Paul Keating, fyrrum forsætisráðherra Ástralíu og leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur barist gegn hernaðaruppbyggingu Ástrala í takt við stefnu bandaríkjastjórnar um að Kína sé framtíðaróvinur Bandaríkjanna. Honum ofbauð því ráðagerðir Nató um að setja upp skrifstofur í Japan og gera sérstakan samning um samþættingu japanska hersins við herafla Nató. Af þessu tilefni sagði Keating Jens Stoltenberg vera mesta fíflið af mörgum á sviði alþjóðastjórnmála. Og bætti við að vegna stefnu sinnar og upplags væri Stoltenberg eins og stórslys sem væri við það að bresta á.
Það er ágreiningur innan Nató um hvort vit sé í því að færa áhrifasvæði þess til Japan. Emmanuel Macron forseti Frakklands hefur t.d. talað gegn þessum hugmyndum og hrósaði Keating honum fyrir. En Macron hefur orðið undir einörðum vilja Bandaríkjastjórnar til að nota Nató í hernaðaruppbyggingu í Suðaustur-Asíu. Það metur Keating sem ógn við öryggi allra í þeim heimshluta og allt suður til Ástralíu, en efnahagslíf landsins er mjög háð Kína, umfram það sem á við um Evrópu eða Bandaríkin.
Keating bendir á að hernaðaruppbygging Nató í Evrópu hafi endað með stríði. Við eigum ekki að gera sömu mistökin gagnvart Kína, sagði hann. Keating hafnar þeim hugmyndum sem Stoltenberg hefur haldið fram, að Kína eigi að vera undir einskonar eftirliti Vesturlanda og halda sig innan þeirra marka sem þau setja. Stoltenberg lítur fram hjá þeim staðreyndum að í Kína býr 1/5 hluti mannkyns, þar er stærsta hagkerfi heims og að Kína á sér enga sögu um að ráðast inn í önnur ríki, sagði Keating. Og bætti við: Ólíkt Bandaríkjunum, sem Stoltenberg er svo ánægður með.
Eftir leiðtogafund Nató-ríkjanna var annar fundur þar sem runnu saman Nató, G7-ríkin og aðrir bandamenn Bandaríkjanna. Þar var meðal annars gengið frá samningi milli Nató og Japan. Að því tilefni sagði Stoltenberg ekkert ríki standa Nató nær en Japan, og mátti jafnvel skilja að Japan væri nær inngöngu í bandalagið en Úkraína. Öryggi er ekki svæðisbundið heldur alþjóðlegt, sagði Stoltenberg og gaf því rækilega undir fótinn að Nató væri á leið austur.
Samningurinn er um samþættingu herafla Japan við heri Nató, samskipi á tækni, aðfangakeðjum, þróun hernaðar í geimnum og margt fleira.
Anthony Albanese, núverandi forsætisráðherra Ástrala, var líka í Vilníus og þurfti að svara fyrir ummæli forvera síns og flokksbróðurs. Albanese sagðist bera fullt traust til Stoltenbergs, hafa hitt hann nokkrum sinnum og bað fólk að hafa í huga að í Evrópu væri stríð sem snerist um alþjóðalög, um að stór ríki gætu ekki ráðist inn í önnur minni þegar þeim þyki henta.