Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafnar tilraunum áströlsku ríkisstjórnarinnar til að fá Bandaríkin til að hætta að reyna að fá Julian Assange, stofnanda Wikileaks, framseldan til sín. Þetta kom fram á sameiginlegum blaðamannafundi Blinken og Penny Wong, utanríkisráðherra Ástralíu.
Blinken var staddur í Ástralíu til að ræða við áströlsk stjórnvöld um varnarmál, en Ástralía er einn nánasti bandamaður Bandaríkjanna í austrinu þegar kemur að varnarmálum. Fundurinn átti sér stað í Brisbane.
Á fundinum staðfesti Blinken að áströlsk stjórnvöld hafa ítrekað borið þetta mál á góma við Bandaríkin, og að þrátt fyrir að Blinken sagði að hann skyldi áhyggjur Ástrala þegar kæmi að Assange, þá geti bandarísk yfirvöld ekki orðið að þeirri kröfu þar sem að Assange sé sekur um of alvarleg brot gegn Bandaríkjunum.
Á blaðamannafundinum var einnig tilkynnt að Bandaríkin myndu auka töluvert ferðir kjarnorku kafbáta til Ástralíu, ásamt herþotum og herskipum. Bandaríkin munu einnig styðja Ástralíu í að koma sér upp eigin framleiðslu á langdrægum eldflaugum innan tveggja ára.
Julian Assange dvelur nú í Belmarsh fangelsinu í London, þar sem hann bíður eftir að framsalskrafa Bandaríkjanna nái í gegn.