Ríkisstjórnarflokkarnir vilja frekar styðja Mata-systkinin en Úkraínumenn

Með ákvörðun sinni um að setja tolla á kjúklingakjöt frá Úkraínu er meirihluti efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is að vernda innlendar kjúklingaverksmiðjur og fyrst og fremst þrjú fyrirtæki. Hvert stærst er Matfugl, sem eru í eigu Mata-systkinanna sem jafnframt eru eigendur Ölmu leigufélags og marga annarra fyrirtækja. Mata-systkinin hafa mikið verið í fréttum undanfarin misseri, enda hækkað mjög húsaleigu hjá leigjendum Ölmu eftir að þau keyptu félagið.

Í umræðunni um þessa ákvörðunar nefndarinnar hefur verið bent á að Íslendingum stafaði hætta af útlendu kjöti og þeim bakteríum sem það getur borið með sér. Ákvörðunin felur hins vegar ekki í sér að banna innflutning á kjúklingakjöti. Innflutningur á því er heimill en það leggst þungur tollur á kjúklinginn, um 750 krónur á hvert kíló.

Þrátt fyrir háan toll hefur töluvert verið flutt inn af kjúklingakjöti í gegnum árin. Bæði fugl í heilu og hlutaður, en líka í allskyns tilbúnum réttum. Það stendur ekki til í að banna þennan innflutning vegna smithættu eða hættu á útbreiðslu baktería í íslenska dýrastofna. Ákvörðun meirihlutans felur í sér að leggja tolla á kjúklinginn frá Úkraínu til að koma í veg fyrir að innflutningur þaðan leiði til verðlækkunar á kjúklingum framleiddum á Íslandi, sem myndi draga út hagnaði íslenskra kjúklingabúa. Og þá einkum þriggja fyrirtækja sem framleiða svo til allan kjúkling á Íslandi og hafa myndað vanhelgt fákeppnisbandalag sín á milli og haldið uppi verði til neytenda.

Innanlandsframleiðsla á alifuglakjöti hefur verið um 9.000 til 9.500 tonn undanfarin ár. Innflutningur hefur hins vegar aukist þrátt fyrir svimandi tolla, fór úr 1.145 tonnum 2018 í 1.815 tonn í fyrra. Aukningin var mest í fyrra. Af 670 tonna aukningu á fjórum árum komu 373 tonn í fyrra. Það eru líklega áhrifin af niðurfellingu á tollum á úkraínskum kjúklingum. Þetta er um 3% af öllum kjúklingunum á markaðnum, innfluttum og framleiddum innanlands. Og hljómar ekki sem stórt mál.

En íslenskir kjúklingaframleiðendur líta ekki svo á. Háir tollar eru forsenda þess að þeir geti rekið fyrirtæki sín með hagnaði. Með því að leggja um 750 kr. á hvert kíló af innfluttum kjúklingum er innflutta kjötið stillt inn á verðlagningu innlendra framleiðenda. Ef enginn væri tollurinn þyrftu innlendir framleiðendur að stilla sig inn á verðið á innfluttu kjúklingunum.

Hluti af innflutningnum kemur inn á lægri tollum samkvæmt samningnum við Evrópusambandið, um 400 tonn. Á það sem umfram er leggst 540 kr. tollur plús 18% verðtollur á innflutningsverðið ef kjúklingurinn kemur frá Evrópusambandinu en 900 kr. og 30% ef kjúklingurinn kemur annars staðar frá. Kjúklingur sem kostar 500 kr. hingað kominn frá Evrópusambandinu fær á sig 540 kr. toll og svo 90 kr. verðtoll, kostar 1.130 kr. í kominn á lager búðarinnar. Þá fær hann á sig 25% álagningu og síðan 24% virðisaukaskatt. Neytandinn þarf því að borga 1.751 kr. fyrir kjúklinginn. Ef kjúklingurinn kemur frá löndum utan Evrópusambandsins, eins og t.d. Úkraínu, kostar 500 kr. kjúklingurinn á endanum 2.402 kr. þegar neytandinn kaupir hann.

Þessi tollar eru lykillinn af starfsemi kjúklingabúanna íslensku. Þau eru vernduð fyrir samkeppni að utan og geti í raun skammtað sér framlegð og hagnað í skjóli fákeppni. Ef við miðum við að verðverndin sé um 750 kr. á hvert kíló, það er að ef innflutningur myndi neyða íslensku framleiðendurna til að færa sig niður að verðinu á innfluttu kjúklingunum, má ætla að verðverndin á um 9.500 tonna framleiðslu sé um 7.125 m.kr. virði. Það er það fé sem neytendur borga innlendum framleiðendum umfram það sem væri ef þeir nytu ekki verðverndar með tollum.

Samkvæmt könnun Samkeppniseftirlitsins skiptist markaðshlutdeild á kjúklingamarkaði svona:

FyrirtækiHlutdeild
Reykjagarður35-40%
Matfugl35-40%
Ísfugl10-15%
Aðrir framleiðendur5-10%
Innflutningur5-10%

Ef við skiptum þessum 7.125 m.kr. milli innlendu aðilanna er niðurstaðan þessi:

FyrirtækiStyrkur
Það er 3.143 m.kr.
Matfugl3.143 m.kr.
Ísfugl1.048 m.kr.
Aðrir framleiðendur629 m.kr.

Þetta eru gríðarlegir styrkir til þriggja fyrirtækja fyrst og fremst. Þeim er ekki úthlutað af skattfé úr ríkissjóði heldur eru þeir lagðir á neytendur með hærra vöruverði.

Reykjagarður er í eigu Sláturfélags Suðurlands. Það er tvískipt hlutafélag. Annars vegar eiga bændur A-bréf en hins vegar fjárfestar B-bréf, og þá einkum lífeyrissjóðir.

Matfugl er í eigu Mata-systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra. Þau eru meðal auðugustu Íslendinganna.

Ísfugl er í eigu Jóns Magnúsar Jónssonar og Kristínu Sverrisdóttur, bænda á Reykjum í Mosfellsbæ.

Það er ekki svo að þessi stuðningur neytenda við þessi fyrirtæki leiði til þess að þau séu rekin með stórkostlegum hagnaði. Það þarf ekki að vera raunin á vernduðum fákeppnismarkaði. Í sumum tilfellum fer styrkurinn í að halda uppi fyrirtækjum sem ella myndu ekki lifa af.

Mörg lönd vernda sinn landbúnað til að tryggja fæðuöryggi, til að viðhalda byggð til sveita og vernda innlenda menningu og samfélag. Kjúklingarækt á Íslandi fellur illa að þessu þar sem hún er fyrst og fremst verksmiðjubúskapur sem stundaður er í þéttbýli. Neytendur greiða ekki verndartolla til að viðhalda byggð í dreifðari byggðum eða styrkja býlisrekstur fjölskyldna. Kjúklingarækt er mun líkari verksmiðjurekstri en landbúnaði, öðrum megin fer inn hráefni í formi fóðurs og út um hinn endann á verksmiðjunni kemur kjúklingakjöt.

Og þetta eru hagsmunirnir sem efna­hags- og viðskipta­nefnd­ Alþing­is kaus að vernda fremur en að viðhalda þeim stuðningi við fallandi úkraínskt efnahagslíf sem fólst í niðurfellingu verndartolla. Tollarnir vernda okkur ekki fyrir bakteríum og smiti. Ef það væri markmiðið væri innflutningur á kjúklingum bannaður. Innflutningur á kjúklingakjöti er leyfður, með ofurtollum eða mildari tollum samkvæmt samningum við ESB. Tollarnir eru því ekki til að vernda neytendur eða dýrastofna heldur fyrst og fremst til að vernda þrjú fyrirtæki.

Myndirnar eru af Gunnari Þór Gíslasyni, sem fer fyrir Mata-systkinunum, og Vólódímír Selenskí, sem fer fyrir Úkraínumönnum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí