Sigurgeir Orri Sigurgeirsson rithöfundur tók heldur djúpt í árinna innan Facebook-hóps íbúa Vesturbæjar í gær og fyrir vikið var hann hafður að háði og spotti. Sigurgeir skrifaði mikinn reiðipistil um að hækkanir bílastæðagjalda væru árás á sig og brot á stjórnarskránni. Þess má geta að þeir sem eru með lögheimili á slíkum svæðum eru með sérstakt íbúakort, en Sigurgeir viðurkenndi sjálfur að hann sé með lögheimili annars staðar.
Sigurgeir skrifar: „Við sem keyptum fasteignir í miðbænum á undanförnum árum gerðum það á þeim forsendum að það væru bílastæði við þær. Þessar hækkanir og breytingar eru árás á eignarréttinn. Húsin eru ekki aðskilin stæðunum. Stæðin eru fyrir íbúana í götunum. Eignarrétturinn er heilagur. Það er verið að taka burt gæði án þess að neitt komi í staðinn. Íbúakortin eru háð svo ströngum skilyrðum að þau eru gagnslaus fyrir okkur sem eigum eign en erum ekki með lögheimili í henni. Það er eitt,“ skrifar Sigurgeir og heldur áfram:
„Annað atriði er að íbúum er mismunað eftir búsetu. Stjórnarskráin bannar að þegnum sé mismunað. Eitt atriði í viðbót er að það skapast hefðarréttur. Þetta er tengt eignarréttinum. Við kaupum eignir á forsendum sem eru teknar af okkur. Það gengur ekki upp. Nú er ég ekki löglærður, en þessi atriði blasa við. Dómstólar eiga að skera úr um þetta. Það hljóta að vera takmörk fyrir hve íþyngjandi gjöld sveitarfélögum er heimilt að leggja á íbúa ákveðinna hverfa. Það er spurning um hópmálsókn gegn borgarstjórn. Það eru án efa löglærðir menn sem verða fyrir barðinu á þessum ósanngjörnu breytingum. Ég vona að þeir láti í sér heyra.“
Það er óhætt að segja að þessi reiðipistill hafi ekki fallið í kramið hjá íbúum Vesturbæjar. Athugasemdir eru nær allar af sama tagi. „Bílastæði eru forréttindi ekki mannréttindi,“ skrifar einn maður. Annar segir að Sigurgeir sé snjókorn. „Göngugötur eru ÁRÁS á einkabílinn, hjólastígar eru ÁRÁS, strætó er ÁRÁS, þrengingar eru ÁRÁS, vegatollar eru ÁRÁS, mengunarkvarðar og loftgæði eru ÁRÁS, hraðahindranir eru ÁRÁS, hámarkshraði við skóla er ÁRÁS, hopphjól eru ÁRÁS… Miðað við hvað bókstaflega allt ógnar einkabílnum hljómar hann eins og kjökrandi snjókorn sem þarf að deyja út,“ skrifar sá.
Egill Helgason fjölmiðlamaður tekur meira að segja þátt. „Ég hef búið á þessu svæði allt mitt líf, rétturinn hlýtur að vera minn, svo ég skal fronta þessa málsókn fyrir þig….. eða…. hóst….nei!!!! ,“ skrifar Egill.
Enn fleiri íbúar taka svo þátt. Ein kona skrifar: „Þetta er erfitt líf fyrir þig.“ Önnur skrifar: „Síðan hvenær er eignarréttur heilagur – hvar kemur heilagur andi inn í málið?“