Samtökin 22, sem kalla sig hagsmunasamtök samkynhneigðra en hafa þó verið fordæmd af yfirgnæfandi meirihluta samkynhneigðra á Íslandi, héldu málþing í dag í sal Miðflokksins. Samtökin hafa ítrekað tilkynnt nýjan vettvang málþingsins, en svo virðist sem staðhaldarar hafi í fyrstu gefið grænt ljós en svo hafi runnið tvær grímur á þá. Fyrir fáeinum dögum auglýstu samtökin að málþingið yrði haldið í Þjóðminjasafni Íslands. Það varð til þess að safnið þurfti að árétta að Samtökin 22 væru ekki með fyrirlestrarsalinn bókaðann á Facebook.
Þrátt fyrir nafnið þá eru Samtökin 22 í raun fyrst og fremst einn maður, Eldur Deville. Markmið þeirra virðist fyrst og fremst snúast um að ráðast gegn réttindabaráttu transfólks. Síðastliðinn apríl fordæmdu tæplega þrjú hundruð samkynheigðir Íslendingar að vísað sé til Samtakanna 22 sem hagsmunasamtaka samkynhneigðra. Samtökin 78 lýsa Samtökunum 22 svo á heimasíðu sinni:
„Samtökin 22 eru lítill hópur fólks sem hafa frá stofnun sinni ekki unnið að hag samkynhneigðra heldur fyrst og fremst alið á fordómum gegn transfólki, líkt og auðvelt er að sjá af samfélagsmiðlavirkni þeirra og öllum opinberum málflutningi. Samtökin 22 starfa því undir því yfirskini að vinna að réttindum homma og lesbía, en í öllum tilvikum virðist barátta þeirra fyrst og fremst snúast um að ráðast að réttindum transfólks sem tryggð eru með lögum um kynrænt sjálfræði frá árinu 2019.“
Ekki verður séð að af myndum sem Samtökin 22 deila á Facebook að málþingið hafi verið vel heppnað. Þrír voru mættir ef marka má myndir samtakanna. Líkt og fyrr segir þá var það haldið í húsnæði Miðflokksins í Hamraborginni. Á hinn bóginn var ekki þverfótað fyrir fólki í Miðbænum á Gleðigöngu hinsegin daga.