Félagið Ísland-Palestína boðaði til fundar í samvinnu við fundarröð Ögmundar Jónassonar; Til róttækrar skoðunar. Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir Palestínu og þá einnig Ísrael? Verður ekkert lát á ófriði og mannréttindabrotum? Gideon Levy er margverðlaunaður ísraelskur blaðamaður sem hefur gagnrýnt harðlega aðskilnaðarstefnu Ísraels um áratugaskeið og uppljóstrað um mannréttindabrot þeirra. Hann hefur haldið sínu striki í þágu mannréttinda og aldrei látið hræða sig frá því að gera það
Gideon segir meðal annars að ríki sem viðheldur svona harðhentri og ómannúðlegri hernaðarsetu geti ekki talist lýðræði. Hann bendir á að í Ísrael og Palestínu búi tvær þjóðir við allt önnur lífsskilyrði. Fyrir gyðinga í Ísrael er lýðræði, tjáningarfrelsi og ríkisborgararéttindi en fyrir múslíma í Ísrael er raunin önnur. Í orði eiga þau að hafa sömu réttindi og tilvistarrétt en raunin er allt önnur. Þeim er mismunað harkalega. Gideon mælir fyrir eins ríkis lausn, vegna þess að Ísrael og Palestína eru í dag raunverulega eitt ríki þar sem Ísrael hefur öll völd og er hægt en örugglega að eyða út Palestínu og gera fólkið þar réttindalaust. Lausnina segir hann liggja í því að Ísrael-Palestína verði raunverulegt lýðræði, þar sem allir njóti sömu réttinda

Hann segir frá því hversu grimmilega er farið með fólkið í Palestínu. Þrjár milljónir búa á Vesturbakkanum undir harðir hernaðarsetu Ísraela. Þau hafa engin réttindi, flest engan ríkisborgararétt og framtíð þeirra, fortíð og nútíð, er að lifa undir ofbeldi og kúgun hersetuliðsins.
Gaza

Svo eru tvær milljónir Palestínumanna sem búa á Gaza, sem Gideon segir að sé stærsta búr í heimi. Stærsta tilraun með mannfólk sem finnst á jörðinni. Þarna eru læst inni tvær milljónir manna í 16 ár hingað til án allra réttinda. Hann biður okkur að hugsa um hvað gerist við slíkar aðstæður. „Engin okkar hér, með fullri virðingu, getur skilið hvað það þýðir að lifa á Gaza. Við getum ekki ímyndað okkur hvernig það er að vera ung manneskja á Gaza sem hefur engin tækifæri. Þú getur lært ýmislegt, en ekkert gert við þekkinguna, þú getur framleitt en ekki flutt neitt út, þig getur dreymt um allt milli himins og jarðar en getur aldrei raungert draumana. Þú kemst ekki út.”

„Á vesturbakkanum sérðu tvö þorp. Eitt þorpið er nýtt landnámsþorp gyðinga, þar eru allar auðlindir sem fólk þarf, þau hafa öll réttindi, ríkisborgararétt, ferðafrelsi, vatn, rafmagn. Við hliðina er annað, miklu eldra, þorp. Þau hafa ekkert. Engin réttindi, engan ríkisborgararétt. Þau munu ekki taka þátt í kosningum sem nágrannar þeirra taka þátt í.” hélt Gideon áfram. „Það er ekki eitt þorp á vesturbakkanum sem hefur ekki misst megnið af landinu sínu. Það er ekki ein fjölskylda sem er ekki annaðhvort með einn son í ísraelsku fangelsi eða hefur misst fjölskyldumeðlim vegna hersetunnar.” Gideon bendir á að fjölmargir múslímar í Ísrael – Palestínu séu í fangelsi án neinna formlegra saka, það sé skýrt brot á mannréttindum og að raunveruleg lýðræði stunda ekki slíkt..

„Það er ekkert annað orð yfir þetta en aðskilnaðarstefna,” bætir Gideon við. Í erindinu vakti hann athygli á því að annað ríki hafði aðskilnaðarstefnu fyrir fáum áratugum en því var hægt að sigrast á. Aðskilnaðarstefna er enn þá stunduð í Ísrael en þrátt fyrir það er Ísrael í miklu uppáhaldi hjá valda- og áhrifa fólki í vestrinu. Gideon segir að ríki sem stundar aðskilnaðarstefnu geti ekki verið raunverulegt lýðræði á sama tíma.

Ísrael tekist að villa umræðuna
Gideon bendir á að Ísrael hefur beitt sér fyrir því að allri gagnrýni á aðskilnaðarstefnu þess verði tekið sem gyðingaandúð og að Evrópa sérstaklega hafi fallið fyrir þessu. „Sjáið hvað þau gerðu við Jeremy Corbyn og Roger Waters. Hver sá sem gagnrýnir aðskilnaðarstefnu Ísraels er samstundis sakaður um að vera gyðingahatari.” Gideon segir að hægt sé að gagnrýna aðskilnaðarstefnu Ísraels án þess að hafa „eitt gramm” af gyðingaandúð í sér. „Það er ekki ósiðlegt að gagnrýna Ísrael og með því að þegja eruð þið ekki að vera vinir Ísraels. Því þessi stefna mun á endanum granda Ísrael. Við sjáum byrjun þess í dag. Við erum að sjá í dag hægri sinnuðustu og fasískustu stjórn Ísraels frá upphafi. Öfga hægri fólkið sem við sjáum í Evrópu í dag er mjög hófsamt miðað við öfga hægrið í Ísrael. „Þeir eru yfirlýstir fasistar með skýr markmið um að hreinsa alla araba frá landinu á milli fljótsins Jórdans að miðjarðarhafi. Þetta byrjaði árið 1948 og þeir segja það skýrt að þeir vilja annað Nakba.”

Segir síónisma vera rasíska yfirburðar stefnu
Gideon segir síónisma hafa eina grunn meiningu; yfirburði gyðinga í Ísrael-Palestínu. “Hver sá sem samþykkir drottnun eins fólks yfir öðru er rasisti. Hvernig er hægt að vera ríki gyðinga þegar helmingur fólksins í landinu eru múslímar? Þetta er lygi síónismans; að það sé hægt að vera ríki gyðinga og lýðræði þegar helmingur fólksins er múslímar.”
Kallar eftir einna ríkja lausn
Gideon segir að tveggja ríkja lausnin sé vonlaus. Ísrael og Palestína eru í raun núþegar eitt ríki þar sem Ísrael er með fulla stjórn á öllu og tekur meira og meira land af fólkinu í Palestínu. Raunveruleg lausn er að gera Ísrael Palestínu að raunverulegu lýðræði, þar sem allir hafa sömu réttindi og jafnt aðgengi