Hernaðarútgjöld Evrópuríkja Nató hafa aukist um 16 þúsund milljarða

Í ár nema hernaðarútgjöld Evrópuríkja í ár um 57 þúsund milljörðum króna. Það er um 45 föld útgjöld íslenska ríkisins í ár. Og útgjöld til hermála hafa aukist jafnt og þétt frá 2014, árinu sem rússneski herinn innlimaði Krím inn í Rússland. Á þeim níu árum sem liðin eru síðan hafa Evrópuþjóðir Nató aukið útgjöld sín til hermála um 16 þúsund milljörðum króna, eða um 39% á föstu verðlagi.

Heilt yfir hafa framlög til hernaðar aukist úr 2,58% af landsframleiðslu í 2,64%. Þar sem Bandaríkin hafa hætt eða dregið úr stríðum sínum í Afganistan, Sýrlandi, Írak, Líbíu og víðar munar um samdrátt í framlögum Bandaríkjastjórnar til hernaðar, úr 3,72% af landsframleiðslu 2014 í 3,49% í ár. Án Bandaríkjanna hafa framlög til hernaðar aukist í hinum Nató-löndunum úr 1,43% í 1,74%.
Til að gefa hugmynd um hvað þessar tölur merkja má yfirfæra þetta yfir á íslenskan raunveruleika. Aukning hernaðarútgjalda annarra Nató-ríkja en Bandaríkjanna jafngildir því að útgjöldin hafi farið úr 61 milljarði króna 2014 í 74 milljarða króna í ár, miðað við verðlag dagsins.

Samkvæmt skýrslu Nató má ætla að heildarútgjöld Nató-ríkjanna til hermála í ár verði um 189 þúsund milljarðar króna í ár. Þetta jafngildir um 149 földum útgjöldum íslenska ríkisins. Áætlað er að hernaðarútgjöld í heiminum í ár verði um 300 þúsund milljarðar króna. Nató á um 63% af þeirri eyðslu.

Krafa Nató um að aðildarlöndin auki útgjöld til hermála upp í 2% af landsframleiðslu hefur skilað sér í miklu meiri útgjöldum til hermála. Árið 2014 voru það bara Bandaríkin, Bretland og Grikkland sem uppfylltu þessa kröfu. Í dag hafa bæst við Eistland, Lettland og Litháen, Ungverjaland, Rúmenía, Slóvakía og Finnland. Og þau lönd sem ekki uppfylla þessi skilyrði hafa gengist undir að auka útgjöld sín um 20% á föstu verðlagi að lágmarki frá því sem var árið 2014.

Samanlagt hafa þessa kröfur aukið hernaðarútgjöldin í Evrópu um 16 þúsund milljarða króna á aðeins níu árum:

En hvað fellst í þessari kröfu um 2% af landsframleiðslu til hernaðar?

Ef við tökum Belgíu sem dæmi um hið venjulegasta land Vestur-Evrópu þá voru hernaðarútgjöld Belga 0,97% árið 2014. Til að koma útgjöldum upp í 2% þarf belgíska stjórnin að auka hlut hernaðarútgjalda um 2,1% af útgjöldum hins opinbera, úr 1,9% í 4,0% af opinberum útgjöldum. En opinber útgjöld eru 49,7% af landsframleiðslu Belga.
Ef við tökum Litháen sem dæmi um fyrrum austantjaldsland þá voru hernaðarútgjöldin þar 0,88% af landsframleiðslu 2014. Og þar sem opinber útgjöld eru aðeins 35,6% af landsframleiðslu í Eistalndi, en nýfrjálshyggja hefur geisað þar sem víðar í austrinu nánast óbeisluð, þá þurftu Litháar að auka hernaðarútgjöldin um sem nemur 3,1% af útgjöldum hins opinbera til að standast 2% kröfuna. Og Litháísk stjórnvöld gerðu gott betur, í ár er reiknað með að hernaðarútgjöld verði þar um 2,54% af landsframleiðslu. Til að komast þangað úr 0,88% þurfti að auka útgjöldin um sem nemur 4,7% af útgjöldum hins opinbera. Það eru nánast hamfarir.

Af þessum tveimur dæmum sést hversu alvarleg áhrif hernaðaruppbygging Evrópu mun hafa á samfélögin þar. Skattar hafa að litlu leyti verið lagðir á til að mæta auknum útgjöldum. Og ef skattar hafa verið hækkaðir þá hefur það verið gert til að draga úr áhrifum orkukreppunnar í kjölfar viðskiptastríðs við Rússa eða til að vinna upp hallann á ríkissjóðunum vegna cóvid. Aukin hernaðarútgjöld hafa því verið og verða í framtíðinni fjármögnuð með niðurskurði annarra útgjalda, einkum til velferðarmála. Nú, eða sölu ríkiseigna og innviða úr almannaeigu til einkafyrirtækja.

Aukin hernaðarútgjöld eru því að breyta samfélagsvefnaðinum í Evrópu. Þegar flestum var orðið ljóst að verkefni álfunnar væri að vinna upp niðurbrot nýfrjálshyggjunnar á innviðum og grunnkerfum er komin krafa um að eyða opinberu fé í allt annað, nokkuð sem gagnast samfélögunum í raun ekkert. Hernaðarútgjöld eru fórnarkostnaður sem sumir eru til að greiða fyrir aukið öryggi.

Hér má sjá lista yfir hernaðarútgjöld Natóríkjanna sem hlutfall af landsframleiðslu. Til skýringar er dálkur sem sýnir hvað þessi eyðsla merkir í íslenskum veruleika, hversu mikil eyðslan er út frá íslenskri landsframleiðslu:

LandHernaðarútgjöld
sem hlutfall af
landsframleiðslu
Upphæð miðað við
landsframleiðslu
á Íslandi
Pólland3,90%166,1 milljarðar króna
Bandaríkin3,49%148,6 milljarðar króna
Grikkland3,01%128,2 milljarðar króna
Eistland2,73%116,2 milljarðar króna
Litháen2,54%108,2 milljarðar króna
Finnland2,45%104,3 milljarðar króna
Rúmenía2,44%103,9 milljarðar króna
Ungverjaland2,43%103,5 milljarðar króna
Lettland2,27%96,7 milljarðar króna
Bretland2,07%88,1 milljarðar króna
Slóvakía2,03%86,4 milljarðar króna
Frakkland1,90%80,9 milljarðar króna
Svartfjallaland1,87%79,6 milljarðar króna
Norður Makedónía1,87%79,6 milljarðar króna
Búlgaría1,84%78,3 milljarðar króna
Króatía1,79%76,2 milljarðar króna
Albanía1,76%74,9 milljarðar króna
Holland1,70%72,4 milljarðar króna
Noregur1,67%71,1 milljarðar króna
Danmörk1,65%70,3 milljarðar króna
Þýskaland1,57%66,9 milljarðar króna
Tékkland1,50%63,9 milljarðar króna
Portúgal1,48%63,0 milljarðar króna
Ítalía1,46%62,2 milljarðar króna
Kanada1,38%58,8 milljarðar króna
Slóvenía1,35%57,5 milljarðar króna
Tyrkland1,31%55,8 milljarðar króna
Spánn1,26%53,7 milljarðar króna
Belgía1,13%48,1 milljarðar króna
Lúxemborg0,72%30,7 milljarðar króna
Ísland0,10%4,3 milljarðar króna

Þetta er grátleg tafla. Þau lönd sem ættu helst að vera að byggja upp innviði og grunnkerfi samfélagsins eru að eyða fénu í hernaðaruppbyggingu.

En það er auðvitað athyglisverðast er Ísland, þarna neðst. Og það eru fleiri en við sem rekum augun í hversu lítið Ísland leggur til. Rökin fyrir því hingað til hafa verið sú að hér sé ekki her og því hefur ekki verið gengið formlega eftir því að Ísland fari með hernaðarútgjöldin upp í 2% af landsframleiðslu. En Íslandi ber, samkvæmt Nató, að auka útgjöldin um 20% á föstu verðlagi og eftir því hefur verið gengið þótt íslenskt ráðafólk hafi ekki kynnt það fyrir þjóðinni. Það hefur gefið til kynna að útgjöld til hermála muni aukast og þau hafa aukist. En það gerist án nokkurrar umræðu, hvorki á þingi né út í samfélaginu.

En það er bara tímaspursmál hvenær hin fátækari lönd sem hafa aukið hernaðarútgjöld sín að kröfu Nató benda á Ísland og spyrja hvers vegna þetta ríka land sleppur svona vel. Ef Ísland myndi auka útgjöldin upp í 2% væri það aukning upp á um 81 milljarð króna. Í Svartfjallalandi búa 602 þúsund manns og þar er varið 1,87% af landsframleiðslu til hermála. Þar er landsframleiðslan 2/3 af því sem er á Íslandi og landsframleiðsla á mann því aðeins 40% af því sem er á Íslandi. Svartfjallaland hefur aukið hernaðarútgjöld sín um sem nemur 0,37% af landsframleiðslu frá 2014, sem er næstum fjórfalt það sem Íslendingar verja í allt til hernaðar.

Upplifun hinna fátækari þjóða Nató hlýtur að verða sú að þegar komið er með reikninginn fyrir veislunni þá feli Ísland sig. Þess vegna er píla á myndinni, til að sýna hvar Katrín Jakobsdóttir er.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí