Aðgerðasinnar mótmæltu við norska þinghúsið í Osló á mánudag með því að taka sér stöðu við alla innganga þess. Var um að ræða meðlimi alþjóðlegu umhverfisverndar samtakanna Extinction Rebellion sem hafa látið mikið að sér kveða í mótmælum gegn stefnum Vesturlanda í umhverfismálum. Í yfirlýsingu frá samtökunum sögðust þau vera að loka þinghúsinu fyrir ráðamönnum vegna ákvörðun þeirra um að gefa olíufyrirtækjum heimild til að hefja olíuframleiðslu á þremur nýjum stöðum. Mun þessi framleiðsla leiða til útblásturs 432 milljónum tonnum af koldvíoxíði – sem samsvarar níföldum árlegum útblæstri Noregs. Vilja samtökin meina að þetta er hrein og klár bilun í ljósi þess hversu tæpt heimurinn stendur nú þegar í loftslagsmálum.
Var þessi lokun þinghússins þó einungis táknræn – engum var raunverulega varnað inngöngu og fór allt friðsamlega fram.
Olíuframleiðsla Noregs
Síðan á seinni hluta 7.áratugarins hefur Noregur verið stór olíuframleiðandi, og hefur hagnast virkilega mikið á þeirri framleiðslu. Hefur þessi framleiðsla þó verið mikið gagnrýnd á síðari tímum, í ljósi loftslagsbreytinga og sífellt háværari og alvarlegri aðvaranir vísindamanna. Noregur hefur tekið einhver skref í átt að því að bregðast við þessari gagnrýni, minnka hversu háður efnahagurinn er olíuframleiðslu, og fjárfesta í ýmsum grænum lausnum og sjálfbærri orkutækni. Margir gagnrýnendur hafa þó bent á að þessar aðgerðir dugi skammt, og eru lítið annað en táknrænar. Að ætla að hefja svo mikla olíuvinnslu á þremur nýjum svæðum er ekki einungis gríðarleg hræsni, í ljósi meintra yfirlýsinga ráðamanna um mikilvægi þess að stemma stigu við loftslagsbreytingum, heldur ekkert minna en stórhættulegt mannkyninu öllu.
Extinction Rebellion
Extinction Rebellion eru alþjóðleg umhverfisverndar samtök sem komu fyrst fram á sjónarsviðið árið 2018 í Bretlandi. Markmið þeirra er að berjast gegn loftslagsbreytingum með beinum aðgerðum og borgaralegri óhlýðni í þeim tilgangi að stuða samfélagið, vekja það til meðvitundar um alvarleika loftslagsbreytinga, og fá samfélagið til að bregðast við af alvöru – eitthvað sem óhætt er að segja að ríkisstjórnir Vesturlanda séu engan vegin byrjuð að gera nægilega vel.