ÖBÍ krefur ríkisstjórnina um úrbætur á stórlega gölluðum leigumarkaði

Húsnæðismál 14. jún 2023

Fatlað fólk ber ekki ábyrgð á þeirri þenslu sem hefur myndast á húsnæðismarkaði og þeim hamförum sem það hefur haft á efnahagslífið í landinu segir í áskorun sem ÖBÍ sendi frá sér í morgun.

ÖBÍ réttindasamtök hafa sent frá sér áskorun þar sem krafist er að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur bregðist við því ófremdarástandi sem nú er í húsnæðismálum fatlaðs fólks. Í kröfugerð samtakanna segir „ÖBÍ krefst þess að óheimilt verði að hækka fjárhæð leigu íbúðarhúsnæðis umfram vísitölu hverju sinni. Tryggja þarf betra öryggi fólks sem gert hefur skammtíma leigusamninga gagnvart hækkun umfram vísitölu. Endurskoðun húsaleigulaga er forgangsmál.

Fatlað fólk er viðkvæmasti og jafnframt tekjulægsti hópur samfélagsins og hefur fá tækifæri önnur en að leigja húsnæði af öðrum. Því er brýnt að stjórnvöld verji fatlað fólk fyrir óhóflegum hækkunum leiguverðs og auki við húsnæðisstuðning. Húsnæðisbótakerfið er í grunninn gallað þar sem ríki og sveitarfélög tala illa saman.

Stjórnvöld verða að gera grundvallarbreytingar til að bæta stöðuna. Það er vanhugsað að mæta ekki uppsafnaðri íbúðaþörf landsmanna. Tryggja þarf fullnægjandi stofnframlög í fjármálaáætlun til framtíðar. Kjarabót í formi húsnæðisbóta verður að vera skerðingalaus hvort heldur er í formi eignaviðmiða sveitarfélaga eða leiguverðs leigusala.

Fatlað fólk ber ekki ábyrgð á þeirri þenslu sem hefur myndast á húsnæðismarkaði og þeim hamförum sem það hefur haft á efnahagslífið í landinu. Stjórnvöld verða að beina öllum sínum aðhaldsaðgerðum í rétta átt og tryggja fötluðu fólki húsnæðisöryggi og sveigjanleika undan skerðingum.

Samstöðin ræddi við formann húsnæðishóps Öryrkjabandalagsins Maríu Pétursdóttur sem segir stöðuna grafalvarlega. Leigusalar notfæri sér ástandið og kerfin tali illa saman og því verði ríkisstjórnin að beita betri aðhaldsaðgerðum. „Það hafa margir bent á ýmis tæki svo sem leigubremsur og fleira en erlendis þekkjast ýmsar útgáfur af tólum til að hemja markaðinn og því þarf ekki einu sinni að finna upp hjólið“ segir María. Þá sé hægri hendi hins opinbera kannski að hækka húsaleigubætur, segir hún en vinstri hendin hækkar ekki tekjuviðmið sveitarfélaganna á móti og leigusalar hækka verðið svo tekjuauki fuðrar upp í skerðingum.

María segir að samkvæmt nýjustu rannsókn sem húsnæðishópur ÖBÍ vann með félagsvísindastofnun á síðasta ári sé það ljóst að um 20% fleiri fatlaðra séu á leigumarkaði umfram ófatlaðra og stærsti hópurinn sé fólk sem fæðist fatlað eða fatlast snemma á lífsleiðinni. „Það segir sig því sjálft að tækifæri fólks á húsnæðismarkaði eru ekki jöfn. Í samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem verið er að innleiða sé einnig ítrekað að yfirvöld tryggi fötluðu fólki húsnæðiskerfi en staðreyndin er sú að biðtími fólks eftir leiguhúsnæði er yfirleitt þrjú ár eða meira auk þess sem hlutdeildarlán henta ekki þeim tekjutíundum sem flestir öryrkjar eru í á strípuðum lífeyri“ segir hún og bætir við að Þá sé afar brýnt að endurskoða húsnæðisbótakerfið og húsaleigulögin öll enda stórgölluð.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí