Umboðsmaður alþingis segir í nýútkominni þemaskýrslu um aðbúnað og aðstæður kvenna í fangelsum hér á landi að fyrirkomulag við afplánun þeirra sé á allan máta lakari en afplánun karla enda aldrei verið sett hér heildræn stefna um vistun kvenfanga. Hann segir vistunarúrræði kvenfanga ósamræmanleg almennum jafnræðisreglum.
Kvenfangar búa oftast við mikinn vímuefnavanda og lakari félagslega stöðu en fá þó mun lélegri stuðningsþjónustu innan refsivörslukerfisins en karlfangar. Ekki er tekið nægilegt tillit til sérstöðu þeirra við áhættumat eða mat á þjónustuþörf, vistunarumgjörð eða meðferðarúrræðum og þær hafa minni möguleika á að afplána í opnu fangelsi.
Eina opna fangelsið sem stendur kvenföngum til boða er að Sogni þar sem hverjir þrír kvenfangar eru á við átján karlfanga og því algengara að konur velji að sitja af sér í lokuðu fangelsi að Hólmsheiði þar sem öryggisstigið er hátt. Á Hólmsheiði er skortur á virkniúrræðum fyrir konur og þjónustu innan þess auk þess sem helstu atvinnutækifæri kvennanna þar eru hefðbundin kvennastörf eins og þrif eða handverk. Þá bendir umboðsmaður mennta- og barnamálaráðherra að taka menntamál þeirra til skoðunar og heilbrigðisþjónustu þarf að bæta svo sem krabbameinsskoðanir.
Af þessu má vera ljóst að kvennabarátta á enn fullan rétt á sér og kannski sérstaklega í jaðri samfélagsins.