„Mig langar að spyrja Þorstein hvers vegna launin hans hækkuðu síðast“

Á dögunum fór Þorsteinn Víglundsson, Viðreisnarmaður og stjórnarmaður í Samtökum iðnaðarins, mikinn og kenndi verkalýðshreyfingunni um verðbólguna í viðtali við RÚV. Staðreyndin er hins vegar að verðbólgan er að mestu drifin áfram af húsnæðisvandanum, líkt og Ólafur Margreirsson hagfræðingur hefur ítrekað bent á, og ofsagróða fyrirtækja. Það má segja að Þorsteinn sé óvenjusnemma byrjaður að reka áróður gegn því að vinnandi fólk fái launaleiðréttingu í næstu kjarasamningum eftir hálft ár.

Marínó G. Njálsson, fyrrverandi formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, fer yfir fullyrðingar Þorsteins lið fyrir lið í pistli sem hann birtir á Facebook. Marinó segir meðal annars að hækkun verðlags í kjölfar kjarasamninga sé 100 prósent á ábyrgð þess fyrirtækis sem ákveður að hækka það. 

Hér fyrir neðan má lesa pistil Marínós í heild sinni.

Aftur er síbyljan byrjuð. Verðbólga er kjarasamningum að kenna, en ekki verðhækkunum fyrirtækja sem græða á tá og fingri.

Höfum það alveg á hreinu, að launafólk er með kröfum fyrir kjarasamningsgerð að krefjast leiðréttingar launa til fá hækkun framfærslukostnaðar og kaupmáttarskerðingu bætt. Að launagreiðendur eða talsmenn þeirra átti sig ekki á þessu er eiginlega hræðilegt. (Auðvitað vita þeir það, en það hentar ekki áróðri þeirra.)

Mig langar að spyrja Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, og Þorstein Víglundsson, stjórnarmann í Samtökum iðnaðarins, hvers vegna launin þeirra hækkuðu síðast. Var eitthvað sem bráðkallaði á þessa launahækkun? Beðið er um heiðarleg svör. Einnig væri áhugavert að heyra frá þeim hvers vegna launin þeirra ættu að hækka næst þegar þau eiga að hækka. Án þess að vita svarið, þá er ég nokkuð viss um að það tengist að einhverju leyti hækkun vísitölu neysluverðs eða var það vegna þess að allir aðrir hækkuðu í takt við vísitölu neysluverðs. Eitt er alveg öruggt, að ástæðan er ekki að starfið þeirra varð allt í einu erfiðara og þetta væri því bætur fyrir aukið álag á þá andlega eða líkamlega eða að það væri svo mikil eftirspurn eftir mönnum með þeirra hæfileika, að vinnuveitendur þeirra væru að yfirborga þá til að halda þeim í starfinu.

Hækkun verðlags í kjölfar kjarasamninga er 100% á ábyrgð þess fyrirtækis sem ákveður að hækka það. Öll fyrirtæki hafa val. Árið 2021 völdu fyrirtæki í svo kölluðu viðskiptahagkerfi að hagnast gríðarlega í staðinn fyrir að lækka verð vöru og þjónustu og stuðla að stöðugleika í hagkerfinu. Þetta skilaði sér m.a. í aukinni verðbólgu sem leiddi til skerðingar kaupmáttar og að verkalýðsfélögin ákváðu að sækja leiðréttingu til sinna félagsmanna í síðustu kjarasamningum. Eins og alltaf, höfðu fyrirtækin tekið inn hækkanir sínar í marga mánuði, áður en launþegar fengu sína leiðréttingu. Fyrirtækin höfðu líka greitt stóran hluta hagnaðarins út sem arð og því minnkað getu sína til að hækka laun án þess að fylgja eftir með hækkun verðlags. Þó máttu allir vita að til kauphækkana kæmi. En til hvers að safna korni í hlöðuna, þegar menn geta bara hækkað verðið hjá sér eins og þeim sýnist? Á Íslandi er nefnilega fákeppni og við slíkar aðstæður stilla fyrirtæki sér upp í goggunarröð. Bónus er með lægsta matvöruverðið, Krónan er einni krónu dýrari, þá kemur Nettó og svo Hagkaup, Krambúðin og Iceland. Hjá olíufélögunum er það Costco, Orkan, Atlantsolía, ÓB/Olís og N1 rekur lestina. Allt vel skipulagt með þegjandi samkomulagi. Ef einhverjum dettur í hug að lækka sitt verð, þá gera allir eins.

Svo við setjum þetta í tölulegt samhengi, þá hækkaði hagnaður fyrirtæka í viðskiptahagkerfinu um 572 ma.kr. árið 2021, sem var um 55% af heildarlaunakostnaði þeirra það ár og hagnaðurinn var alls 674 ma.kr. Árið 2021 hækkað launakostnaður um ca. 93 ma.kr. Eigum við að trúa því, að 93 ma.kr. hækkun launakostnaðar hafi neytt fyrirtækin til að hækka vöruverð, en 674 ma.kr. hagnaður hafi ekki gert það? Hvað ætli það hafi verið mörg fyrirtæki, sem hefðu getað haldið verði vöru og þjónustu óbreyttu allt síðast liðið ár, en samt hagnast ágætlega? Nei, kjarasamningar árið 2022 og fram á þetta ár, voru ekki frumorsök hækkunar fyrirtækja á verði vöru og þjónustu, sem síðan viðhélt verðbólgunni, heldur var það alfarið ákvörðun eigenda og stjórnenda fyrirtækjanna, að hækka vöruverðið. Þeir nefnilega gátu það og gerðu það.

Til að styðja þetta enn frekari tölulegum rökum, þá var velta fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu 5.070 ma.kr. árið 2021. Hlutfall launakostnaðar var 19,9% en var að meðaltali 20,1% frá 2012-2021 og hlutfall hagnaðar var 13,3% en var að meðaltali 7,7% þessi sömu ár. Sem sagt launakostnaðurinn var rétt undir meðaltali, en hagnaðurinn var 72% yfir meðaltali. Að sjálfsögðu var verðbólgan launafólkinu að kenna, þó það tæki til sín hlutfallslega minna af heildartekjum fyrirtækjanna en áður.

Segjum nú að launakostnaður hafi hækkað um 150 ma.kr. árið 2022 og velta fyrirtækjanna hafi hækkað í samræmi við hækkun verðbólgu eða um 9,9%. Þar með hefði veltan hækkað um 502 ma.kr. Hækkun launakostnaðar er rétt undir 30% af hækkun veltunnar, þannig að 70% af hækkun veltunnar er af öðrum ástæðum en vegna launakostnaðar. Það þýðir þá líka, að hækkun launakostnaðar (sem er líklega um 2/3 hluta vegna kjarasamninga, annað er vegna starfsmanna sem ekki taka laun samkvæmt kjarasamningum) leggur til 30% af hækkun á verði vöru og þjónustu umræddra fyrirtækja og aðrir þættir leggja til hin 70%. Þættir sem koma kjarasamningum ekkert við.

Þó hækkun launa hafi verið mikil í síðustu kjarasamningum, þá skýrir sú hækkun ekki nema lítinn hluta hækkunar verðs vöru og þjónustu. Í dæminu sem ég tók um 150 ma.kr. hækkun launakostnaðar, þar sem kjarasamningar bera ábyrgð á 100 ma.kr., þá hefðu fyrirtækin ekki þurft að hækka vöruverð hjá sér nema um 2% til að eiga fyrir kostnaði við kjarasamninga. Verðið hækkaði hins vegar um hátt í 10% (samkvæmt mælingum Hagstofu). Þ.e. af hverjum 100 kr. sem verð vöru og þjónustu hækkaði, þá runnu ekki nema 20 kr. í hækkun launakostnaðar vegna kjarasamninganna, en 80 kr. fóru í eitthvað annað, kjarasamningunum óviðkomandi.

Niðurstaðan er, að hefði ekkert annað hækkað í útgjöldum fyrirtækjanna en launin, þá hefðu þau komist af með 2% hækkun á verði vöru og þjónustu. Verðbólgan hefði ekki verið 2% í staðinn fyrir um 10%, því ýmislegt annað hækkaði rösklega í þjóðfélaginu, en þar sem tilhneigingin er að láta allt fylgja hækkun vísitölu neysluverðs, þá er aldrei að vita nema verðbólgan hefði verið undir 4% í staðinn fyrir hátt í 10%. Verðbólga umfram þessi 4% er því alfarið þeim að kenna, sem ekki kunnu sér hóf í hækkunum, eða urðu að hækka vegna þátta óviðkomandi kjarasamningum

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí