Mun Úkraníustríðið breyta heimskipaninni?

Það má sjá skarpa flokkadrætti milli ríkja heims varðandi stríðið í Úkraínu. Á meðan ríki Norður-Ameríku, flest Evrópuríki, Ástralía, Nýja Sjáland, Japan og Suður-Kórea hafa beitt Rússa viðskiptaþvingunum hefur Vesturlöndum ekki tekist að fá önnur lönd í lið með sér. Tillögur að friðarumræðum koma frá löndum utan þessa svæðis, fyrst frá Ísrael og Tyrklandi, síðan frá Brasilíu, þá Kína og nú síðast frá ríkjum Afríku. Markmið Vesturlanda um að einangra Rússland hefur ekki tekist. Þvert á móti má halda því fram að stríðið hafi dregið úr völdum og áhrifum Vesturlanda og þar með Bandaríkjanna, sem eru afgerandi forysturíki Vesturlanda og fylgiríkja þeirra.

Það má draga upp þessa stöðu í nokkrum kortum:

Hér sjást löndin sem Rússar hafa sett á svartan lista vegna viðskiptaþvingana. Þetta eru löndin sem talin voru upp áður, lönd sem kalla má Vesturlönd þótt sum þeirra séu í Eyjaálfu og Asíu. Þegar efnahagslegir yfirburðir þessara landa voru hvað mestir var oft talað um Vestrið og Restina, the west and the rest. Eins og þið sjáið á kortinu er Vestrið hins vegar lítill hluti af heiminum. Restin er nánast allur heimurinn. Vestrið er um 1/8 af mannfjöldanum en Restin er um 7/8 mannkyns. Það sjá allir hversu hrokafullt það er að tala um svo til allan heiminn sem Rest af einhverju.

Það sem hefur gerst í Úkraínustríðinu er að Restin er að styrkjast og skipuleggja sig. Og Vestrið að veikjast. Um þetta eru mörg teikn, ekki bara hversu illa Vestrinu hefur gengið að að fá lönd utan síns innsta hrings til að styðja viðskiptahindranir gen Rússum. Kína tókst t.d. fyrir skömmu að koma á friðarsamkomulagi milli Sádí Arabíu og Íran, sem enginn hefði spáð að væri mögulegt væri fyrir ári síðan eða svo. Sádí Arabía hefur verið sérstakur bandamaður Bandaríkjanna í Mið Austurlöndum en Íran óskaóvinur. Og Kína er framtíðarandstæðingur Bandaríkjanna. Án vitundar eða samþykkis Bandaríkjanna er hafin þróun í Mið-Austurlöndum sem er þvert á vilja bandarískra stjórnvalda. Og undir leiðsögn og vernd Kína, sem Bandaríkjastjórn ætlar að gera að höfuðandstæðingi sínum næstu áratugina.

Annað teikn er vaxandi vægi BRICS-landanna, klúbbs fjölmennustu ríkjanna utan Vestursins: Brasilíu, Rússlands, Indlands, Kína og Suður-Afríku. Það er ekki bara að þessi klúbbur hafi hlotið meira vægi vegna afstöðu Vestursins til Rússlands og Kína heldur hafa fjölmörg lönd sótt um aðild að þessum klúbbi, horfa til hans sem mikilvægs grunns undir nýja heimsskipan þar sem Vestrið fær ekki að drottna yfir öllu.

Hér má sjá stöðuna á BRICS:

Þetta er eins og mynd af Restinni að byggja upp sína eigin heimsskipan. Þarna má sjá ríki sem vanalega mætti flokka með fylgihnöttum Vestursins, en sem hafa sýnt áhuga á að tengjast BRICS-löndunum, ríki eins Mexíkó og Tyrkland.

Það er ómögulegt að segja hvert BRICS getur þróast. Innan samtakanna og meðal þeirra ríkja sem sótt hafa um eða sýnt umsókn áhuga er mikill vilji til að losna undan heimshagkerfi þar sem Bandaríkjadollar er alfa og ómega alls. Þetta er kerfi sem tryggir Bandaríkjunum yfirburðastöðu yfir öllum öðrum ríkjum. Á meðan önnur lönd lenda í vanda og greiðsluþroti ef þau eyða um efni fram þá geta Bandaríkin rekið ríkið með gríðarlegum halla árum og áratugum saman með því einfaldlega að prenta peninga. Þannig fjármagna Bandaríkin t.d. herveldi sitt. Í raun er nánast engin takmörkun fyrir því hvað Bandaríkin geta fjármagnað. Þau gætu byggt upp gott velferðarkerfi sem færði íbúunum öryggi og góð kjör. En Bandaríkjastjórn hefur ekki áhuga á því heldur notar þessa yfirburðargetu til að fjármagna stríð í fjarlægum deildum jarðar og tryggja yfirráð og völd sín sem víðast, yfirráð og völd sem notuð eru til að verja og vernda bandaríska auðhringi.

Um miðja síðustu öld byggðu yfirburðir Bandaríkjanna á mikill framleiðni og öflugum iðnaði. Í dag byggja yfirburðir Bandaríkjanna fyrst og fremst á stöðu dollarans í heimsviðskiptunum.

Það er því enn eitt teiknið um veikingu Vestursins þegar Argentína greiddi afborganir lána sinna hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum í vikunni með kínverskum júan, ekki dollar. BRICS-löndin og þau lönd sem fylgja þeim vilja sjá þetta gerast oftar og víðar. Umræður um sameiginlegan gjaldmiðil Suður-Ameríku eru af sama meiði. Það er tilvistarleg nauðsyn fyrir löndin í Suðrinu og Austrinu að losna undan ægivaldi dollarsins og Vestursins.

OECD, Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, er ekki sambærilegt fyrirbrigði við BRICS. Það er samt ágætt dæmi um heimsskipan Vestursins þar sem alþjóðastofnanir voru smíðaðar kringum hagsmuni Vesturlanda og einkum Bandaríkjanna og sem önnur ríki gátu síðan sótt um að tilheyra. Ef þau gerðu allt eins og Vestrið bað um.

Notum OECD til að sýna heimskipan Vestursins:

Þarna sést sama mynd og af svarta lista Rússana nema með þeim breytingum að þarna eru Mexíkó og Tyrkland félagar, lönd sem hafa sýnt áhuga á BRICS. Þarna sést að Brasilía, eitt af BRICS-löndunum hefur sótt um í OECD og líka Argentína sem hefur líka sótt um í BRICS.

Nú má vera að þau lönd sem vilja inn í OECD fari þangað frekar en í BRICS eða verði jafnvel í báðum samtökunum. En fyrir stuttu síðar voru engin lönd þarna á mörkunum. Það sem hefur gerst er að fleiri lönd vija inn í BRICS, jafnvel lönd sem hafa verið í biðstofunni hjá OECD.

Auðvitað var fyrirséð að Restin myndi ná vopnum sínum og hafna yfirráðum Vestursins í heimshagkerfinu. Það sem gerðist var að Úkraínustríðið hefur aukið hraðann á þessari þróun. Það ýtir Restinni frá Vestrinu. Og því meiri áherslu sem Vestrið leggur á að sigra stríðið á vígvellinum með fullnaðarsigri yfir Rússum því þéttari bönd virðast vera að myndast millum ríkjanna í Restinni. Frammi fyrir vali um forystu, kjósa æ fleiri lönd Kína fremur en Bandaríkin.

Og þessi lönd leita leiða að því að losna undan helsi Bandaríkjadollars í heimshagkerfinu. Og þau plön geta haft miklu meiri afleiðingar fyrir Bandaríkin og Vestrið en viðskiptaþvinganir Vestursins hafa haft á efnahag Rússa.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí