Þorgrímur Sigmundsson, sem er varaþingmaður fyrir Miðflokkinn, fékk póst 10. júlí síðasta þess efnis að sonur hans væri kominn á lista yfir einstaklinga í áhættuhóp vegna stjórnmálalegra tengsla.
Í póstinum segir að Keldan ehf. vinni og reki gagnagrunn um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla í samræmi við ákvæði laga nr. 140/2018 um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Svokölluð „peningaþvættislög” sem voru sett á árið 2018.
Gagnagrunnurinn inniheldur lista yfir þá einstaklinga sem hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu ásamt nánustu fjölskyldu þeirra og nánum samstarfsmönnum. Upplýsingar af listanum eru aðeins aðgengilegar tilkynningarskyldum aðilum skv. peningaþvættislögum, t. d. fjármálafyrirtækjum, endurskoðendum, lögmönnum, fasteignasölum eða öðrum lögaðilum sem er skylt að afla slíkra upplýsinga. Þetta stendur í póstinum frá Keldunni til Þorgríms.
Athygli vekur að Keldan ehf, þjónustufyrirtæki í upplýsingamiðlun, virðist vilja safna svo til öllum upplýsingum um aðra en erfitt reynist að komast að því hverjir eigendur Keldunnar eru og að finna upplýsingar um stjórnarmenn þess.
Ögmundur Jónasson skrifar um þetta á síðu sinni: „Lögin sem þarna er vitnað til eru frá 2018. Lög af svipuðum meiði hafa áður verið sett og hef ég alltaf haft eftirsjá eftir því andvaraleysi sem löggjafinn (þar á meðal ég sjálfur) sýndi þegar byrjað var að stíga þessi skref í áttina að eftirlitssamfélaginu. Alltaf var þetta gert undir því yfirskini að verið væri að berjast gegn hryðjuverkum. En það var yfirskin. Tilgangurinn var, að því er ég hygg, að gera hægara um vik að kæfa umræðu sem talin er ógna valdakerfum heimsins.”