Verðbólga étur hratt upp kaupmátt launafólks. Hagstofan birti í morgun upplýsingar um að kaupmáttur launafólks hefði skroppið saman um 4,5% á fyrsta ársfjórðungi í samanburði við sama tíma í fyrra. Þá voru launahækkanir stærsta hluta launafólks innan Alþýðusambandsins komnar fram. Hækkanir til opinberra starfsmanna og Eflingar tilheyra næsta ársfjórðungi. Eftir sem áður er ljóst að kaupmáttur launafólks brennur hratt upp.
Fram undan er seinni helmingur ársins þar sem litlar sem engar umsamdar hækkanir verða. Þá mun verðbólgan ekki fá neina mótspyrnu, nema með launaskriði hjá þeim sem hafa afl til að sækja launahækkanir umfram samninga.
Hagstofan áætlar að ráðstöfunartekjur heimilageirans hafi aukist um 8,5% á fyrsta ársfjórðungi 2023 í samanburði við sama tímabil fyrra árs. Ráðstöfunartekjur á mann numu rúmlega 1,26 milljónum króna á ársfjórðungnum og jukust um 4,7% frá sama tímabili í fyrra. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi dregist saman um 4,8% á tímabilinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 10% á sama tímabili.
Svo hefur þróun kaupmáttar verið undanfarin misseri:

Þarna má sjá að kaupmátturinn byrjar að rýrna á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Og rýrnar hratt fram að samningunum í lok síðasta árs. Þá dregur úr því hversu hratt kaupmátturinn rýrnar í samanburði við síðasta ár, en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs þá eykst hraðinn að nýju.
Sem fyrr segir má reikna með að kaupmáttur rýrni mikið á seinni helmingi ársins.