„Ráðherrann hefur kastað blautri tusku í andlit allra þingmanna samstarfsflokka ríkisstjórnarinnar. Það er pólitískur barnaskapur að halda að slíkt hafi ekki áhrif á samstarfið innan ríkisstjórnarinnar. Eitt er að minnsta kosti víst: Traust milli matvælaráðherra og stjórnarþingmanna er lítið og það mun hafa áhrif á samstarf þeirra á komandi mánuðum,“ skrifar Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í Mogga dagsins.
Sjálfstæðisflokkurinn lítur ekki svo á að hvalamálið hafi fjarað út, þvert á móti heldur Óli Björn því fram að þetta sé það hafi haft varanleg áhrif. Hann fer fyrst yfir stöðuna eins og hún var:
„Allt frá því að ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var mynduð fyrir sex árum hefur reynt á þanþol flestra stjórnarþingmanna með einum eða öðrum hætti. Ekki var við öðru að búast þegar þrír gjörólíkir flokkar taka höndum saman,“ skrifar hann og heldur áfram.
„Þrátt fyrir efasemdir hef ég, eins aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, haldið tryggð við ríkisstjórnina – verið heill í stuðningnum. En það hefur oft reynt á enda afsalaði enginn okkar réttinum til að gagnrýna, berjast fyrir breytingum á stjórnarfrumvörpum, standa í vegi fyrir framgangi vondra mála eða vinna að framgangi hugsjóna.·
Svo ræðir hann hversu alvarleg áhrif ákvörðun Svandísar hefur haft:
„Framganga matvælaráðherra er vatn á myllu þeirra sem efast hafa um réttmæti þess að halda áfram samstarfi við flokk sem er lengst til vinstri. Flokk sem fagnar þegar ekki er hægt að nýta sjálfbærar orkuauðlindir, flokk sem ekki er tilbúinn til að horfast í augu við vanda vegna flóttamanna, flokk sem telur betra að auka álögur á fyrirtæki og launafólk en að nýta sameiginlega fjármuni betur, flokk sem er sannfærður um að biðraðir séu betri en að nýta einkaframtakið í heilbrigðisþjónustu,“ skrifar Óli Björn.
„Eitt er víst. Við sem berjumst fyrir atvinnufrelsi, sjálfbærri nýtingu auðlinda og stjórnsýslu þar sem meðalhófs og sanngirni er gætt eigum litla samleið með ráðherra sem gengur fram með þeim hætti sem matvælaráðherra hefur gert. Það eru gömul sannindi og ný að vantraust grefur undan samstarfi,“ endar hann grein sína.
Það er vaxandi vilji innan þess sem kalla mætti grasrót Sjálfstæðisflokksins, það er flokksfólks sem ekki situr við ríkisstjórnarborðið, að könnuð verði leið til að losna út úr ríkisstjórn með Vg án þess að boða til kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn er með 17 þingmenn og Framsókn 13, samtals þrjátíu. Flokkarnir þurfa aðeins tvo þingmenn til viðbótar til að ná minnsta meirihluta. Ríkisstjórn þessara flokka með tveimur þingmönnum Miðflokksins myndi duga, en það er ólíklegt að Framsókn vilji það. Ríkisstjórn þessara flokka með fimm þingmönnum Viðreisnar gæfi 35 þingmanna meirihluta. Og meirihlutinn yrði 36 þingmenn á móti 27 þingmönnum stjórnarandstöðunnar ef Flokkur fólksins yrði tekinn inn.
Það er inn í þessar hugrenningar sem Óli Björn skrifar. Hann er að ræða við hóp Sjálfstæðisflokksmanna sem telur að þótt það hafi verið réttlætanlegt að láta Vg stoppa mál Sjálfstæðisflokksins á fyrra kjörtímabili þá sé svo ekki lengur. Bæði vegna þess að Vg stoppar nú æ fleiri mál flokksins svo honum er ómögulegt að bregðast við stöðu efnahagsmála með þeim hætti sem flokksfólk vill, en flokkurinn vill mun meiri niðurskurð opinberrar þjónustu og einkavæðingu en ríkisstjórnin stendur fyrir. En líka vegna þess að augljóst er að Vg og Katrín Jakobsdóttir eru ekki það skjól sem áður var. Vg hefur hrapað i fylgi og mörgum Sjálfstæðisflokksmanni finnst það skammarlegt að sitja í ríkisstjórn leiddri af formanni flokks sem er við það að falla af þingi.
Með því að henda Vg út og taka Flokk fólksins inn fengi Bjarni Benediktsson aftur að spreyta sig sem forsætisráðherra og með uppstokkun ráðuneyta mætti fríska upp á ríkisstjórnina í von um að það gæti aukið traust á henni.
Það sem helst stendur í Sjálfstæðisflokksmönnum er að þeir efast um að Flokkur fólksins geti skaffað þrjá þingmenn sem eru hæfir að þeirra dómi til að koma inn í ríkisstjórn. Mannaval Viðreisnar er betra að mati flokksfólks, en þar er málefnaágreiningur meiri. Viðreisn myndi styðja niðurskurð ríkisútgjalda en gæti lagt fram ýmsar kröfur sem færu illa í Sjálfstæðisflokksfólk og enn frekar Framsóknarmenn.