldur utan um byggingu á húsi C við Jöfursbás 1. Stofnað var til félagsins með tæplega 2,7 m.kr. hlutafjárframlagi. Félagið skuldaði í árslok 2021 1.449,2 m.kr. en eignirnar voru metnar á 1.451,8 m.kr. Eigið féð var því aðeins innborgaða hlutaféð og eiginfjárhlutfall tæplega 0,2%. Það má rúna út og segja að ekkert eigið fé sé í þessu félagi.

Þorpið vistfélag á tæp 42% í Þorpinu 2, sem heldur utan byggingu á húsum D og E við Jöfursbás 11. Við stofnun lögðu eigendur rúma 1,2 m.kr. til félagsins. Í árslok 2021 skuldaði félagið 1.899,2 m.kr. meðan eignir voru metnar á 1.900,5 m.kr. Eiginfjárhlutfallið var 0,07%. Sem er eiginlega það sama og núll.

Þorpið vistfélag á tæp 42% í Þorpinu 3, sem heldur utan byggingu á húsi A við Jöfursbás 11. Við stofnun lögðu eigendur rúma 1,2 m.kr. til félagsins. Í árslok 2021 skuldaði félagið 546,8 m.kr. meðan eignir voru metnar á 548,0 m.kr. Eiginfjárhlutfallið var 0,2%. Sem er einum hósta frá því að vera ekkert.

Þorpið vistfélag á 73% í Þorpinu 4, sem heldur utan byggingu á húsi B við Jöfursbás 11. Við stofnun lögðu eigendur rúma 1,2 m.kr. til félagsins. Í árslok 2021 skuldaði félagið 521,3 m.kr. meðan eignir voru metnar á 522,6 m.kr. Eiginfjárhlutfallið var 0,2%. Það mælist varla.

Þorpið vistfélag á 40% í Þorpinu 5, sem heldur utan byggingaréttinn á Bræðraborgarstíg 1. Við stofnun lögðu eigendur 500 þús. kr. til félagsins, sem er lágmarkið til að fá félag skráð. Í árslok 2021 skuldaði félagið 243,3 m.kr. meðan eignir voru metnar á 243,8 m.kr. Eiginfjárhlutfallið var 0,2%. Sem virðist næstum regla hjá Þorpsfélögunum.

Þorpið vistfélag á 100% í Þorpinu 6, sem heldur utan byggingarétti við Þórðarhöfða. Hlutfé var 500 þús. kr. Í árslok 2021 voru sáralitlar eignir og skuldir í þessu félagi, enda enginn rekstur.

Þorpið vistfélag á 100% í Þorpinu 7 og lagði til þess 500 þús. kr. Sáralítil starfsemi var í því félagi 2021.

Ekki var starfsemi árið 2021 í félögunum Þorpið 8 og Þorpinu 12B.

Eins og sést af þessari upptalningu þá lögðu eigendur Þorpsins sáralítið til félagsins í upphafi og jafn lítið til þeirra félaga sem hafa verið stofnuð til að halda utan um rekstur og kaup á byggingarétti. Inn í rekstrarfélögunum eru víkjandi lán um á nokkur hundruð milljónir, sem ætla má að beri háa vexti í takt við áhættuna. Í árslok 2021 var ekki hægt að sjá af reikningum félagana hvernig standa átti að fjármögnun á kaupunum á lóðum og byggingarétti fyrir marga milljarða.

En það þarf ekki ríkt ímyndarafl til að sjá fyrir sér hver staða þessara félaga Þorpsins eru í dag, eftir að vextir hafa hækkað mikið, aftur og aftur. Sá sem á lítið en skuldar mikið í slíku ástandi. Það sem gerist er að vaxtagreiðslurnar hækka hratt. Veðmálið fellur um að fasteignaverð hækki hratt umfram fjármagnskostnaðinn og skapi eigið fé.

Af reikningunum Þorpsins og dótturfélaga má ætla að félagið hafi í raun alla tíð verið rekið upp á náð lánardrottna. Og í sjálfu sér breytist ekki mikið þótt þeir taki félögin yfir. Eigendurnir lögðu lítið til félagana í upphafi og tapa því litlu.

En þegar flett er í gegnum þessa reikninga hljóta að vakna spurningar hvers vegna félög með svona þunna eigin fjármögnun geti verið ráðandi aðilar við mótun borgarinnar. Meirihlutinn í Reykjavík hefur hafnað því að borgin sjálf eigi að standa í byggingu íbúðarhúsnæðis, að það sé hlutverk hins svokallaða markaðar. En sá markaður er oft lítið annað en loft og belgingur, sem ekki getur lifað af nema hina allra bestu tíma.

Um leið og fjarar út kemur í ljós hverjir eru í skýlum, er stundum sagt. Í Kastljósi gærkvöldsins mátti sjá skýlulausan verktaka kalla eftir snöggum vaxtalækkunum til að bjargar fyrirtækinu sínu.

Myndin er af Runólfi Ágústssyni kalla eftir vaxtalækkunum í Kastljósi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí