Félagið Ísland-Palestína birtir ræðu rithöfundarins Braga Páls Sigurðarsonar á mótmælum við bandaríska sendiráðið í gær. Í ræðunni setur Bragi Páll árásir Ísraelshers á Gaza í samband við utanríkisstefnu Bandaríkjanna og heldur því fram að sú stefna sé rekin undir yfirskini frelsisbaráttu: ,,Bandaríkin hafa sprengt í nafni frelsis og lýðræðis frá lokum síðari heimsstyrjaldar.
Góðir fundargestir
Nú þegar sprengjum Ísraela rignir daglega yfir saklausa Palestínska borgara er eðlilegt að spyrja hvers vegna við stöndum hér fyrir utan Bandaríska sendiráðið að mótmæla. Ég ætla því að leyfa mér að byrja á því að lesa upp lista yfir þau lönd sem Bandaríkin hafa sprengt í nafni frelsis og lýðræðis frá lokum síðari heimstyrjaldar.
Kórea og Kína 1950-53
Gvatemala 1954
Indónesía 1958
Kúba 1959-1961
Gvatemala 1960
Kongó 1964
Laós 1964-73
Víetnam 1961-73
Kambódía 1969-70
Gvatemala 1967-69
Grenada 1983
Líbanon 1983, 1984
Líbía 1986
El Salvador: níundi áratugurinn
Níkaragva: Níundi áratugurinn
Íran 1987
Panama 1989
Írak 1991
Kúveit 1991
Sómalía 1993
Bosnía 1994, 1995
Súdan 1998
Afghanistan 1998
Júgóslavía 1999
Jemen 2002
Írak 1991-2015
Afghanistan 2001-2015
Pakistan 2007-2015
Sómalía 2007-8, 2011
Jemen 2009, 2011
Líbía 2011, 2015
Sýrland 2014-2016
Og síðast en ekki síst Palestína 1948-2023.
En þetta eru ekki bara nöfn á löndum og ártöl. Að baki hverju einasta ártali eru þúsundir, stundum milljónir látinna borgara, alveg eins og þeir sem við sjáum nú á myndum frá Palestínu síðustu tvo mánuði. Húsarústir. Sundursprengdir líkamar. Brostnar vonir. Botnlaus sorg.
En af hverju erum við hérna núna? Fyrir utan Bandaríska sendiráðið? Vegna þess að undir og við strandlengju Gaza eru olíu og gas-auðlindir sem Bandaríkjamenn og Ísraelar ætla að ná endanlegum yfirráðum yfir. Þar sem Gaza borg stendur ætla þeir svo að byggja stórskipahöfn til þess að stjórna olíu og gas-sölu. Hamas skiptir engu máli. Ekki láta ljúga því að ykkur. Hamas var ekki til þegar landránið hófst árið 1948. Bandaríkin hafa aldrei þurft afsökun fyrir því að drepa saklausa borgara sjálfum sér til framdráttar. En þau eru samt mjög dugleg að búa sér til afsakanir. Hamas er ein af þeim.
Athugum líka, þó þið vitið það eflaust, að Ísrael hegðar sér ekki eins og eðlilegt lýðræðisríki. Þeir eru aðeins framlenging af Bandaríkjunum. Bandaríkin eru fullorðinn maður að skjóta barn í höfuðið. Aðeins vísifingurinn sem tekur í gikkinn er Ísrael. Restin af líkamanum er Bandaríkin. Byssan og kúlan í höfði barnsins koma þaðan. Ísrael hreyfir sig ekki nema með samþykki og blessun Bandaríkjanna. Og þess vegna stöndum við hér.
En hvers vegna hefur heimurinn leyft Bandaríkjamönnum að hegða sér svona undanfarna öld? Vegna þess að Bandaríkin hafa sprengt og mútað öllum sem andmæla. Þeir sprengja brúnt fólk og múta hvítu fólki. Þess vegna er friður á Íslandi, því við höfum tekið við mútunum. Þess vegna létust allir vinstri sinnaðir, lýðræðislega kjörnir fulltrúar Suður-Ameríku og Asíu í dularfullum flugslysum, bílslysum og sprengingum. Af því þeir létu ekki kaupa sig. Þannig vann kapítalisminn kalda stríðið, ekki með hugmyndafræðilegum yfirburðum, heldur með morðum. Valdaránum. Þjófnaði.
Það er ástæðan fyrir yfirburðum hins svokallaða vesturs frá lokum seinna stríðs. Af því Bandaríkin eru duglegasti vopnaframleiðandi í heimi. Duglegasti vopnanotandi í heimi. Hið kapítalíska kerfi gengur út á arðrán, þjófnað og ofbeldi.
Það er ástæðan fyrir þjóðarmorðinu í Gaza, ekki útrýming Hamas, heldur vegna þess að Bandaríkjamönnum langar í eitthvað. Olíu. Land. Aukin völd. Mannslíf skipta þá engu máli. Um leið og þú tekur ekki við mútunum þá tekur þú við sprengjunum.
Heimurinn er ekki frjáls. Við erum aðeins frjáls og eins langt og snaran sem Bandaríkin hnýta utan um hálsinn á okkur nær. Og nú er sú snara endanlega að kæfa íbúa Palestínu.