Það er alls ekki svo að ákvörðun Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur um að loka sendiráði Íslands í Moskvu sé óumdeild innan utanríkisþjónustunnar. Margir reynsluboltar líta á þetta sem diplómatískt tap, að það sé einmitt enn frekar á stríðs- og erfiðleikatímum mikilvægara að halda gáttum opnum. Sendiráð séu ekki verðlaun eða viðurkenning á stjórnarstefnu þeirra ríkja þar sem þau eru sett niður. Margir reyndir starfsmenn utanríkisþjónustunnar hefðu því viljað halda sendiráðinu opnu.
Það vekur líka upp spurningar hvers vegna Ísland grípur til þessara aðgerða, eitt landa í heiminum. Bandaríkin hafa haldið sínu sendiráði í Moskvu frá því landið viðurkenndi Sovétríkin, í gegnum allskyns átök, innrásir, njósnir og hleranir. Mörg lönd hafa dregið úr starfsemi sinna sendiráða í Moskvu og vísað sendiráðsfulltrúum Rússa úr landi. Með ákvörðun sinni nú, hefur Þórdís Kolbrún sent íslensku utanríkisþjónustuna út á ókunnugar slóðir. Það er upplifun margra starfsmann að þar sé hún nú ein og án fordæma.
Gallinn við ákvörðunina þykir ekki síst að hún tekin til að mótmæla eða lýsa vanþóknun á stefnu annars ríkis. Meginhlutverk sendiráðs er að koma slíku á framfæri ef þurfa þykir. Mörgum þykir því opinberast í ákvörðuninni misskilningur á eðli diplómatískra samskipta.