Ásmundur Einar segist hvorki hafa verið ákærður fyrir innbrotið né yfirheyrður

„Þær sorglegu fjölskyldudeilur sem verið hafa í opinberri umræðu á síðustu dögum vegna erfðadeilu innan systkinahóps föður míns eftir fráfall afa míns árið 2007 eru mér með öllu óviðkomandi og hafa verið um langt árabil,“ segir Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra í yfirlýsingu sem hann hefur sent til fjölmiðla.

Frænkur Ásmundar hafa fjallað um deilurnar í hlaðvarpsþáttunum Lömbin þagna ekki þar sem þær saka Ásmund einar meðal annars um innbrot. „Það voru um­merki um nokk­ur inn­brot áður en hann er staðinn að verki. Þegar hann var staðinn að verki var hann bú­inn að klippa á lás­inn. Á þess­um tíma áttu Daði og Ásmund­ur ekk­ert í þessu húsi. Þá sér ein­hver til þeirra og læt­ur lög­regl­una vita,“ sagði Ása Skúla­dótt­ir, stjar­neðlis­fræðing­ur og ein af þrem­ur systr­um sem standa fyr­ir hlaðvarpinu, í samtali við Moggann. „Þegar lög­regl­an er kom­in er Ásmund­ur inni í hús­inu. Það sem er svo ógn­væn­legt við þetta er að hann var ekki einn. Í hlaðinu voru tveir til þrír stór­ir bíl­ar og menn með hon­um. Ásmund­ur hélt því fram að hann væri í flutn­ing­um og lög­regl­an lét það vera að hafa af­skipti af hon­um.“

„Enda þótt reynt sé að bendla mig við þetta mál, væntanlega til þess að beina að því sterkara kastljósi en ella, mun ég ekki glæða þá elda sem nú er reynt að kveikja með útskýringum né heldur með því að bera af mér endurteknar rangar sakargiftir,“ segir Ásmundur Einar í yfirlýsingu sinni. „Ég vek athygli á þeirri einföldu staðreynd að ég hef aldrei verið ákærður fyrir ólögmætt athæfi vegna þessara deilna né heldur yfirheyrður vegna einhverra málsatvika.“

Ásmundur Einar skýrir langa þögn sína um málið í yfirlýsingunni svo: „Ég tók í upphafi deilnanna einarða afstöðu með föður mínum. Engu að síður er langt síðan mér var það ljóst að nærvera mín í þessum ágreiningi gerði hvorki mér, fjölskyldu minni, né öðrum nokkurt gagn. Þess vegna steig ég út úr þessum átökum í eitt skipti fyrir öll fyrir mörgum árum síðan og mun ekki tjá mig um málið á öðrum vettvangi en þeim sem þar til bærir opinberir aðilar kunna mögulega að leita eftir. Ég á mér fyrst og fremst þá einlægu von að þessum fjölskylduharmleik ljúki sem allra fyrst.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí