Nú þegar varaþingmennirnir Brynjar Níelsson og Arnar Þór Jónsson ræða um hættuna á klofningi Sjálfstæðisflokksins er vert að rifja upp klofningssögu flokksins á vakt Bjarna Benediktssonar sem formanns. Flokkurinn hefur í raun verið að klofna allt frá Hruni, alveg frá því að Bjarni tók við.
Sjálfstæðisflokkurinn var með 20,8% fylgi í Gallupkönnun júnímánaðar og 19,3% í könnun Maskínu í júlí. Prósent mældi flokkinn með 16,1% yfir saman tíma en kannanir Prósent hafa verið lakari en hinna. Prósent mældi t.d. samanlagt fylgi stjórnarflokkanna 43,0% fyrir síðustu kosningar þar sem flokkarnir fengu 54,3%. Þetta er ævintýralega skekkja. Til samanburðar þá mældi Maskína fylgi stjórnarflokkana 47,3%, MMR, sem seinna sameinaðist Maskínu, mældi flokkana með 49% og Gallup 50,3%. Og Prósent mældi samanlagt fylgi Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar í 37,1% þegar þessir flokkar uppskáru aðeins 26,8%. Við munum því miða við kannanir Gallup í þessari yfirferð.
En fyrst skulum við skoða árangur Sjálfstæðisflokksins í kosningum á lýðveldistímanum. Litabrigðin aðgreina formannstíð einstakra formanna, rauðu strikin meðaltal hvers formanns.

Kosningar | Formaður | Atkvæði |
---|---|---|
1946 | Ólafur Thors | 39,5% |
1949 | Ólafur Thors | 39,5% |
1953 | Ólafur Thors | 37,1% |
1956 | Ólafur Thors | 42,4% |
1959, júní | Ólafur Thors | 42,5% |
1959, október | Ólafur Thors | 39,7% |
1963 | Bjarni Benediktsson | 41,4% |
1967 | Bjarni Benediktsson | 37,5% |
1971 | Jóhann Hafstein | 36,2% |
1974 | Geir Hallgrímsson | 42,7% |
1978 | Geir Hallgrímsson | 32,7% |
1979 | Geir Hallgrímsson | 35,4% |
1983 | Geir Hallgrímsson | 38,6% |
1987 | Þorsteinn Pálsson | 27,2% |
1991 | Davíð Oddsson | 38,6% |
1995 | Davíð Oddsson | 37,1% |
1999 | Davíð Oddsson | 40,7% |
2003 | Davíð Oddsson | 33,6% |
2007 | Geir H. Haarde | 36,6% |
2009 | Bjarni Benediktsson | 23,7% |
2013 | Bjarni Benediktsson | 26,7% |
2016 | Bjarni Benediktsson | 29,0% |
2017 | Bjarni Benediktsson | 25,2% |
2021 | Bjarni Benediktsson | 24,4% |
Þarna er best meðaltalið hjá Ólafi (40,1% ) og Bjarna eldri (39,5%), enda er það ríkjandi hugmynd meðal Sjálfstæðisflokksmanna að það sé gullöld flokksins. Hannes Hólmsteinn Gissurarson vildi hins vegar segja söguna öðruvísi, að Jón Þorláksson (1929-34) hefði verið hinn góði formaður með hina réttu stefnu. Hún hefði síðan spillst af kratisma eftirstríðsárunum en risið síðan á ný með Davíð Oddssyni og Eimreiðarklíkunni. En það er önnur saga.
Í næsta flokki eru Davíð (37,5%), Geir Hallgrímsson (37,4%), Geir H. Haarde (36,6%) og Jóhann (36,2%) og er vart sjónarmunur milli þeirra.
Restina reka Þorsteinn (27,2%) og Bjarni yngri (25,8%). Það sem einkennir formannstíð þeirra umfram hina er klofningur flokksins.
Þegar Þorsteinn rak Albert Guðmundsson úr ríkisstjórninni 1987 vegna tengsla hans við Hafskipsmálið stofnaði Albert Borgaraflokkinn og fékk 10,9% atkvæða. Auðvelt er að halda því fram að þau atkvæði hafi komið frá Sjálfstæðisflokknum en það er samt ekki víst að þau hefðu ratað þangað ef Borgaraflokkurinn hefði ekki boðið fram. Sjálfstæðisflokkurinn var í óvinsælli ríkisstjórn með Framsókn 1983-87 og bæði Alþýðuflokkurinn og Kvennalistinn nutu óvinsælda hennar í aðdraganda kosninganna. Fylgið var því að hálfu fallið frá Sjálfstæðisflokknum áður en hann klofnaði.
Og þannig er það oftast þegar klofningur minnkar fylgi flokka. Flokkar klofna vegna minna fylgis og klofningur minnkar fylgi. Þeir sem kljúfa gera það vegna þess að þeir sjá að hluti fylgisins er farið hvort og þeir vilja ná því fremur en að láta það falla til annarra flokka. Og það tekst að einhverju leyti með klofningnum, en hann ýtir enn frekar undir fylgistapið.
Þetta er vert að hafa í huga varðandi formannstíð Bjarna. Í fyrstu kosningunum eftir Hrun þegar Bjarni var nýtekinn við galt flokkurinn afhroð. En það var vegna ábyrgðar flokksins á Hruninu frekar en klofnings. Í kosningunum 2009 féll Frjálslyndi flokkurinn af þingi, flokkur sem hafði klofnað frá Sjálfstæðisflokknum á Davíðstímanum og dregið niður fylgið, einkum 2003 þegar Sjálfstæðisflokkurinn stóð veikt út af ýmsum málum sem tengja má þreytu landsmanna á Davíð og stjórnarháttum hans.
Og flokkurinn klofnaði ekki í stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn Samfylkingar og Vg 2009-13, mældist um tíma með yfir 38% fylgi í könnunum. Og ný framboð í kosningunum voru flest af miðjunni: Björt framtíð, Píratar, Dögun, Lýðræðisvaktin, Regnboginn og Landsbyggðarflokkurinn sem fengu samanlagt 20,2%. Ástæða þessa er auðvitað að mið-vinstri ríkisstjórn Samfylkingar og Vg hafði misst stuðning meðal þjóðarinnar, upplausnin var til vinstri. Ný framboð sem komu af hægri vængnum: Flokkur heimilanna, Hægri grænir og Sturla Jónsson fengu 4,8%. Þrátt fyrir þetta fékk Sjálfstæðisflokkurinn aðeins 26,7% atkvæða.
Ástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn missti af kosningasigri 2013 var úrskurður EFTA-dómstólsins í Icesave sem féllm í takt við áherslur Framsóknarflokks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem hafði fært Framsókn meira til hægri en Halldór Ásgrímsson hafði gert, og fannst þó sumum nóg um. 2013 var því sigurár Sigmundar Davíðs og Framsóknar en ekki Bjarna og Sjálfstæðisflokksins, sem hafði í reynd stutt síðustu útgáfu Icesave-samninganna.
En Sjálfstæðisflokkurinn fór í ríkisstjórn og fylgi hans jókst ekki við það. Og þegar flokkurinn tók þátt í að afturkalla aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu gegn stefnu sinni um þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn, litu Evrópusinnaðir Sjálfstæðisflokksmenn sem það sem afgerandi svik gagnvart sátt innan flokksins um að vísa ákvörðun um stefnuna til þjóðarinnar.
Viðreisnarfólk hefur viljað hafna því að flokkurinn sé klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum en það er ekki trúverðugt þar sem áhrifafólk í forystu Viðreisnar er meira og minna fyrrum félagar í Sjálfstæðisflokknum, meðal annars fyrrum formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Það dregur ekki úr klofningsupprunanum að vísa til þess að kjósendur komi víðar en frá Sjálfstæðisflokknum. Með sömu rökum mætti halda fram að Borgaraflokkurinn hafi ekki verið klofningsframboð á sínum tíma þar sem flokkurinn hafi dregið til sín atkvæði sem höfðu yfirgefið Sjálfstæðisflokkinn og ratað í millitíðinni til annarra flokka.
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs sprakk út af Panamaskjölunum eða kannski sérstaklega vegna afleitrar frammistöðu Sigmundar í sjónvarpsviðtali um Panamafélag hans og konu hans. Í kosningunum 2016 missti Framsóknarflokkurinn meira en helming atkvæða sinna frá 2013, heilar 12,9 prósentur. Af þeim rataði 2,3 til Sjálfstæðisflokksins, sem fékk 29,0% atkvæða og skilgreindi sem sigur. Viðreisn fékk 10,5% og annar flokkur sem skilgreina má sem klofning úr Sjálfstæðisflokknum, Flokkur fólksins, fékk 3,5%. Og svo fékk Íslenska þjóðfylkingin 0,2%. Samanlagt fylgi nýrra framboða til hægri var 14,2% í kosningunum 2016.
Flokkur fólksins var stofnaður af Halldóri Gunnarssyni í Holti og fleirum Sjálfstæðismönnum ásamt Ingu Sæland. Skilgreina mætti flokkinn sem framhald Frjálslynda flokksins og Flokk heimilanna, hægri flokks sem sækir inn í alþýðufylgi Sjálfstæðisflokksins, sem flokkurinn hefur vanrækt áratugum saman. Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrum þingmaður Frjálslynda flokksins, var í framboði fyrir Flokk fólksins 2016 ásamt Halldóri og í kosningunum ári síðar bættust við Sjálfstæðisflokksmennirnir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson.
Í þeim kosningum bættist Miðflokkurinn við, sem líka bauð fram fyrrum félaga í Sjálfstæðisflokknum til jafns við Framsóknarmenn. Samanlagt fylgi nýrra flokka til hægri í kosningunum 2017: Miðflokksins, Flokks fólksins og Viðreisnar var 24,5%. Sjálfstæðisflokkurinn fékk hins vegar eilítið meira, 25,3%.
Þið sjáið þróunina. Ný framboð til hægri fengu 4,8% árið 2013, 14,2% árið 2016 og 24,5% árið 2017. Frá vinstri stjórninni 2009-13 hefur verið hægri sveifla í íslenskum stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar ekki notið þess.
Og Sjálfstæðisflokknum hefur heldur ekki tekist að verða forystuflokkur þessarar hægri bylgju. 2017 kaus hann að mynda ríkisstjórn með Vg og Framsókn, skilgreindi sig sem kerfisflokk sem naut sín betur í félagi með slíkum en með flokkum sem kalla mætti nýja hægra flokka.
Það má segja Bjarna til málsbóta að lykill að hægri stjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn hefur yfirleitt verið Framsóknarflokkurinn, milli þess sem hægri kratar sinna þessu hlutverki þegar þeir hafa náð völdum í Alþýðuflokki/Samfylkingu. Og þegar Framsóknarflokkurinn klofnaði í hægri bylgjunni þannig að brotin töldu sig ekki geta unnið saman lokaðist fyrir möguleika fyrir Sjálfstæðisflokkinn að mynda hægri stjórn.
Í kosningunum 2021 fengu nýju hægri flokkarnir 22,5% atkvæða og Sjálfstæðisflokkurinn 24,4%. Þá hafði það gerst tvær kosningar í röð að Sjálfstæðisflokkurinn hafði fengið um 51-52% atkvæða hægri flokkanna samanlagt, flokka sem skilgreina má að sæki inn á hefðbundin mið Sjálfstæðisflokksins.
Ef við tökum nýjustu könnun Gallup þá er Sjálfstæðisflokkurinn með 20,8% fylgi en hinir hægri flokkarnir 21,6%. Samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokksins og hinna er 42,4%, sem á síðustu öld hefði þótt sæmileg staða Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum.
Og Bjarni Benedktsson gerir sér grein fyrir þessu, að klofningur hægrisins stendur í vegi fyrir að hægt sé að mynda hægri stjórn. Hann leggur þó ekki til að Sjálfstæðisflokkurinn breikki ásýnd sína svo draga mætti að flokknum fólk með ólíkar áherslur. Ekki heldur að flokkurinn mildi afstöðu sína til annarra flokka svo hann gæti leitt ríkisstjórn allra hægri flokkanna og þá með Framsókn. Þvert á móti hefur Sjálfstæðisflokkurinn frekar verið að þrengjast í áherslum í tíð Bjarna og fjarlægst möguleika á að leiða ríkisstjórn.
Bjarn hefur setið í ríkisstjórn í rúm tíu ár en aðeins verið forsætisráðherra í tæpt ár þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé stærstur flokka. Hann hefur setið í ríkisstjórnum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Sigurðar Inga Jóhannssonar og Katrínar Jakobsdóttur. Og staða hans og flokksins er þannig að fáir reikna með að hann geti nokkru sinni leitt ríkisstjórn.
Viðbrögð Bjarna er að kvarta undan kosningakerfinu, að það hygli stærri flokkum ekki nóg. Þetta er ekki byggt á samanburði á kosningakerfinu hér og í nágrannalöndunum, enda hyglir íslenska kerfið stærri flokkum meira en kerfin á Norðurlöndum og Hollandi, sem hafa lík kosningakerfi. Bjarni hefur viljað fjarlæga Ísland lýðræðishefð þessara landa og lagt til minni kjördæmi sem myndu hækka þröskuldinn fyrir flokka til að ná inn þingmönnum.
Bjarni vill því ekki breyta um stefnu eða taktík Sjálfstæðisflokksins svo hann fái meira fylgi eða sé líklegri til að leiða ríkisstjórn heldur vill hann tæknilegar breytingar á kosningakerfinu sem muni færa Sjálfstæðisflokknum aukin völd, meiri en hann getur sótt með óbreyttri stefnu og taktík.
Það er ólíklegt að Bjarna takist að sannfæra aðra flokka um þetta markmið, að auka völd hans og bæta upp fyrir slælegan árangur. En það er heldur ekki líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn nái að breyta um stefnu og taktík. Óánægjan innan flokksins beinist ekki að því að flokknum hafi ekki tekist að stækka eða verða meira leiðandi á tímum hægri bylgjunnar eftir ríkisstjórn Samfylkingar og Vg 2009-13 heldur frekar að því að flokkurinn hafi ekki meiri áhrif þrátt fyrir að honum hafi ekki tekist að ná betri árangri.