Píratar á lágpunkti: „Fólkið sem gerði alla vinnuna er farið” 

„Siðferði er eins og steinn. Ef þú tekur hamar og brýtur brot af steininum, þá þarf eldgos til að fylla upp í holurnar.” 

Umfjöllun Samstöðvarinnar hefur skapað töluverða umræðu um stöðu grasrótar Pírata. Samstöðin tók viðtöl við einstaklinga sem eru eða hafa verið mjög virkir í gegnum árin í grasrót Pírata til að fá betri mynd á stöðuna. „Píratar eru ekki sami flokkur og hann var, fólkið ræður ekki heldur lítil flokkselíta. Þetta er orðið eins og Björt Framtíð var.” segir heimildarmaður Samstöðvarinnar.

Heimildarmaðurinn, sem ekki vill koma fram undir nafni, starfaði mjög náið með Pírötum og var áberandi á sínum tíma. Hann segir að Píratar séu ekki sami flokkur og þeir voru. „Fólkið sem gerði alla vinnuna er farið, ættingjar frambjóðenda eru oft duglegastir núna.” Heimildarmaðurinn segir að þetta sé akkúrat öfugt við það sem Píratar áttu að vera. Frændhygli, leyndarhyggja og ógagnsæi er sagt orðið of mikið. 

Aðilinn nefnir að áður fyrr hefðu Píratar brugðist betur við gagnrýni. Grein Samstöðvarinnar um dautt kosningakerfi Pírata vakti umræður og óánægju háttsettra Pírata og þó að fyrrverandi meðlimir grasrótarinnar kannist við vandann voru kjörnir fulltrúar ekki eins tilbúnir til þess. Björn Leví Gunnarsson segir á þræði á fésbókinni að Píratar séu með hvað bestu grasrót allra flokka á landinu. Dautt kosningakerfi og umræður á samfélagsmiðlum segja aðra sögu.

Grasrótarvirkni flestra flokka er hins vegar lítil

Atli Þór Fandal, formaður Transparency International á Íslandi sem hefur starfað fyrir Pírata sem pólitískur ráðgjafi, segir að almennt á Íslandi sé grasrót yfirleitt ekki valdamiðja íslenskra flokka. Hann segir að foringjaræði sé mikið og að það að mynda raunverulegan grasrótarflokk sem helst sem slíkur sé töluvert flókið verkefni. 

Píratar eru því ekki einir með þetta vandamál. En það vekur furðu ýmissa á samfélagsmiðlunum að flokkur sem kennir sig við beint lýðræði skuli ekki gera meira til að standa undir því.

Píratar segjast standa fyrir beinu lýðræði

Píratahugsjónin er hugsjón um þátttöku allra og gagnrýna hugsun. Um beint lýðræði, gagnsæi og að draga úr miðstýringu valds. Samkvæmt heimildarmönnum Samstöðvarinnar voru þessi atriði áberandi sterkur hluti af starfinu í byrjun flokksins. Opnir málefnafundir voru mjög reglulegir þar sem virkt samtal fór fram um ýmis málefni, með innkomu ólíkra sérfræðinga, og þeim málefnum síðan komið í kosningu. Þetta dró meðal annarra Þórólf Júlían Dagsson, ungan sjómann frá Suðurnesjunum, í starfið. Fyrsti fundurinn sem hann mætti á var um sjávarútvegsmál og upplifun hans af fundinum var gríðarlega góð. Þarna leið honum eins og hægt væri að koma góðum málefnum í verk.

Seinna átti Þórólfur eftir að eiga frumkvæðið að stofnun aðildafélags Pírata í Reykjanesbæ og taka sæti á lista flokksins. Hann var einnig mjög virkur í baráttunni gegn stóriðju í Helguvík. Sagan sem Þórólfur segir af flokksstarfi Pírata er saga um flokk sem hefur misst kjarnann sinn. 

Þórólfur Júlían Dagsson

Byrjaði vel

Stjórnmálastarf Pírata í byrjun fylgdi þessum kjarna. Samkvæmt Þórólfi og fleirum var þarna raunveruleg spenna í loftinu, hlutir voru á hreyfingu og aðferðafræði flokksins var framsækin og áhrifarík. Strúkturinn var flatur þannig að auðvelt var fyrir hvern sem er að koma á fót málefnafundi og ná málum í gegn. Þetta er sagt hafa verið raunverulegt verðleikasamfélag þar sem hver uppskar eins og hann lagði inn og að um raunverulegt lýðræði hafi verið að ræða. Þórólfur, sem er ekki einn með þessa skoðun, segir að í aðdraganda kosningabaráttunnar 2017 fóru hlutirnir verulega að súrna.

Ekki hægt að ræða málin augnlit til augnlits

Samkvæmt heimildarmönnum og af ummælum af fésbókinni að dæma fór að taka á sig menning innan Pírata þar sem persónulegt ósætti fór að krauma undir niðri. Fólk var meðvitað um ýmsa samskiptavanda en erfitt reyndist að taka á málunum beint. Þórólfur og aðrir segja frá því að elíta tengd þingflokknum fór að taka stöðugt sjálfstæðari ákvarðanir um fólk og málefni sem hefði ekki talist eðlilegt áður í þeim flata strúktúr sem Píratar áttu að byggja á. Þarna var farið gegn grunnstefnu og hugsjón Píratanna. Margir segja frá þeirri upplifun að vera „sett út í kuldann” af þessari elítu.

Á þessum tímapunkti reyndi grasrótin að grípa inn í. Til að fyrirbyggja togstreitu og átök á meðal frambjóðenda í prófkjöri og fylkinga innan Pírata var lagt til að smölun yrði bönnuð, að frambjóðendur færu ekki sjálfir í fjölmiðla og að enginn myndi verja sínum eigin peningum í að auglýsa sjálfa sig. Einnig var lagt til að þingmenn flokksins myndu skrifa undir drengskaparheit um það að þjóna grasrótinni og lýðræðisferlum flokksins. Helgi Hrafn, sem var um tíma þingmaður Pírata, er sagður hafa barist á móti þessari tillögu. Hann talaði á þeim tíma um mikilvægi þess að þingmenn eigi að fylgja eigin sannfæringu. Honum var líka mikið í mun að Píratar yrðu „stjórntækir”.

Reglurnar sem voru settar í kringum prófkjörið 2017 voru snögglega brotnar. Smári McCarthy fór í fjölmiðlaviðtöl og mætti ekki á málefnafundi. Þá fór mörgum að lítast illa á blikuna og yfirgáfu starfið. 

Töluvert virðist hafa verið um persónulegt ósætti og samkeppni á milli frambjóðenda sem fór aðallega fram á bak við tjöldin, frekar en á opinberum vettvangi og í opinni umræðu. Fólk batt vonir við það að trúnaðarráð gæti gripið þarna inn í og leyst úr málunum en svo varð ekki. Að sögn Þórólfs fékk trúnaðarráðið mikið af ábendingum en lítið sem ekkert gerðist. Fólk brann út og grasrótin minnkaði.

Þrengt að grasrótinni 

Þórólfur segir frá því að breytingar á lögum um samþykktir málefnafunda hafi dregið úr virkni og getu grasrótarinnar til þess að taka þátt í starfinu. Áheyrnarfulltrúar þingflokksins voru krafðir um að skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu og voru því bundin trúnaði um það sem fór fram á þingfundum. Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir, í samtali við Vísi, segir að Covid faraldurinn valdi lítilli virkni en Þórólfur talar meira í þá átt að Covid hafi verið naglinn í kistuna: „Það var ekki Covid sem skemmdi innra starf Pírata. Það sem skemmdi grasrótarstarf Pírata var að þingflokkurinn kúplaði sig frá grasrótinni og Reykjavíkurfélagið kaffærði aðildarfélögin út á landsbyggðinni.” sagði Þórólfur í samtali við fréttamann Samstöðvarinnar. 

Þórólfur segir að siðferði flokksins, hugsjón þess um raunverulegt umbótarafl leitt áfram af grasrótinni, sé brostið. Hann minnist þess að hafa heyrt einn meðlim grasrótarinnar segja á fundi um samskiptavanda; „Siðferði er eins og steinn. Ef þú tekur hamar og brýtur brot af steininum, þá þarf eldgos til að fylla upp í holurnar.” Þórólfur segir jafnframt: „Flokkur sem viðurkennir ekki vandamálið, mun aldrei takast á við það og nær því aldrei að vaxa.”

Svafar Helgason, áður virkur grasrótarmeðlimur Pírata, deildi á fésbókinni grein Samstöðvarinnar um dautt kosningakerfi Pírata og skrifaði með: „Þetta gerðist hægt og rólega. Fyrst voru það nokkrir þingmenn sem kúpluðu sig algerlega frá pírataspjallinu þar til að Björn Leví Gunnarsson varð eini kjörni fulltrúinn sem vildi eiga í neinum skoðanaskiptum um málefni Pírata á þeim vettvangi. Svo gerðist það einnig að þeir meðlimir sem duglegir voru að semja stefnur og koma þeim í kosningu hættu að njóta hljómgrunns innan flokksins og einungis „nýtt blóð“ náði árangri í prófkjörum að fyrrum kosnum fulltrúum frátöldum. Það fólk hafði aldrei tekið þátt í hópum sem unnu að málefnastarfi og fann sig ekki knúið til þess eftir kjör. Nú er komin ró og kyrrð í flokkinn og tröllin öll horfin á brott og kjörnir fulltrúar stýra gangi mála án nokkurrar aðkomu annarra félagsmanna. Öll rifrildi horfin. Hver þarf grasrót í öllum þessum friði?”

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí