Enn hækkar Seðlabankinn vexti, orðnir 9,25% í 6,7% verðbólgu

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 9,25%.

„Verðbólga hefur hjaðnað undanfarið og mældist 7,6% í júlí. Framlag húsnæðisliðarins til verðbólgu hefur minnkað, dregið hefur úr alþjóðlegum verðhækkunum og gengi krónunnar hækkað. Innlendar verðhækkanir hafa hins vegar reynst þrálátar og eru enn á breiðum grunni. Undirliggjandi verðbólga hefur því minnkað hægar en mæld verðbólga og var 6,7% í júlí,“ segir peningastefnunefnd Seðlabankans í rökstuðningi sínum fyrir hækkun vaxta.

Peningastefnunefndin heldur áfram: „Hagvöxtur mældist 7% á fyrsta fjórðungi þessa árs og atvinnuleysi hefur haldið áfram að minnka. Enn er því töluverð spenna á vinnumarkaði og í þjóðarbúinu í heild þótt vísbendingar séu um að tekið sé að hægja á vexti efnahagsumsvifa.

Verðbólguhorfur til lengri tíma hafa lítið breyst þótt horfur til skamms tíma hafi batnað frá því í maí. Þá eru verðbólguvæntingar til lengri tíma vel yfir markmiði. Því er enn hætta á að verðbólga reynist þrálát.

Í ljósi þess er nauðsynlegt að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Einkum er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags. Vísbendingar eru um að áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram og mun peningastefnan á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“

Vextir hafa nú hækkað við hvert tilefni fjórtán skipti í röð, á hverjum fyrirfram ákveðnum vaxtaákvörðunardegi, síðan í maí 2021 þegar stýrivextir voru 0,75%. Íslenski seðlabankinn byrjaði fyrr en aðrir að hækka vexti og þeir hafa verið hærri hér en annars staðar. Í okkar heimshluta koma Bandaríkin næst með 5,50% stýrivexti og síðan Bretland með 5,25% og Evrusvæðið með 4,25%.

Stýrivextir í Svíþjóð er 4,00% en 3,75% í Noregi og 3,35% í Danmörku. Finnland fylgir evrunni. Ísland er með 9,25% vexti í dag, eilítið undir 9,50% vöxtum í Úganda og Sambíu og eilítið yfir 9,00% vöxtum í Aserbaísjan.

Stýrivextir Seðlabanka er óvíða jafn jákvæðir sem hér. Annars staðar stendur Seðlabankinn ekki eins einarðlega með fjármagnseigendum og vernda jafn vel auð þeirra. Stefnan hefur verið sú í Evrópu að fara í gegnum verðbólguna í kjölfar cóvid og eftir innrásina í Úkraínu þannig að byrðarnar dreifist víðar.

Vextir á Íslandi eru helmingi hærri en í næstu löndum. Og ástæðan er ekki að hér sé verðbólga svo mikið hærri. Miðað við samræmda verðbólgu mælingu evrópsku hagstofunnar er verðbólga á Íslandi þó núorðið hærri en í okkar heimshluta, aðeins hærri í Austur-Evrópu, en munurinn er ekki svona mikill. Verðbólga fer lækkandi í Evrópu þrátt fyrir að þar séu stýrivextir helmingurinn af því sem hér er.

Hér má hlýða á Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu og staðgengill formanns og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans og framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu, grein fyrir yfirlýsingu peningastefnunefndar og kynna efni Peningamála: Bein útsending

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, spáði því í gær að Seðlabankinn myndi hækka vexti í dag, að hann myndi svara kalli fjármagnsins og ekki hlífa almenningi í landinu. Sjá frétt Samstöðvarinnar af þeim ummælum hér:

Vilhjálmur Birgisson ræddi stýrivexti meðal annars í samtali við Rauða borðið í gær. Þar segir hann að Seðlabankinn láti undan kröfum bankanna um hærri vexti, sem síðan magni upp ofsahagnað bankanna en grafi undan lífskjörum almennings og afli fyrirtækjanna. Heyra má og sjá viðtalið hér:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí