Björn Ingi segir ríkisstjórnina í dauðaslitrunum: „Majónesan er orðin gul“

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans og mikill innanbúðarmaður í Framsóknarflokknum, í það minnsta einu sinni, segir allt stefna í það að ríkisstjórnin hangi ekki fram til kosninga. Í pistli sem hann birtir á Viljanum segir Björn Ingi að þrátt fyrir að nú standi yfir sérstakur hvíldartími stjórnmálamanna, sumar, þá sé sífellt að koma upp nýtt og nýtt hneyksli sem skekur stjórnina. Hann segir að svo virðist sem almenningur, óháð flokkadráttum, hafi misst trúna á þríeykinu: Katrínu Jakobsdóttur, Sigurði Inga Jóhannssyni og Bjarna Benediktssyni.

Björn Ingi segir að ríkisstjórnin minni nú á aðra, sem var ekki langlíf. „Hver könnunin á fætur annarri leiðir nú í ljós að íslenska þjóðin er að snúa baki við ríkisstjórninni sem nú situr. Síðast í morgun birti Ríkisútvarpið niðurstöður Þjóðarpúls Gallup sem leiðir í ljós að stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur aldrei verið minni. Og það sem meira er: Þetta er minnsti stuðningur sem mælst hefur við sitjandi ríkisstjórn síðan í júlí 2017. Sú stjórn sprakk einum og hálfum mánuði síðar, eins og frægt var,“ segir Björn Ingi.

„Þróunin er öll á einn veg og staðan er að breytast hratt milli mánaða. Ástæðuna er ekki aðeins að finna í fjölmörgum umdeildum málum á borð við söluferlið á Íslandsbanka eða bann við hvalveiðum með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Fyrst og fremst er eins og fólk sé að missa trúna á að Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson séu rétta fólkið til að stýra landinu og koma með alvöru lausnir við risastórum aðkallandi vandamálum. Það er eins og ríkisstjórn þessara þriggja flokka þvert yfir hinn pólitíska ás sé ekki lengur með neitt plan, annað en að sitja út kjörtímabilið.“

Björn Ingi segir einnig að allt bendi til að fylgið sé á fleygiferð. „Þjóðarpúlsinn í morgun sýnir að Samfylkingin er áfram langstærsti flokkurinn, ef kosið væri nú, fengi 28,4% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 20,8% fylgi, Framsókn er í frjálsu falli með tæplega 9 prósenta fylgi og Vinstri græn, flokkur sjálfs forsætisráðherrans er um sex prósent í fylgi, eða á svipuðum slóðum og Flokkur fólksins,“ segir Björn Ingi.

Að lokum segir hann að það stefni í að stjórnmálamenn geti ekki nýtt sitt langa sumarfrí þetta árið. „Undir venjulegum kringumstæðum værum við að sigla inn í dauðasta tímann í fréttum og pólitík á Íslandi. En fólkið í ríkisstjórnarflokkunum er orðið meðvitað um að lognið í júlí er svikalogn og að framundan eru gríðarleg pólitísk átök og uppgjör. Framhald ríkisstjórnarinnar hangir einfaldlega á bláþræði. Stemningin er farin og majónesan orðin gul. Hvað ætla Katrín, Bjarni Ben og Sigurður Ingi að gera í því?“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí