Ríkisútvarpið opið fyrir áróðri stórfyrirtækja

Hagsmunasamtök stærstu eigenda stærstu fyrirtækja landsins og auðugustu fjármagnseigendanna eiga greiða leið að Ríkisútvarpinu, sem iðulega útvarpar áróðri þessara aðila gagnrýnislaust. Þetta á ekki bara við svokallaðar greiningardeildir bankanna, sem hvetja til hækkunar stýrivaxta sem eykur hagnað bankanna og tala gegn kröfum launafólks um kjarabætur, heldur fá Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð vettvang hjá RÚV til að flytja sinn boðskap gagnrýnislaust.

Í Speglinum í gær var útvarpað í viðtalsformi erindi Önnu Hrefnu Ingimundardóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra SA. Þar hélt hún því fram að almenningur yrði að taka á sig kjaraskerðingu til að lækka verðbólgu, að launafólk yrði að éta verðbólguna svipað og það gerði eftir svokallaða þjóðarsáttasamninga fyrir rúmum þrjátíu árum. Anna Hrefna sagði að „við“ yrðum að taka á okkur kjaraskerðingu, og átti þá við almenning. Hún var þó að tala út frá hagsmunum fjármagns- og fyrirtækjaeigenda, sem myndu stækka umtalsvert sína sneið af framleiðslunni ef launafólk tæki á sig kjaraskerðingu í 10% verðbólgu og 7% hagvexti. Frá því sjónarhorni hefði verið réttara af Önnu Hrefnu að segja að „þið“ launafólk verðið að éta verðbólguna svo sneið „okkar“ stórfyrirtækjaeigenda geti stækkað.

Eitt af því sem Anna Hrefna hélt fram í erindi sínu í Speglinum var að hlutfall skatta á Íslandi væri hæðst í heiminum. Þetta er alrangt. Hér er graf frá OECD um hlutfall skatta af landsframleiðslu aðildarríkjanna á árunum 2019 og 2020. Yngri upplýsingar eru enn götóttar, auk þess sem 2019 er betri viðmiðun en árin 2020-21 þegar cóvid geisaði.

Þarna sést að Ísland er rétt yfir meðaltalinu. Allar Norðurlandaþjóðirnar eru fyrir ofan okkur og öll lönd sem ekki hafa brotið niður velferðarríkið. Þetta eru Norðurlöndin Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Noregur í þessari röð. Noregur er neðstur Norðurlanda þar sem þar vigtar olían í landsframleiðslu en miklu síður í skattlagningu, þar sem áhrifum arðsins af olíunni er í reynd haldið utan efnahagskerfisins. En þarna eru líka velferðarríki Vestur-Evrópu: Frakkland, Belgía, Austurríki, Holland, Lúxemborg, Þýskaland. Þetta eru lönd sem mótuð voru af verkalýðsbaráttu síðustu aldar og byggðu upp velferðarríki á grunni hennar. Og hafa ekki gengið eins langt og engilsaxnesku löndin í að brjóta velferðina niður. En fyrir ofan Ísland eru líka Miðjarðarhafsríkin Ítalía og Grikkland og Austur-Evrópuríkin Slóvenía, Ungverjaland og Pólland.

En það er aðeins sjónarmunur á Íslandi og þessum þremur síðasttöldu. Réttara væri að segja að Ísland sé í flokki með Austur-Evrópuríkjunum Slóveníu, Ungverjalandi, Póllandi, Tékklandi, Slóvakíu og Eistlandi, ríkjunum á Pýrenaskaganum Spáni og Portúgal, Kanada og Bretlandi. Þetta eru lönd Austurblokkarinnar fyrrverandi, lönd sem sluppu undan fasisma fyrir hálfri öld, Kanada og Bretland. Bretland var í flokki með velferðarríkjum Norðvestur-Evrópu, en hefur gengið lengra en þau lönd inn öngstræti nýfrjálshyggjunnar. Ástæða þess hversu hátt Bretland er þó, þrátt fyrir blinda nýfrjálshyggju í fjörutíu ár, er að það var á eftirstríðsárunum þó nokkuð öflugt velferðarríki í samanburði við önnur, með gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og viðamikið félagslegt húsnæðiskerfi.

Fyrir neðan okkur, og þangað sem SA vill færa okkur, eru lönd í Austur-Evrópu sem gengið hafa lengt sinn öngstræti nýfrjálshyggjunnar: Litháen og Lettland. Engilsaxnesku löndin sem hafa verið í forystu í nýfrjálshyggjunni: Bandaríkin, Ástralía og Nýja Sjáland. Ríki Mið- og Suður Ameríku: Mexíkó, Kólumbía, Chile og Kosta Ríka. Asíuríkin Kórea og Japan. Þarna er líka Ísrael og Tyrkland. Og tvö ríki í Evrópu, Sviss og Írland. Sviss hefur verið fjármálamiðstöð fyrir alheimsauðvaldið og Írland hefur kosið að laða til sín höfuðstöðvar risafyrirtækja með skattaafslætti. Efnahagslíf þessara ríkja byggir því á þjónkun við auðvaldið.

Þessi yfirferð gefur ágæta mynd af áróðri Önnu Hrefnu og SA. Hann er um það að Ísland sé skakkt, ekki vegna þess að hér séu skattar á fyrirtækja- og fjármagnseigendur of lágir til að standa undir velferðarríki heldur þvert á móti að skattarnir séu of háir, að við eigum að elta þau lönd sem hafa brotið velferðina niður í þágu aukins arðs til hinna ríku. Eða verða líkara löndum sem aldrei náðu að byggja upp velferð.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí